08.12.1949
Efri deild: 9. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

53. mál, eignakönnun

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil bara benda hv. n. á, að ef hún vill breyta eins og frv. gerir ráð fyrir, þá er frv. ónóg og nær ekki því, sem til er ætlazt. Ef litið er á 17. gr., þá skilur hún skattsvikin í tvennt, þ e. skattsvik sem framin eru fyrir 1. jan. 1940, og skattsvik, sem framin eru eftir 1. jan. 1940, og sektar hvora fyrir sig og eftir mismunandi reglum. En hvernig á að fara með það, að í niðurlagi 3. mgr. 17. gr. stendur: „Af því, sem umfram kann að vera, greiðist skattur samkvæmt gildandi lögum, án skattsektar.“ Þetta er á tveim stöðum í gr., og er sama orðalag um það, sem undan er dregið bæði fyrir og eftir 1. jan. 1940 og nemur meiru en 45 þúsundum. Og ef ríkisstj. ætlar að breyta þessu á öðrum staðnum, þá verður hún einnig að breyta þessu á hinum staðnum. Ég vildi aðeins benda hv. n. á það, að ef hún ætlar að ganga inn á sjónarmið ríkisstj., verður hún að láta þetta ganga jafnt yfir alla, bæði þá, er sviku skatt fyrir 1. jan. 1940, og hina, sem gerðu það síðar, en við þá elna er brtt. frv. miðuð.