18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Mér fannst hv. 6. landsk. þm. enda ræðu sína — með heldur óvirðulegri samlíkingu fyrir Alþýðusambandið, þar sem hann líkti Alþýðusambandinu við söguna af Móra, sem, ef ég man rétt, jarmaði, þegar búið var að eta hann. Ég get fullvissað hv. þm. um það, að ríkisstj. hefur ekkert slíkt í huga í sambandi við Alþýðusambandið. Hv. 6. landsk. bar fram svo margar fyrirspurnir, að ég geri ekki ráð fyrir, að mér takist að svara miklu af því, enda voru þær þannig lagaðar, að margar krefjast ekki mikils svars. Hann tók sérstaklega fram, að hann mundi bera fram till. um að láta greiða vísitöluuppbót á mánaðarfresti. Ég skal ekki lasta þá gerð hans, en mér sýnist, að með því sé hann að leitast við að lögbinda kaupið að nokkru leyti. Hann ásamt öðrum, sem svipað tala, eru ekki að reyna að leysa málefni verkalýðsins undan áhrifavaldi löggjafarinnar, heldur koma þeim undir áhrif hennar og binda nokkurn hluta launanna með lögum.

Hv. þm. spurði, hvort þessi till. væri borin fram til að knýja atvinnurekendur til að borga ekki vísitölu á laun, svo að verkamenn ættu eingöngu að fá núgildandi grunnlaun og ætlazt væri til, að atvinnurekendur sviptu þá uppbót á launin. Ég fyrir mitt leyti geri nú ekki ráð fyrir því, að atvinnurekendur muni almennt líta þannig á, að þessi ráðstöfun sé gerð í því skyni, að þeim sé ætlað að svipta sína verkamenn þeirri vísitöluuppbót, sem ríkið ætlast til, að sínir starfsmenn fái. Mér finnst reyndar, að hv. þm. geri ekki mikið úr umönnun ríkisstj. fyrir þeim mönnum, þ.e. hinum opinberu starfsmönnum. En ef þessi breyt. verður samþ., þá er þetta frjálst, það er samningsatriði milli aðila, hvaða kaup er borgað. Það kann vel að vera, að þetta verði til þess, að verkamenn eða Alþýðusambandið annars vegar og vinnuveitendur hins vegar geri með sér samninga, en það er aðeins það, sem gerist bæði hér og annars staðar og er gert á frjálsum grundvelli milli beggja aðila. Hvað vill því hv. 6. landsk. þm. meira frelsi til handa verkamönnum en að þeir hafi óskorað samningafrelsi? Þá segir þm.: „Þetta viljum við ekki“, nei, hann segir, að þeir vilji binda það á þann hátt, sem hann tiltekur. Hann ræddi mikið um, að það væri ætlun ríkisstj. að binda kaup opinberra starfsmanna í eitt ár með því að ætla þeim vísitöluna 123. „Það er vitað“, segir hann, „að það er mikilla verðhækkana að vænta í landinu, og þess vegna hljóta opinberir starfsmenn að dragast aftur úr“. Ég vil fyrst og fremst benda hv. þm. á, að það veit enginn, hver hækkun dýrtíðar verður, og í öðru lagi eru áhrif gengislækkunarinnar á dýrtíðina að mestu komin fram. Ég sé, að hv. 4. þm. Reykv. rekur upp stór augu, þegar ég segi þetta, en ég held því óhikað fram, en hitt skal að fullu viðurkennt, að eftir því ástandi, sem nú er í heiminum og breytist frá degi til dags, getur verðlag alltaf breytzt, sérstaklega á þeim vörutegundum, sem mikið eru notaðar til vígbúnaðar. Hitt getur enginn fullyrt, að opinberir starfsmenn verði á eftir öðrum í kaupi, þó að það sé fest allt áríð. Ég vil taka undir með hv. þm. Barð., þar sem hann benti á, að opinberir starfsmenn hefðu fasta og örugga atvinnu, og þegar þeir láta af störfum fyrir aldurs sakir, þá eru þeir á eftirlaunum. Aftur á móti hafa verkamenn ótrygga atvinnu og engin eftirlaun. Þetta er stórkostlegt atriði. Ég verð að segja, að þó að undir erfiðum kringumstæðum, eins og nú, væru sett ákvæði, sem byndu vísitöluna í eitt ár fyrir opinbera starfsmenn, þá teldi ég það enga goðgá. öryggisleysi verkamanna er miklu meira og verra en það. Þetta er mesti misskilningur hjá hv. þm. Ef embættismenn vildu aðeins líta á málið frá almennu sjónarmiði, þá sæju þeir, að þeir eru ekki settir aftur fyrir aðra launþega í landinu. Hv. 6. landsk. þm. og hv. 4. þm. Reykv. tóku báðir fram, að verkalýðssamtökin hefðu sýnt mikinn þegnskap í sambandi við gengislækkunina. Ég skal ekkert deila á alþýðusamtökin í þessu sambandi, ég vil þó aðeins segja, að Alþýðusambandið hefur ekki þjáðst af ást til núv. ríkisstj. Það er ekki þess vegna, sem ekki hefur vaknað verkfallsalda út af gengislækkuninni. Nei, það er af allt öðrum toga spunnið, það er af því, að þeir ráðunautar, sem Alþýðusambandið valdi sér, ályktuðu, að launahækkun hefði enga kjarabót í för með sér fyrir verkalýðinn. Þetta er ekkert launungarmál, þetta er í prentuðu álitsskjali frá þessum mönnum. Þeir rökstyðja þetta þannig, að ekki verður um villzt, að launahækkun er engin kjarabót fyrir verkalýðinn eins og nú er, því að ástandið tekur þessar kjarabætur jafnóðum burtu. Ég hygg, að þetta hafi valdið því, að Alþýðusambandið tók þá skynsamlegu ákvörðun að fara ekki í vafasama baráttu við ástandið, eins og það er í dag, ég segi reyndar vonlausa baráttu, það sýnir sig bezt, að þegar þarf að hækka kaup opinberra starfsmanna um nokkrar millj. kr., þá verður að sækja þær millj. til alþýðumanna í landinu.

Ég sagði, að þessi breyting gæfi Alþýðusambandinu meira frjálsræði. Núv. ríkisstjórn stefnir að meira frjálsræði bæði í þessu og öðru. Hún stefnir að meira frjálsræði í verzlun og frjálsræði í framkvæmdum í landinu, ég ætla að vona, að það geti komið á daginn áður en mjög langt um liður, að þetta hvort tveggja geti rætzt.