18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (3655)

86. mál, réttarstaða og atvinnuskilyrði kvenna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leggja áherzlu á að mótmæla, að gerður sé greinarmunur eða nokkur tilhneiging sé til að lækka kaup vegna þess, að kona eigi í hlut, en starfsfólkið er flokkað í sérstaka flokka án tillits til þess, hvort um karla eða konur er að ræða, og hv. 8. þm. Reykv. hefur sömu laun hér í þinginu og við karlmennirnir. En hér kemur fram það sama eins og þegar frv. var til umr., að blandað er saman samningum við aðra vinnuveitendur. — Þá var hv. þm. að tala um það, að konum væri bannaður aðgangur að skólum, en ég veit ekki til, að það sé gert, nema um bændaskóla og sjómannaskóla eða slíka sérskóla sé að ræða, og er það ekki meira en karlmönnum er bannað að ganga í húsmæðra- og kvennaskóla.