18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (3652)

86. mál, réttarstaða og atvinnuskilyrði kvenna

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir) :

Herra forseti. Till. sú, sem ég ber hér fram á þskj. 173, er þess efnis, að kjósa skuli þriggja manna mþn. til að gera rækilega athugun á réttarstöðu og atvinnuskilyrðum kvenna, en að lokinni þeirri athugun skuli n. gera tillögur um breytingar á gildandi 1., er nauðsynlegar kunna að reynast til að tryggja konum jafnrétti við karla, bæði að lögum og í framkvæmd, og enn fremur um ný lagaákvæði, er rétt þyki að setja til að tryggja konum sömu aðstöðu og karlmönnum til að sjá fyrir sér og sínum og njóta hæfileika sinna í starfi. Þetta er atriði, sem ekki virðist vera alveg ljóst í íslenzkum l., þrátt fyrir það að víða er eitthvað tekið fram um þetta. Vil ég þar til dæmis nefna l. um réttindi kvenna til náms og einnig grein í launal. um það, að konur skuli að öðru jöfnu hafa sama rétt til launa og tilfærslu milli starfa sem karlar. En að öðru leyti er eiginlega allt óljóst um þetta, og að því er snertir fyrra atriðið, um nám, er réttur kvenna mjög fyrir borð borinn, einkum að því er snertir iðnaðarnám. Ég segi ekki, að það sé vegna vöntunar á l. um það efni, en það þarf að fá úr því skorið, hvort það er löglegt, sem gert er, þegar konur fá ekki að stunda nám í vissum greinum. Það er að vísu rétt, að í sumum starfsgreinum njóta konur sama réttar og karlar, en aftur á móti hefur annað verið upp á teningnum í skrifstofum ríkisins og víðar, þrátt fyrir þá lagagrein, sem ég áðan nefndi, og byggist það einkum á því, er ég drap á í grg., að þrátt fyrir það að greinin er þarna og ætti að vernda rétt kvenna um sömu laun fyrir vinnu sína og um heimtingu á því að fá stöður, — þrátt fyrir það er nú reynslan sú. að störfin eru flokkuð blátt áfram með tilliti til þess, hvort þau eru ætluð körlum eða konum, þannig að þau störf, sem konur vinna, eru verr launuð án tillits til þess, hvort þau krefjast meiri menntunar, starfshæfni eða starfsorku. Þetta er vandamál. sem ekki verður leyst með lagabókstaf, en mætti þó þoka nokkuð áleiðis með þeirri rannsókn, sem hér um ræðir. Miðar seinni liður till. einmitt að því, að sett verði ný lagaákvæði, með tilliti til þess, sem ég nú nefndi, þar sem réttindi kvenna eru einkum fyrir borð borin.

Ég þykist hafa ástæðu til að ætla, að þessari till. minni verði vel tekið, vegna þess að í Ed. var á síðasta þingi samþ. rökst. dagskrá, sem hnígur í sömu átt og þessi till. mín. Vil ég leyfa mér að lesa hana hér upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti rannsaka, að hve miklu leyti kvenfólk nýtur ekki sömu réttinda nú og karlmenn, og að þeirri rannsókn lokinni leggi fyrir Alþingi frumvarp til laga eða breytinga á eldri lögum, eftir því sem þurfa þykir, til þess að skapa sem fullkomnast lagalegt jafnrétti milli kvenna og karla í þjóðfélaginu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þetta var hin rökst. dagskrá, sem samþ. var í Ed. á síðasta þingi, og hef ég í trausti þess, að þetta hafi verið meining þeirra, sem að þeirri till. stóðu — og meiri hl. Alþ. mun vera á sömu skoðun og sá meiri hl., sem þar var —, borið fram þessa till., sem hér liggur fyrir, og vænti þess, að hún fái fljóta og góða afgreiðslu. Mér þykir svo eðlilegt, að þessi till. fari til athugunar í allshn., og geri það að till. minni.