24.11.1949
Sameinað þing: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (3631)

24. mál, læknisbústaður á Reykhólum

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Till. þessi til þál. er ekki borin fram vegna læknishéraðsins á Reykhólum, heldur vegna Reykhóla sjálfra og framkvæmda þeirra, sem þar eru á döfinni og fyrirhugaðar, enda er málið borið fram af atvmrn., en ekki af heilbrmrn. Ég vil nú skýra þetta í nokkrum orðum.

Reykhólar hafa frá upphafi verið eitt af gagnauðugustu stórbýlum landsins, og er margt, sem stuðlar að því: mikið og gott land, jarðhitasvæði mikið og margs konar sjávarnytjar á engjum og útskerjum, þó að það hafi gengið úr sér á síðari árum. Eins og kunnugt er, var búið þarna miklu stórbúi fyrr á árum, en á síðari árum hafa ekki ráðizt þangað menn, sem ráðið hafa við jörðina. Það varð því úr, að ríkið yfirtók jörðina og þar voru síðan hafnar opinberar framkvæmdir í því skyni að reisa staðinn við að nýju. Þar hefur verið komið á laggirnar einni af fjórum tilraunastöðvum landbúnaðarins. Á Reykhólum var áður prestssetur og læknissetur, og nú stendur til að reisa þar heimavistarskóla. Þá var skipuð sérstök stjórn fyrir staðinn, og er hv. þm. Barð., Gísli Jónsson, form. hennar. Síðastliðið vor fól atvmrn. n. að gera till. um framtíðarskipulag Reykhóla, og hefur n. unnið að þessu og lagt fyrir ráðuneytið drög að áætlun um framkvæmdir. Ég vil nú gera nokkra grein fyrir þessum till. Hálflenda jarðarinnar er nú í fastri ábúð, og leggur n. til, að hún verði leyst úr henni með samningi við ábúandann, Tómas Sigurgeirsson, og mun verða hægt að ná samkomulagi við hann, að hann sleppi þeim hluta jarðarinnar, sem hann hefur til ábúðar. Þá er gert ráð fyrir því, að ríkið yfirtaki læknisbústaðinn með öllu því landi, sem honum fylgir, og hitaréttindin, með þeim skilmálum, sem þeim fylgja. En þannig er ástatt, að læknishéraðið hefur eignazt hluta jarðarinnar og byggt þar læknisbústað. En þessu landi, sem er um 20 hektarar að stærð. fylgir geysilegur jarðhiti og mestur hluti þess jarðhita, sem er á Reykhólum, en til þess að ná þeim jarðhita, sem nauðsynlegur er til þeirra framkvæmda. sem fyrirhugaðar eru á jörðinni. verður að ná samkomulagi við læknishéraðið. Af þessum ástæðum hefur ráðuneytið lagt til með þessari þáltill., að það fái heimild til að semja við læknishéraðið á Reykhólum, að það láti af hendi land og hitaréttindi, eins og fram kemur í álitsgerð nefndarinnar. Enn fremur leggur það til, að landið verði undirbúið til ræktunar samkvæmt síðustu skipulagsteikningu landnámsstjóra, ef ekki þykir heppilegt að nota það til annars. Enn fremur verði nýbýlastjórn afhent jörðin til að koma þar upp samvinnubyggð. Þá hefur verið rætt við landnámsstjóra, og er hann fús til að leggja til, að Reykhólar verði teknir og komið þar upp nýbýlahverfi. Þykir mér rétt að skýra þetta nokkuð með því að lesa kafla úr bréfi frá skipulagsn. Reykhóla, með leyfi hæstv. forseta:

,Læknishéraðið hefur varanlegan umráðarétt yfir landsvæði, sem er milli 20 og 30 ha, og fylgja nokkrir hverir landi þessu, auk þess sem mikill jarðhiti er í landi þessu á svonefndu Bolaskeiði. Nær land þetta inn í hið skipulagða svæði heima á Reykhólum, en að öðru leyti liggur land þetta þannig, að framkvæmdir til ræktunar verða að gerast sameiginlega með öllu landi staðarins. Þessu landi fylgja einnig ákveðin beitarréttindi í útlandi jarðarinnar. Á landi þessu er læknissetrið, sem er steinhús, nýviðgert. Það er nauðsynlegt vegna allra framkvæmda á hinu skipulagða svæði og utan þess, svo og með tilliti til hagnýtingar jarðhitans, að land þetta sé í umráðum ríkisins. Af þeim ástæðum þykir sjálfsagt að leggja til, að ríkið yfirtaki eign þessa með þeim skilmálum, er að framan greinir.“

Þá segir þar enn fremur:

„Ræktanlegt land, sem að mestu liggur samfellt, er rúmir 100 ha. Framræsla á þessu landi og ræktunarvegir, vatnsleiðsla og virkjun jarðhitans eru framkvæmdir, sem fyrst verða að koma, til að hin miklu skilyrði jarðarinnar geti orðið hagnýtt og framkvæmdir þessar komi að fullu gagni, hvort heldur þarna yrði stofnað til samvinnubyggðar eða þar yrði komið upp verknámsskóla í þágu landbúnaðarins og iðnaðar, er byggður væri á landbúnaðarframleiðslu.“

Þetta eru rök n., og hefur rn. fallizt á þau. Hafa verið teknir upp samningar við stjórn læknishéraðsins, en að því standa tveir hreppar, sem eiga læknisbústaðinn og land það, sem honum fylgir. Og telja þeir sig fúsa til að láta af hendi hús, land og jarðhita gegn því, að ríkið taki að sér viðhald á húsinu. Ég tel þetta svo nauðsynlegan lið í þeirri viðleitni að endurreisa Reykhóla, að ég legg til, að Alþ. gefi heimild til að semja við stjórn læknishéraðsins, svo að hægt verði að koma fullkomnu skipulagi á framkvæmdir þarna. Ég er ekki í vafa um, að ef það verður gert, getur risið þarna upp blómlegt nýbýlahverfi og menningarstöð, sem nauðsynlegt er að komi sem víðast, af ástæðum, sem öllum eru kunnar. Ég vil svo leggja til, að málinu verði að umr. lokinni vísað til hv. fjvn.