16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í D-deild Alþingistíðinda. (4121)

162. mál, Marshallaðstoð til vatnsorkuvirkjana

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki óeðlilegt, að Laxár- og Sogsvirkjanirnar skuli látnar sitja fyrir í þessu efni, en ég vil taka undir orð hv. þm. Barð. og hv. þm. N-Ísf. um þá hættu, sem stafar af því að safna öllum framkvæmdum sem mest saman á fáa staði. Þá vil ég ítreka þau ummæli hv. þm. Barð., að gengið hefur verið frá fullnaðarrannsókn á Dynjandisfossum, og hafa sveitarfélög á Vestfjörðum kostað þessa rannsókn, en margar aðrar sams konar framkvæmdir hafa verið greiddar úr ríkissjóði. Flest sveitarfélög á Vestfjörðum hafa komið upp einhverjum vatnsvirkjunum, sem gætu fallið inn í virkjun Dynjandisfossa. Vænti ég því, að áður en annað er gert en það, sem þegar er ákveðið, að þá verði frá því gengið, hvernig háttað skuli virkjunum í Arnarfirði, og mér eru það vonbrigði, að samningar skuli hafa verið gerðir um skiptingu Marshallfjárins án þess, að sérstaklega sé minnzt á þetta, því að við þessa samninga hafa verið tveir hv. þm. Sjálfstfl., sem sýnt er að hafa áhuga á þessu máli, sérstaklega hv. þm. Barð. Vænti ég því, að hann reyni við áframhaldandi samningagerðir að sjá svo til, að hagur Vestfjarða í þessum efnum verði ekki fyrir borð borinn.