18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. sagði hér í ræðu, sem hann hélt í dag, að hugmyndin um tvöfalt gengi sé frá kommúnistum komin, og á hann þá víst við sósíalista. Ég veit ekki til, að nokkur sósíalisti hafi lagt slíka till. fram eða sambærilega. Hér fer þm. með algert fleipur, — aðrar athugasemdir hef ég ekki við þetta að gera. Annars væri fróðlegt að heyra, hvað hæstv. ríkisstjórn ætlast fyrir í þessu efni, og það er eiginlega skylda hæstv. ráðh. að gefa þingmönnum upplýsingar um það, en engar slíkar vísbendingar hafa komið fram í ræðu hans. Það mun rétt, að tvöfalt gengi hafi komið til umræðu, en hitt hefur líka heyrzt, að horfið væri frá því nú og helzt sé hugsað að leggja til nýja, almenna gengislækkun, eins og ég var að geta mér til í minni fyrstu ræðu, og þessar till. væru fyrsta skrefið. Ég álít, að þingmenn eigi rétt á að fá þetta upplýst, þó að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki tekið fullnaðarákvörðun enn þá, en það er ekki langur tími til stefnu til að koma útveginum til aðstoðar.

Gengislækkunarmenn hafa verið að reyna að afsaka gjaldþrot sinna kenninga með því, að við Íslendingar höfum orðið fyrir sérstökum óhöppum og skakkaföllum síðan gengislækkunin gekk í gildi. Hvað er nú hæft í þessu? Helztu óhöppin, sem þeir nefna, eru: Í fyrsta lagi síldarleysi, 2) togaraverkfallið, 3) markaðsleysi.

Hvað fyrsta atriðið snertir, síldarleysið, þá er þetta 6. síldarleysissumarið í röð, og þó hefur verið miklu betri síldveiði í ár en undanfarið, þar sem aflabrestur í sumar hefur verið mikið bættur upp með góðri veiði við Faxaflóa í vetur og haust. Ég geri ekki ráð fyrir, að gengislækkunin hafi átt að koma í veg fyrir aflaleysi, þó að hún ætti að gera mikið! Ég hef ekki heyrt þá halda því fram, og þess vegna er fáránlegt að þrástagast á síldarleysi eins og óvæntum áföllum. Það er hlutur, sem allir hlutu að gera ráð fyrir í sínum útreikningum.

2) Sjómannaverkfallið. Það var sannarlega ekki óhapp, ekkert áfall, sem ekki er mönnum að kenna, heldur var það sjálfskaparvíti og fyrst og fremst afleiðing af gengislækkuninni. Hv. þm. Barð. sagði, að sjómenn hefðu sízt haft þörf fyrir kjarabætur. Sannleikurinn er sá, að með gengislækkunarlögunum var ekki níðzt eins mjög á neinum og sjómönnunum. Á saltfiskveiðar var ekki lengur hægt að fá menn á skipin vegna þeirra kjara og þess óskaplega þrældóms, sem þeir áttu við að búa. Ef ekki hefði verið níðzt á togarasjómönnum með gengislækkunarlögunum, og hefði verið orðið við sanngjörnum kröfum þeirra um vinnutíma strax í vor, þá hefði ekkert sjómannaverkfall orðið. Tjónið af þessu verkfalli, sem hæstv. ráðh. og fleiri telja, að nemi um 100 millj. kr., er því algerlega á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar og afleiðing af pólitík hennar.

Í 3. lagi eru það markaðsörðugleikarnir. Það voru reyndar markaðsörðugleikarnir, sem gengislækkunin átti að lækna, það var ekki áfall, það átti að vera verk gengislækkunarinnar að vinna bug á þeim. Þetta hefur ekki tekizt, og í því er einmitt skipbrot kenninganna fólgið. Hv. þm. Barð. sagði, að ef verðlag og kaup héldi áfram að hækka, mundi leiða af því, að atvinnuvegirnir stöðvuðust. Það er augljóst mál, að ef verðlag hækkar, þá hækkar kaup líka, svo lengi sem verkalýðurinn er frjáls, meðan verkalýðurinn hefur ekki völdin, á hann engan annan kost en að hækka kaupið til að firra heimili sín neyð. Verðhækkanirnar eru afleiðing af pólitík ríkisstj., og þær kauphækkanir, sem eru ekki nema lítið brot af þeim verðhækkunum, sem orðið hafa, eru líka afleiðing af þeirri pólitík, og það er þessi pólitík, sem leiðir til að allt stöðvast. Það er rétt og satt, að einu upplýsingarnar, sem ég fékk í ræðu hæstv. viðskmrh., voru, að till. hans væru bornar fram með vitund ríkisstj., og þá ber vitanlega að skilja það svo, að hún standi öll að þeim. Allt hitt, sem hæstv. viðskmrh. sagði, voru eintómir útúrsnúningar. Hann endurtók enn einu sinni þá setningu, sem hefur verið eina vörn gengislækkunarmanna og þeir hafa þrástagazt á síðan ekki varð um það villzt, að kenning þeirra hafði beðið algert skipbrot, en hún er þessi: „Ástandið hefði bara verið enn þá verra, ef gengislækkunarlögin hefðu ekki verið sett.“ Þetta hefur verið uppistaðan í þeim ræðum, sem fluttar hafa verið í kvöld af gengislækkunarmönnum, þetta er guðspjall þeirra.

Nú hefur enginn haldið því fram, að ástandið hefði ekki haldið áfram að versna, þó að gengislækkunarlögin hefðu ekki verið sett, hefði sömu óheillastefnunni verið haldið áfram að öðru leyti, en hinu héldum við andstæðingar þeirra fram, að þau væru byggð á fölskum forsendum, leystu ekkert vandamál, en settu vandamálin í enn þá meiri hnút, og þetta er þegar orðin staðreynd. Þá hélt hæstv. ráðh. því fram, að till. hans gerðu ekki annað en gefa kaupgjaldið frjálst, þetta stefndi að meira frelsi í atvinnulífinu og meira frelsi fyrir verkalýðssamtökin. Er það þá eini tilgangur hæstv. ráðh. með þessum till. að gefa verkalýðsfélögunum meira frelsi?

Þetta er sama ríkisstjórnin, sem undanfarið hefur barizt fyrir bindingu kaupgjalds og talið það allra meina bót, en er nú orðin svo fylgjandi frjálsum kaupsamningum, að ekki má láta bíða næstu mánaðamóta að koma slíku skipulagi á. Það þarf að afgreiða þetta í snarheitum fyrir áramót. Auðvitað er þetta ekki annað en útúrsnúningar og staðleysur. Skv. gengislækkunarlögunum er frjálst að hækka grunnkaup, og þessi till. hæstv. ráðh. breytir þar engu um. Einnig var það sett sem skilyrði, að kaupuppbótin yrði greidd skv. lögum um, að grunnkaup hækkaði ekki upp fyrir ákveðið hámark. Vitaskuld er ekki hægt að setja neitt skilyrði fyrir því, að kaupuppbót sé greidd eftir að búið er að afnema hana. Þetta er sem sagt einhver furðulegasti málflutningur, sem ég hef heyrt lengi. Eina kaupgjald, sem bundið er með gengislækkunarlögunum, er kaupgjald opinberra. starfsmanna. Það, sem þessi till. hæstv. ráðh. gengur út á, er að lækka kaupið með l., þ.e. að lækka núverandi samningsbundið kaup með l. Það er ekkert annað, því að samkv. öllum núgildandi samningum skal kaupið hækka 1. júlí 1951 samkv. þeirri verðlagsvísitölu, sem þá gildir. Með þessari till. er sú hækkun numin úr gildi, þ.e.a.s. atvmrh. er leystur undan þeirri samningsbundnu kvöð að þurfa að hækka kaup samkvæmt vísitölu frá þeim tíma, og ríkisstj. er leyst undan þeirri skyldu að greiða starfsmönnum sínum þau laun, sem Alþ. hefur áður tryggt þeim með l. — Ég mun að sjálfsögðu fylgja þeirri brtt., sem borin er fram á þskj. 451 og er þess efnis, að laun skuli hækka mánaðarlega samkvæmt vísitölu hvers mánaðar. Þessi till. er í samræmi við frv., sem flokksbræður mínir hafa flutt í Nd. og liggur nú fyrir þeirri d., og í samræmi við þær kröfur, sem verkalýðssamtökin hafa gert í sínum samþykktum alveg einróma.