18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (3656)

86. mál, réttarstaða og atvinnuskilyrði kvenna

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir) :

Herra forseti. Það er ekki gert ráð fyrir því í launal., að í sumum flokkunum séu karlmenn og í öðrum konur, en svo er það í framkvæmdinni. Þó er ekki gerður greinarmunur á því, þegar um er að ræða kennarastöður, og þegar ég var þingskrifari hérna, fékk ég sömu laun og karlmennirnir, en þegar ég vann á skrifstofu hjá ríkinu, þá sat við næsta borð við mig unglingur, sem var sæmilega skrifandi á íslenzku, en var ekki skrifandi á erlendar tungur, en af mér var krafizt, að ég gæti skrifað bréf á 3 tungum, en hann hafði samt sem áður hærri laun, og þetta var gert í samræmi við launalögin, svo að ég þekki báðar hliðarnar. — Og að lokum vil ég segja það, að ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að hv. þm. Barð. geti farið í húsmæðraskóla, ef hann kærir sig um.