16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í D-deild Alþingistíðinda. (4117)

162. mál, Marshallaðstoð til vatnsorkuvirkjana

Emil Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð. Ég tók eftir því í ræðu hæstv. landbrh. (HermJ), að um það hefði verið gerður samningur milli stjórnarflokkanna, að Marshallféð ætti í fyrsta lagi að renna til Sogsvirkjunarinnar, í öðru lagi til Laxárvirkjunarinnar og í þriðja lagi til áburðarverksmiðju, og lengra næði það samkomulag ekki. Ég saknaði þarna mikið eins hlutar, og það er sementsverksmiðja. Það er mikil þörf fyrir slíka verksmiðju, og fyndist mér jafnvel geta komið til álita, hvort hún ætti ekki að ganga fyrir áburðarverksmiðju. En ef svo er ekki talið og háttvirtir stjórnarflokkar búnir að semja um þetta, vildi ég bera fram þá fyrirspurn, hvort ekki kæmi til álita, að sementsverksmiðja kæmi í beinu framhaldi af þeim framkvæmdum, sem hafa verið undirbúnar, ásamt þeim smávirkjunum, sem hér hafa verið nefndar, því að á þeirri áætlun, sem gerð var, þegar fyrst var farið að tala um Marshallaðstoðina, voru allar þær virkjanir, sem hér hafa verið nefndar, plús sementsverksmiðjan. Mig 1angar aðeins til þess að vita um það hjá hæstv. ráðh., hvort það sé ekki meining stjórnarinnar að láta sementsverksmiðjuna fylgja með nokkurn veginn jöfnum höndum, því að vissulega er hennar ekki síður þörf nú en annarra framkvæmda, og ég ætla, að það mál hafi ekki fengið síðri undirbúning en að minnsta kosti áburðarverksmiðjumálið.