15.02.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (3588)

2. mál, heimilistæki

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Vegna þess, hve langt er orðið síðan mál þetta var hér síðast á dagskrá, þá vil ég rifja upp, hvernig málin stóðu, þegar umr. var frestað. Allshn. hafði skilað áliti á þskj. 108 og gert breyt. á upphaflegu till. Eftir að nál. kom fram hafa borizt 2 brtt., önnur á þskj. 149 frá hv. 1. þm. N-M. og hin á þskj. 104 frá hv. 6. landsk. og hv. 4. þm. Reykv., og það var vegna þeirrar till.umr. var frestað í bili vegna óska um, að málið væri athugað nánar. En till. er svo hljóðandi: „Aftan við tillgr. komi ný mgr., svo hljóðandi: Innkaupastofnun ríkisins verði falinn innflutningur heimilisvéla, og er henni ekki heimilt að taka hærri álagningu en 3% af andvirði vélanna kominna í skip í útflutningshöfn.“ Og það, sem óskað var að athugað yrði, var það, hvort fært þætti að samþ. þessa till. og fela Innkaupastofnuninni að annast þennan innflutning. Það út af fyrir sig, að þetta er ekki hægt að leysa, nema með lagabreytingu, er auðvelt, þar sem hægt er með lagafrv. að breyta l. um Innkaupastofnun ríkisins, en þá var að athuga, hvort hún gæti annazt það fyrir þessa þóknun og hvort slíkt þætti rétt. Nefndin leitaði sér þá upplýsinga hjá ýmsum innflytjendum, sem annazt hafa slíkan innflutning, og hefur hún fengið það svar hjá þeim, að það sé ekki hægt að annast slíkan innflutning fyrir aðeins 3%, enda taka bankarnir hátt í 2% þar af, og þegar þar að auki þarf að greiða fyrir fram vexti 2–3%. Það verður því ekki hægt, að Innkaupastofnunin annist þetta fyrir ekki meira gjald, og er því meiri hl. allshn. á móti till. að svo stöddu.

Um till. á þskj. 149 vil ég segja það, að ég held, að meiri hl. n. sé sammála um það, að till. sé óþörf, eftir að nál. á þskj. 108 hefur verið lesið, en vegna þess, að þessi till. er komin fram, og þar sem það mundi gefa slæman blæ að fella hana, vill meiri hl. n. mæla með, að hún verði samþ., en raunar nær till. á þskj. 108 fyllilega yfir það, sem felst í till. hv. þm. N-M. — Ég vænti þess svo, að till. á þskj. 108 verði samþ. eins og hún kom frá n.