18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (3653)

86. mál, réttarstaða og atvinnuskilyrði kvenna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja mikið umr. í sambandi við þetta mál. Það er rétt, sem flm. sagði, að þetta mál var til athugunar í Ed. og borin þar fram og samþ. sú rökst. dagskrá, sem flm. las upp, vegna þess að við rannsókn á málinu í Ed. kom í ljós, að kvenfólk hefur mun meiri rétt en karlmenn á ýmsum sviðum, og við, sem stóðum að þessari till., vildum ekki rýma þann rétt kvenna með því að samþ. frv. eins og það lá fyrir. Svo að maður taki dæmi í sambandi við tryggingalöggjöfina, þá fær kona nú fullar barnabætur, barnalífeyri, ef hún missir mann sinn, en missi maður konu sína, fær hann ekki bætur, og svona er það á fleiri sviðum. — Annars stóð ég upp til þess að mótmæla því, að konur hafi orðið út undan í launagreiðslum á skrifstofum ríkisins. Þetta er rangt, og vil ég biðja flm. að minnast þess, að í einu af allra beztu embættum landsins, ríkisféhirðisembættinu, er kona, sem heldur þar öllum sömu réttindum og sömu launum og karlmaður héldi, ef hann færi í það starf. Er leiðinlegt að vera að bera slíkt fram hér á Alþ. í sambandi við nokkurt mál. Ég vil líka mótmæla því, að störfin séu flokkuð þannig, að tilraunir séu gerðar til þess að greiða konum lægri laun en karlmönnum, heldur er um þetta farið eftir störfunum, hvort heldur það eru karlar eða konur, sem þau skipa.

Ég skal hins vegar greiða till. atkv, til nefndar, og n. mun fyrst og fremst fá þær upplýsingar frá ráðuneytinu, hvað hafi verið gert í sambandi við rökstuddu dagskrána, sem fylgir grg. og borin var fram og samþ. í Ed. á síðasta þingi.