09.03.1950
Sameinað þing: 32. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í D-deild Alþingistíðinda. (3897)

126. mál, útflutningur veiðiskipa

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. N-Ísf. (SB) gat þess í sinni ræðu, að till. þessi til þál., sem hér er um að ræða, væri þannig, að vafasamt væri, hvort rétt hefði verið að bera hana fram á hæstv. Alþ. Um það út af fyrir sig skal ég ekki ræða, en mér þykir rétt að benda á, að hér er um svo einstætt mál að ræða, alveg sérstakt mál, að afgreiðsla þess varðar miklu síðar meir fyrir a. m. k. íslenzka ríkissjóðinn, og þess vegna er ekki sama, hvernig þetta mál verður afgreitt.

Þessi þáltill., sem borin er fram hér í einni málsgrein, fjallar um raunverulega þrjú óskyld atriði. Í fyrsta lagi um það, hvort leyfa skuli útflutning ákveðinna skipa, og er um það fyrsti málsl. Næsta atriðið er, að Alþ. leggi til, að íslenzka ríkið taki á sig fjárhagslegar greiðslur af sérstökum ráðstöfunum til þess að fiytja þessi ákveðnu skip heim, sem upplýst er hér í umr., að muni nema 600–700 þús. kr. Í þriðja lagi er hér lagt til, að ríkissjóður taki að sér að greiða ákveðnar upphæðir til ákveðinna manna, sem upplýst er, að nemi 360 þús. kr. Um þetta allt fjallar till. Og satt að segja undraði mig nokkuð, þegar hæstv. forseti úrskurðaði, að um þessa till. skyldi fara fram ein umr. Ég segi þetta ekki til gagnrýni, því að það var að sjálfsögðu mér og öðrum hv. þm. innan handar að gera við það aths. En mér skilst, að um þessa till. hefðu átt að fara fram tvær umr., ekki aðeins vegna þess, að hún kann að skapa ríkissjóði hátt á aðra millj. kr. útgjöld, ef hún verður samþ. og heimildin notuð, heldur einnig vegna þess, að hún mundi skapa slíkt fordæmi, að það mundi skapa ríkissjóði tuga millj. kr. útgjöld í framtíðinni, ef ætti að fara eftir því fordæmi, sem hér væri skapað. Mig furðar þó enn meira á því, þegar hv. flm. gerir það að till. sinni, að þessi þáltill. fari til allshn., en ekki fjvn. Það hafa mál um minni fjárhagsatriði en þetta, sem skiptir millj. kr. fyrir ríkissjóðinn, farið til fjvn. til athugunar, og hefur sú afgreiðsla þótt sjálfsögð, en ekki, að þau mál færu til allshn. Og þó að því verði ekki breytt, að ein umr. verði um till., þá vil ég gera það að till. minni, að till. verði vísað til fjvn., af þeim ástæðum, sem ég hef greint.

Mér skilst, að hv. flm. hafi sakað nokkuð viðkomandi útgerðarmann fyrir flótta úr landi og einnig um sviksemi við sína skipverja og aðra þá, sem eiga hjá honum fé. Ég skal ekki blanda mér í þetta atriði, en vil benda hv. flm. á, að samkvæmt ákvæðum sjómannalaganna frá 1930 þá hafa þeir ákveðinn rétt, og ég efa, að þeir hafi haft þann rétt að neita að sigla skipunum til Nýfundnalands samkvæmt þeim l. Annars er það upplýst, að það hefur verið gert með þeirra samþykki. En þeir höfðu annan rétt, sem ekki er vefengdur, og það er að ganga af skipinu í fyrstu höfn, sem skipið kom í, eftir að ferðinni var haldið áfram lengra, en þeir sjálfir vildu vera láta. Þessi réttur er alveg skýr í sjómannal., og þar gátu þeir tryggt sér allan þann rétt gagnvart þeim kröfum, sem þeir áttu á útgerðina. Þeir gátu haft samband við ræðismann Íslands og gert kröfu um að fá sitt kaup greitt, ekki einasta til þess dags, sem þeir gengu af skipinu, heldur til þess dags, sem þeir komu heim til sinnar skrásetningarhafnar, og þar með talinn flutningskostnaður og fæði til þess dags, sem þeir komu heim. Þetta er það, sem skeður daglega hjá skipverjum, sem sigla um heimshöfin, og þessi réttur sjómannsins er ákaflega sterkur. Þessum rétti gátu þeir beitt, og ef þeir vanræktu þennan rétt, þá var það ekki sök útgerðarmannsins. Alþ. þarf því á engan hátt að taka að sér að greiða þær 360 þús. kr., sem hér um ræðir, og hefði ekki þurft að gera, ef þeir hefðu beitt þeim rétti, sem þeir áttu hér í þessum l. Ég veit ekki, hvort hv. flm. hyggur, að það sé lagabrot að sigla íslenzkum skipum til annarra landa og starfrækja þau þar árum saman. Hvað hyggur hann um norska verzlunarflotann, sem ekki er heima árum saman og starfræktur er í öðrum heimsálfum? Ég þekki mörg dæmi, þar sem norskir skipaeigendur hafa siglt skipum sínum allt upp í 10 ár, án þess að koma í norska höfn. Hyggur hann, að slíkt sé flótti frá sinni þjóð? Það er síður en svo. Það er til þess að bjarga norsku þjóðinni, að miklum hluta af hennar skipaflota er siglt á öllum heimshöfum. Hitt er svo annað atriði, að viðkomandi aðilar geta ekki selt slíkar eignir, nema með leyfi íslenzkra yfirvalda, og má ekki blanda þessum tveimur atriðum saman. Sú ráðstöfun útgerðarmannsins að hafa flutt sig til á önnur fiskimið og gera tilraun til að selja afla sinn í öðru landi getur ekki varðað við íslenzk lög undir neinum kringumstæðum. Mér þætti gaman, ef hv. flm. vildi benda á þann lagabókstaf, sem sýndi hið gagnstæða í þessu máli. Það er svo annað atriði, ef íslenzkur útgerðarmaður fer að selja þá eign annars staðar, því að það getur hann ekki gert nema hann fái til þess sérstakt leyfi. Ég vil í sambandi við þetta benda á, að það hefur verið látið óátalið, þó að gamli Lagarfoss væri fluttur úr landi til að höggva hann upp. Það getur verið, að það hafi verið leyft, en þetta er ekki nema það, sem er venja. Það hefur ekki verið lengra gengið, þó að skip hafi verið selt til þess að höggvast upp, en hins vegar er skylda að skila gjaldeyrinum. Ég vil einnig benda á, að ég hef ekki heyrt bornar fram ásakanir, þó að 2 íslenzkir togarar hafi árum saman verið í Englandi. Þeir eru þar sem íslenzk eign, og ég hygg ekki, að þeir eigendur hafi brotið lagabókstaf, þó að þeir hafi lagt þeim skipum þar upp 2–3 ár. Og hvers vegna gæti það verið samkvæmt íslenzkum l. að afskrá skipshafnir í Englandi, leggja þar skipum í öruggt lægi og láta þau liggja þar 2–3 ár, hvers vegna er það samkvæmt íslenzkum l., en gagnstætt íslenzkum l. að senda áhöfn og veiðiskip til Nýfundnalands og leggja þeim þar í öruggri höfn? Ég held, að hv. flm. hafi farið fulllangt í ásökunum til útgerðarmannsins um þetta atriði. Hér hefur verið bent á, að ef Alþ. á að taka að sér að gera ráðstafanir til þess að koma þessum skipum heim aftur til Íslands og bera þann kostnað, þá muni sá kostnaður nema 700 þús. kr. Það hefur verið upplýst af hv. flm., að ef eigi að tryggja skipverjum kröfur frá s. l. sumri, þá muni það kosta ríkissjóð 360 þús. kr. Nú skulum við hugsa okkur, að hvort tveggja þetta þyki nauðsynlegt til þess að fyrirbyggja, eins og segir í grg., að slíkt endurtaki sig. En er þá hv. flm. viss um, að það yrði fyrirbyggt, þó að þessi till. yrði samþ., sem hér um ræðir? Hefur ríkisstj. eða Alþ. nokkur tök á því í dag, að menn fari ekki áframhaldandi með skip sín úr landi? Mundi það ekki ýta undir menn, sem komnir eru í fjárþröng, að gera þetta, ef þeir vita, að Alþ. er fljótt til þess að hlaupa til og sækja skipin á sinn kostnað og greiða áhvílandi skuldir? Þá erum við komnir inn á braut, sem er svo hættuleg, að ég veit ekki, hvar það endaði. Mér dettur hins vegar ekki í hug að halda, að nokkrum manni komi til hugar að skerða svo frelsi útgerðarmanna almennt að meina þeim að ferðast með skip sín til annarra staða en umhverfis Ísland, en öðruvísi er ekki hægt að fyrirbyggja, að þetta endurtaki sig. Þau rök, sem hv. flm. færir fram, að það eigi að gera þetta til þess að fyrirbyggja, að þetta endurtaki sig í framtíðinni, eru því röng. Sannleikurinn er sá, að samkvæmt siglingalöggjöfinni getur hver skipstjóri, sem siglir skipi í erlenda höfn, takmarkalítið tekið fé og vistir út á bæði farm og skip, ef hann þarf á því að halda, og þetta veit viðkomandi aðili. Skipsmenn þeir, sem hér um ræðir, höfðu því fullkominn haldsrétt á viðkomandi skipi, þar til þetta var greitt, og það er ekki ný bóla, að íslenzkir útgerðarmenn hafi orðið að sætta sig við það, að skipi hafi verið haldið í höfn þannig vegna stórkostlegrar viðgerðar, þar til þeir sjálfir eða íslenzkir bankar hafa leyst út slíkar kröfur, og það er engan veginn á valdi hv. þm. Ísaf. að stöðva slíkt, þó að þessi till. verði samþ. Það er því ógerningur að koma í veg fyrir það, ef menn vilja beita slíku, að menn sigli skipum sínum til annarra landa, stofni til skuldar og láti setja haldsrétt á skipin og selja þau þar á uppboði til greiðslu slíkra skulda. Það, sem mér skilst, að skuldareigandi hér verði að gera í þessu máli, hvort sem það eru skipverjar eða aðrir aðilar, það er að tryggja sér eignina, þar sem hún nú er, og láta annaðhvort fara fram á eigninni sölu þar í landi og bjóða hærra en þær kröfur eru, sem liggja á þessum flota þar, og sigla síðan sjálfur skipunum heim á sinn kostnað til þess að hafa eitthvað upp í sínar kröfur eða tapa skuldinni. Ég sé ekki aðra leið. Mér finnst fjarstæða að ætlast til, að Alþ. hlaupi hér fram fyrir skjöldu hjá öðrum mönnum, sem eiga hér kröfur upp á nærri 3 millj. kr., og ráðstafi þeim sem sínum kröfum á ríkisins kostnað. Þetta er mál milli veðhafa og útgerðarmanns, en getur ekkert komið ríkissjóði við. Ég harma það, að skipverjar skyldu ekki beita þeim rétti, sem þeir áttu, þegar þeir voru um borð í skipinu, og ég geri ekki ráð fyrir, að sé enn fyrndur. Ég hygg, að þeir geti enn látið fastsetja skipin og selja þau, til þess að fá sína skuld greidda samkvæmt gildandi l. um þessi mál, svo að af þeim ástæðum er óþarfi fyrir ríkissjóð að hlaupa hér undir bagga. Hitt er annað atriði, að mér finnst ekki óeðlilegt, þó að Alþ. samþykki að skora á ríkisstj. að leyfa ekki útflutning á þessum skipum fyrr en tryggt er, að þessir aðilar hafi allir fengið sínar greiðslur. Það er ekki óeðlilegt og kemur ekki við því að baka ríkissjóði stórkostleg útgjöld, eins og ætlazt er til með þessari till.