25.01.1950
Sameinað þing: 21. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (3636)

24. mál, læknisbústaður á Reykhólum

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er ef til vill vegna þessa sérstæða tilboðs, sem ég tel rétt að athuga þetta mál nánar, því að slík boð eru ekki venjuleg, og þm. er það algerlega óvænt, ef hér er um hreina gjöf að ræða. Ég tel líka nokkra hættu á því, að fleiri héruð komi á eftir og óski eftir, að ríkið taki að sér rekstur læknisbústaða þeirra, ef farið er inn á þá braut. Nú kunna að vera skiptar skoðanir um, hvort sú leið sé heppileg, og þess vegna tel ég rétt, að málið verði athugað nánar og þá fyrst leitað álits landlæknis. Þessu vil ég skjóta til hv. frsm. og vonast til, að hann geti tekið það til greina, enda ætti ekki neinu að vera spillt, þó að afgreiðsla málsins dragist í tvo eða þrjá daga.