19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (3576)

2. mál, heimilistæki

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins skýra brtt. á þskj. 104, sem ég er flm. að ásamt hv. 4. þm. Reykv.

Þessi till. er fram komin í því skyni, að um leið og reynt er að gefa almenningi frekari kost á að eignast þessi nauðsynlegu tæki, þá verði það og ákveðið af Alþ., að ekki verði tekinn af þessum vélum óhóflegur verzlunarágóði. Og þar sem hv. alþm. virðast sammála um, að rýmka beri um innflutninginn, og einnig er fram komin sérstök till. um að taka burtu sérstakan skatt af þessum tækjum, þá virðist mega ætla, að þingvilji sé fyrir því, að neytendur fái þessi tæki eins ódýrt og unnt er. Hér er lagt til, að ríkisstofnun flytji tækin inn og taki ekki hærri álagningu en 3% af andvirði vélanna, kominna um borð í erlendri höfn, auk kostnaðar, svo sem vegna síma og banka. En eftir þeirri reglugerð, sem nú tíðkast um álagningu. mun hún nema á þessum vélum um allt að 25–30%, ef allt er talið. Eins og málið horfir við, virðist mér mega vænta þess, að Alþ. geti fallizt á þá nauðsyn, sem ber til að lækka þannig álagninguna á þessi tæki.