18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. (GJ) gerði nú heldur lítið úr þeirri þolinmæði, sem verkalýðurinn í landinu hefur sýnt gagnvart gengislækkunarl. Þó hélt hann því ekki beint fram, að félög verkafólks í landinu hefðu torveldað framkvæmd l., — hann fór engum orðum um það, enda væri ekki hægt að benda á slíkt. Hins vegar sagði hann, að það væri ekki hægt að segja það sama um togarasjómenn, sem hefðu þó sízt haft ástæðu til að vera óánægðir með kjör sín. Ég held, að fáir Íslendingar mundu taka undir þessi orð hv. þm. Barð., að sjómenn á togurum hefðu þess sízt þörf að fá leiðréttingu á kjörum sínum. Þeir hafa 16–47 tíma vinnudag, þegar verkalýðnum almennt er lögbundinn 8 stunda vinnudagur og margir þeirra, sem léttustu störfin vinna, vinna aðeins í 6–7 stundir á dag. Á þessu fóru þeir fram á að fá leiðréttingu, um þetta stóð fyrst og fremst togaraverkfallið, sem þm. var að áfellast þá fyrir. Þetta var þungamiðja þeirra krafna, sem þeir gerðu og atvinnurekendur vildu ekki ganga að. Þess vegna er rangt að segja, að togaraverkfallið sýni andstöðu verkalýðshreyfingarinnar gegn gengislækkunarl. Verkfallið var hafið vegna þeirrar argvítugu rangsleitni, sem togarasjómenn áttu við að búa. Hv. þm. sagði, að af þessu hefði framkvæmd l. beðið hinn mesta hnekki, af því stafaði vöruskorturinn og dýrtíðin. Vill hann nú ekki skýra fyrir mér og öðrum þm.; hvernig dýrtíðin hafi hækkað í landinu vegna togaraverkfallsins? Það væri svei mér laglega af sér vikið, ef hann gæti útskýrt það, svo að í lagi væri. Nei, dýrtíðin í landinu, sem óx á s.l. sumri, var ekki togaraverkfallinu að kenna. Nú, skýringar hv. þm. á togaraverkfallinu í sambandi við vöruskortinn koma illa heim við skýringu hæstv. fjmrh. í sambandi við afgreiðslu fjárl. Hann sagði, að vöruskorturinn væri afleiðing af því, að kaupgetan í landinu væri meiri en hún ætti að vera, og það orsakaði það, að allar vörur, sem kæmu til landsins, seldust strax upp. Það er ekki enn þá búið að lama kaupgetu almennings nægilega, eftir kenningu hæstv. fjmrh. Það er rétt, að kaupgetan á Íslandi hefði verið meiri, ef togaraverkfallið hefði ekki átt sér stað í sumar. Þá hefði, eftir kenningu hæstv. ráðh., þessi bölvun, sem hann sér í henni, orðið enn þá meiri. Ég heyrði ekki betur en að hann fagnaði togaraverkfallinu, vegna þess að það hafi dregið úr bölvaðri kaupgetunni!!

Hv. þm. Barð. spurði, hvað hefði skeð í þessu landi, ef gengislækkunin hefði ekki verið framkvæmd. Það er eins og hann haldi, að þessi þjóð væri glötuð, ef gengislækkunin hefði ekki komið til bjargar. Það var einhver af ráðh. ríkisstj., sem sagði um daginn, að ef gengislækkunin hefði ekki verið framkvæmd, væri fiskverðið komið niður í 45 aura kílóið. Nú er fiskverðið 75 aurar, þ.e.a.s., að þá hefði þurft að bæta 30 aurum á kg, til þess að sama fiskverðið og er hefði fengizt, en þá er líka víst, að ekki væri nú sú dýrtíð í landinu, sem er og hefur orðið afleiðing gengislækkunarinnar. Þá hefði verið 75 aura verð í þessu landi, minnkandi dýrtíð og ríkissjóður ekki þurft að bæta nema 30 aurum á kg til þess, að útgerðarmenn gætu gert út. En eftir að gengislækkunin var framkvæmd, þarf 55 aura á hvert kg til þess að útgerðarmenn geti gert út, og dýrtíðin miklu meiri en verið hefði, ef gengislækkunin hefði ekki verið framkvæmd. — Raunar er þetta með 45 aura verðið tóm firra, því að sá maður, sem ber bezt skyn á sjávarútvegsmál, hv. þm. Vestm. (JJós), sagði, að verðlækkun á heimsmarkaðinum næmi einungis 5–6%, og um það atriði ætla ég hann fróðari en nokkurn annan úr liði hæstv. ríkisstj. — Nei, ástæðan til þess, að enginn útgerðarmaður treystir sér til að gera út, er afleiðingar gengislækkunarinnar, sem hafa komið fram í 100–150% hækkun á flestum nauðsynjum útgerðarinnar. Það er þess vegna, að vélbátar útgerðarinnar liggja bundnir í höfnum inni og atvinnuleysi gengur í garð. Við þetta værum við lausir, hefði gengislækkunin ekki verið framkvæmd; þá værum við miklu betur á vegi staddir. Hv. þm. sagði: Við vorum komnir í öngþveiti, þegar ríkisstj. réðst í gengislækkun. Þá spyr ég hann: Gengislækkunin var framkvæmd. Erum við komnir úr öngþveitinu? - Nei, við erum miklu verr staddir en nokkru sinni fyrr, og ríkisstj. treystir sér ekki til að ráða fram úr vandræðunum. Það er alveg rétt, að ríkissjóður hefði þurft að leggja fram milljónatugi til þess að bæta fiskverðið, ef gengislækkunin hefði ekki verið framkvæmd. Er búið að leysa þann vanda núna? Nei, við skulum tala um það eftir áramótin, hvort ríkisstj. þarf ekki að eyða nokkru til þess að koma vélbátaútveginum í gang, í viðbót við gengislækkunina. Er það þó augljóst mál, að eingöngu vegna gengislækkunarinnar hækka útgjaldaliðir fjárl. um 15% — yfirgnæfandi meiri hluti allra útgjaldaliða á fjárl. — vegna gengislækkunarinnar. Ríkisstj. á enn eftir að finna þær milljónafúlgur, sem til þess þarf að koma vélbátaútveginum í gang.

Ég held nú, að þm. Barð. hafi aldrei komizt lengra í ósvífni sinni — og er þá mikið sagt — en þegar hann sagði, að Sigurjón Á. Ólafsson lægi nú sjúkur af samvizkubiti, og kvað hv. þm. hann þjást af því að hafa lagt út í verkföll í landi sínu. Ég veit ákaflega vel, að þm. Barð. er fullkunnugt um, að þetta eru vísvitandi ósannindi, og er það ekki drengilegt að vera með rangfærslur um heilsulausan mann. Sigurjón Ólafsson hefur vissulega með góðri samvizku stjórnað kjarabaráttu sjómanna í seinasta verkfalli eins og alltaf áður, og ekki minnsta ástæða til að bera honum það á brýn, að hann hafi gegn betri vitund stjórnað þessari hagsmunabaráttu sjómannastéttarinnar. Að hann gaf ekki kost á sér aftur sem formaður sjómannafélagsins, stafaði af engu öðru en því, að hann var þrotinn að heilsu og hafði kennt sér meins um langan tíma, löngu áður en togaraverkfallið var hafið. Hann er öllum Íslendingum fremur búinn að slíta kröftum sínum fyrir hagsmunabaráttu sjómannastéttarinnar, og verður aldrei dreginn af honum sá skór, hversu mikið sem reynt verður til þess.

Þá sagði hv. þm. Barð.: Ef kaupuppbætur eiga að greiðast samkv. vísitölu, leiðir af því nýja verðhækkunaröldu. — Já, ekki hefur nú kaup hækkað frá því 1. júlí í sumar. Hefur þá ekki dýrtíðin stöðvazt á sama tímabili? Er kauphækkun orsök dýrtíðarinnar á þessu siðasta misseri? Nei, það er ekki af kauphækkunum, og það er ekki hægt að snúa sannleikanum betur við en með því að fullyrða, að ef kaupið verði bætt samkv. vísitölu, þá leiði af því nýja kauphækkunaröldu. Verðhækkun verður að vera til staðar sem forsenda til þess að kaupið hækki, og kauphækkun kemur þess vegna sem afleiðing af verðhækkun, sem þegar er komin. Kauphækkun samkv. vísitölu er ávallt afleiðing dýrtíðar, sem þegar er til staðar. — Ég er hræddur um, að hv. þm. mundi missa skólastjóraembætti, ef hann ætti það í húfi, en því er nú ekki til að dreifa. (GJ: Nei, sem betur fer.) — Og nú höfum við hv. 4. þm. Reykv. (HG) borið fram till. um það, að kaupgjald skuli bætt með vísitölu hvers mánaðar. Gæti það orðið orsök til kauphækkunaröldu? Segjum, að ríkisstj. tæki rögg á sig og stöðvaði alveg verðhækkanir og dýrtíðina og till. okkar hv. 4. þm. Reykv. yrði samþ. Næsta mánuð á eftir kæmi þrátt fyrir okkar till. engin kauphækkun. Ef ríkisstj. skerpti sig enn þá betur og kæmi dýrtíðinni niður á við, vísitalan yrði lægri í næsta mánuði, þá yrði samkv. till. okkar kaupið að sama skapi lægra. En því aðeins, að dýrtíðin vaxi, kemur það sem afleiðing till. okkar, að kaupgjald hækkar. Ríkisstj. á að hafa forustuna og á að vita, að ef dýrtíðin hækkar, þá hækkar kaupið. En hún veit jafnörugglega, að takist henni að lækka dýrtíðina, þá lækkar kaupgjald í landinu. Þetta er þess vegna ekki það háskaprinsip, sem hv. þm. Barð. vill vera láta. Þess er kostur að lækka kaup á Íslandi eins mikið og nokkur réttlætisgrundvöllur er fyrir því, einmitt með því að láta kaupgjaldið fylgja verðlaginu. Kauphækkun á Íslandi hefur aldrei verið orsök dýrtíðar, kauphækkun hefur ætíð verið afleiðing dýrtíðar. Verkalýðssamtökin hafa aldrei fengið kaup sitt hækkað fyrr en eftir á, og nú seinustu 6 mánuðina hefur kauphækkunin orðið það eftir á, að nú er mismunurinn á kauphækkun og verðlagsvísitölu 8%, og þetta fæst ekki bætt fyrr en um næstu áramót. — Ég held, að með þessum orðum hafi orðið harla lítið úr þeirri kenningu þm. Barð., að það sé mesta ólán þjóðarinnar, að kaupgjald og verðlag hefur verið bundið saman. Hefði ríkisstj. getað stöðvað dýrtíðina og haldið verðlaginu í skefjum eða fært það niður, væri kaupið nú komið niður á við. (GJ: en Alþfl.-stjórnin á sínum tíma?) Hún stóð miklu betur í ístaðinu en hæstv. núv. ríkisstj. í þessum efnum.

En það er annað, sem hv. þm. Barð. minntist ekki á, og það eru tengslin á milli álagningar heildsalanna og kaupmannanna og dýrtíðarinnar. Vegna þess að það er lögbundið, að leggja má 10% á eina vöru, 20% á aðra, 30% á þá þriðju og 40% á þá fjórðu, þá hafa allir kaupsýslumenn brennandi áhuga fyrir því, að verðlagið sé sem allra hæst, fari hækkandi. Það er þetta, sem hv. þm. Barð. heldur ekki fjálglega ræðu um, að þarna er orsök dýrtíðarinnar. Til þess að losna við kauphækkun væri bezt að slíta þessi tengsl, hætta að heita kaupsýslumönnum í landinu hækkandi álagningargróða með hækkandi krónutölu. En á þetta er ekki minnzt, af því að þar yrði að skerða hlut þeirra aðila í þjóðfélaginu, sem hv. þm. Barð. og hæstv. viðskmrh. eru beinir umboðsmenn fyrir.

Hv. þm. Barð. spurði, hvort það væri ekki rétt, að þær kjarabætur, sem hefðu fengizt með kauphækkun, væru að engu orðnar. Jú, mikið rétt. Það er búið að sjá svo um, að kjarabætur kauphækkunarinnar eru að engu orðnar, það er búið að taka þær aftur með verðhækkun. En hvernig hefðu kjör verkalýðsins á Íslandi verið, ef hann hefði unnið fyrir óbreytt kaup, en dýrtíðin verið eins og hún er nú? Því að það er gengið á það lagið, ef ríkisstj. á það ekki víst, að kauphækkun komi á hæla verðhækkunar, — þá tekur einmitt við ábyrgðarleysið í verðlagsmálunum, og reynslan frá síðasta misseri, 1. júlí, sannar þetta. Þegar ríkisstj. vissi, að kauphækkun kæmi ekki í kjölfar verðhækkunar, þá skellti verðhækkunin á skeið, þá var hægt að breikka bilið milli kaupgjalds og verðlags, og það var notað. Það er ekki hægt að knýja hæstv. ríkisstj. til ábyrgðar í þessu efni nema láta hana vita, að hverri verðhækkun, sem hún lætur eiga sér stað, skal fylgja kauphækkun, og á þann hátt einan geta verkalýðssamtökin í landinu knúið ríkisvaldið til ábyrgðar, og á engan kost annan. Ef hv. þm. Barð. og hæstv. ríkisstj. meina það, að hægt sé að lækna ástandið á Íslandi með því að halda kaupinu óbreyttu og jafnvel lækka það þrátt fyrir verðlagsástandið í landinu, þá kemur sú spurning, hvernig fólkið eigi að lifa í landinu. Það er sannarlega enginn hægðarleikur að lifa núna fyrir verkamannafjölskyldu á Íslandi. Meginstofninn í fæðu verkamannafjölskyldunnar er nú orðinn eins og hann var löngum, þ.e. rúgbrauð og smjörlíki og svart kaffi, og stundum fæst nú ekki kaffi, svo dýrt sem það er. Fjöldi fólks verður nú að hætta að kaupa mjólk og margar þær vörutegundir, sem þó verður að kalla lífsnauðsynlegt, að fólk geti veitt sér, og er það þetta tvennt, sem veldur þessu, stórkostlega aukin dýrtíð og skortur atvinnu, atvinnuleysi, sem sannarlega hefur magnazt síðustu 6 mánuðina þrátt fyrir óbreytt kaup. Verður eigi litið fram hjá þeirri staðreynd.

Þá er það hæstv. ráðh. Hann sagði, að mér hefði farizt illa við Alþýðusamband Íslands að líkja því við jarmið í Móra, en þetta er misskilningur hjá hæstv. ráðh. Ég líkti hæstv. ráðh. eða ríkisstj. við bóndann, sem hafði stolið Móra, sauð Þormóðs í Gvendareyjum, taldi ég, að hæstv. ráðh. tæki mjög rangfengin verðmæti af verkalýð landsins, ef launafólkinu í landinu væri meinað að hækka kaup sitt í réttu hlutfalli við vaxandi dýrtíð, og ég sagði, að það gæti farið svo, að játning um, að þessi verðmæti hefðu verið tekin af verkalýðnum, yrði að koma upp úr hæstv. ráðh. nauðugum viljugum, líkt og í þjóðsögunni um bóndann og Þormóð í Gvendareyjum. Nú er helzt á hæstv. ráðh. að heyra, að þessar breyt. séu fluttar fyrir verkalýðssamtökin, til þess að þau geti búið við alfrjálsa samninga, eins og hann hefur endurtekið. Þetta er orðið margstaðfest hér eftir honum, og þessu munu verkalýðssamtökin fagna, ef ekki fylgir því annað. En túlkun hv. þm. Barð. og hæstv. ráðh. er ekki á eina lund, heldur hnígur túlkun háttv. þingmanns í þá átt, að það verði að binda kaupið, því að frjálsri hækkun kaups í réttu hlutfalli við vaxandi dýrtíð verði að afstýra, þar sem það mundi leiða nýja kauphækkunaröldu yfir landið og þjóðina. Hvað er þá orðið um frjálsræðið? Nú segir hæstv. ráðh., að það sé ekkert að óttast verðhækkun, því að nálega allar hækkanir af völdum gengislækkunarinnar séu komnar fram. Ég hygg, að hæstv. ráðh. trúi þessu ekki sjálfur. Að minnsta kosti veit hann, að hækkun af völdum söluskattsins og fleiri skatta, sem síðan hafa verið samþykktir, á eftir að koma fram. Og það er vitað, að stórkostleg áframhaldandi dýrtíðaralda er að skella yfir þjóðina, og vegna þess að þeir sáu það í ríkisstj., að koma mundi til nýrra kauphækkana í samræmi við vísitöluna, þegar liðinn væri helmingur ársins 1951, ef gengislækkunarl. væri ekki breytt, eru þeir að afnema þessi ákvæði. Þeir hefðu ekki verið að því, hefðu þeir séð fram á verðlækkun. En þegar því er haldið fram, að þetta sé gert fyrir verkalýðshreyfinguna, þá er þar um auðsæja blekkingu að ræða. Verkalýðsfélögin þurfa engar auknar heimildir til þess að geta hækkað kaupið, þau geta gert það í dag, hvenær sem er á síðustu 6 mánuðum, bara með því skilyrði, að þau felli niður kaupuppbót samkv. gengislækkuninni. Hvenær sem ber svo mikið á milli um kaupgjald og verðlag, að þau vilja ekki við una, þá hafa þau að óbreyttum gengislækkunarl. fulla heimild til þess að hækka kaup sitt. Svo að það er einber hræsni, að þarna hafi verið liðkað til fyrir verkalýðssamtökin í landinu. Ástæðan til þess, að verkalýðsfélögin hafa ekki notað sér rétt sinn, er sú, að þau vildu, að í ljós kæmi, hve þessi stefna hæstv. ríkisstj. væri fullkomlega röng, án þess að hún væri brotin niður af samtökum verkalýðsins, en nú er þessi sönnun fyrir hendi, svo að nú er engin ástæða fyrir verkalýðinn að geyma lengur að bæta sér upp þá kjararýrnun, sem hann hefur orðið að þola. Ég fagna því mjög, að þeir hv. þm. Barð. og hæstv. ráðh. skyldu túlka þau auðsæju rök, sem ég sleppti með vilja að minnast á vegna þess að ég vildi, að þeir kæmu fram með þau, en þau voru í því fólgin að benda á það, hversu eðlilegt það væri, að óbreyttum verkamönnum bæri hærri kaupuppbætur en fastlaunuðum starfsmönnum, þar sem embættismenn hefðu örugg laun og fastar tekjur og síðan eftirlaun, þegar þeir eru ekki lengur færir um að gegna starfi sínu, svo að ekki er nema eðlilegt, að þeir fái lægri uppbætur en verkamenn. Nú eiga opinberir starfsmenn að fá laun sín greidd eftir vísitölu 123 stig á árinu 1951, en það er vísitala desembermánaðar 1950. En nú hafa þeir hv. þm. Barð. og hæstv. ráðh. lagt á það áherzlu, að eðlilegt sé, að verkamenn fái kaup sitt greitt með hærri verðlagsuppbót en opinberir starfsmenn. Þeir munu því sennilega ekki kippa sér upp við það, er verkamenn koma til með að heimta kaup skv. hærri vísitölu en opinberir starfsmenn fá. Verkalýðssamtökin geta því beitt orðum þessara manna fyrir sig í baráttunni við atvinnurekendur. Það er hverju orði sannara, að verkamenn hafa miklu verri aðstöðu að öllu leyti heldur en opinberir starfsmenn, og atvinnurekendur hljóta því að ganga inn á, að þeim beri hærra kaup. Ég hlakka bókstaflega til að geta beitt þessum rökum við atvinnurekendur á Vestfjörðum og geta borið fyrir mig ummæli ekki ómerkari manna en þeirra hv. þm. Barð. og hæstv. viðskmrh. Ég veit, að þeir, sem þekkja annálaða íhaldssemi hv. þm. Barð. — og allir kannast nú við þá eiginleika hæstv. ráðh. — hljóta að beygja sig fyrir því, sem þeir segja, að sjálfsagt sé, að verkamenn fái þegar 1. febr. n.k. hærra kaup en opinberir starfsmenn. — Þó að verkamenn fengju t.d. 130–140 stig, væri það sannarlega ekki of mikið frá sjónarmiði þeirra hv. þm. Barð. og hæstv. viðskmrh. Og þeirra sjónarmið er líka mitt sjónarmið í þessu máli. Þessi ágætu rök hafa þessir hv. þm. lagt verkalýðsfélögunum til í baráttu þeirra fyrir bættum kjörum verkalýðsins, og ég er þeim mjög þakklátur fyrir það.

En aftur á móti sló illa í bakseglið hjá hæstv. ráðh., þegar hann fór að vitna í það, sem hæstv. fjmrh. hefur verið að japla á dag eftir dag í um það bil viku, að eins og stæði væru það engar kjarabætur fyrir nokkurn að fá hærra kaup, og það var lokaþátturinn og rökin hjá hæstv. viðskmrh. áðan, því að ástandið tekur aftur allar kjarabætur. „Ástandið“ á stríðsárunum var mikið rætt og slæmt fyrirbæri, en „ástand“ hæstv. viðskmrh. er sízt skemmtilegra fyrirbæri. Hæstv. ríkisstj. hefur skapað þetta síðara ástand, sem er nú orðið óþolandi, og það hefur skapazt af viðleitni hæstv. ríkisstj. til að auka bilið milli verðlags og kaupgjalds.

Síðasti kafli ræðu hæstv. viðskmrh. fjallaði um frjálsræði það, sem hæstv. ríkisstj. vill koma á. Það bólar lítið á þessu frjálsræði í verzlunarmálum, nema þá ef það birtist í álagningu heildsala og kaupmanna. Og frelsið til framkvæmda verður víst ekkert smáræði, eftir því sem ég frétti frá fjárhagsráði í dag. Ég hygg, að það verði ekki margir, sem geta byggt yfir sig á árinu, því að svo grimmilega hefur verið tekið fyrir allt slíkt, að leyfi, sem út hafa verið gefin á þessu ári, munu nú ekki fást framlengd, nema ef til vill að helmingi. Og núverandi vinnumaður hæstv. ríkisstj., hagfræðingurinn, sem lamdi saman gengislækkunarfrv. ásamt Ólafi Björnssyni prófessor, mun nú starfa með fjárhagsráði að því að svipta Íslendinga öllu frjálsræði til framkvæmda, svo að fjárfesting mun nú verða skorin meira niður en nokkru sinni fyrr. Og þegar frjálsræði átti að ríkja á báðum þessum sviðum, þá var ekki nema sanngjarnt, að verkalýðurinn byggi einnig við aukið frjálsræði, og ef þetta er allt ósvikið frjálsræði, þá er ekki nema gott um það að segja, en ekki aðeins frjálsræði innan gæsalappa. En eftir því, hvernig hæstv. ríkisstj. bregzt við þessu, eins fer um viðbrögð verkalýðsins, — því má hæstv. viðskmrh. treysta.

Mig vantar nú illa minn ágæta sessunaut, hv. 1. þm. N–M., því að hann hélt hér áðan ágæta ræðu, þar sem hann lýsti ánægju sinni yfir því, að bundinn væri endi á víxlhækkun kaupgjalds og verðlags. En ég gæti trúað, að þó að víxlhækkun hafi verið stöðvuð, þá muni verðlag halda áfram að hækka, þó að reynt verði að stöðva hækkun kaupgjaldsins, en ég veit ekki, hversu heppilegt slíkt er, og ég veit ekki, hversu ánægður hv. 1. þm. N–M. verður með það, er frá liður, því að þetta er ekki einu sinni góð bændapólitík, — því á hverju lifa bændur nema kaupgetu verkamanna? Ef verkalýðurinn býr ekki við sæmileg kjör og getur ekki keypt framleiðsluvörur bænda, þá er einnig loku fyrir það skotið, að bændur fái sín vinnulaun, svo að þetta er einnig vitlaus bændapólitík, að ráðast gegn eðlilegri hækkun kaupgjaldsins í landinu. Hv. 1. þm. N–M. sagði, að það væri ekkert vit í því að fara með vísitöluna í 123 stig, það hefði átt að binda hana í 115 stigum, og það vildi ég, sagði hv. þm. En ég vildi spyrja þennan hv. þm.: Vildi ekki allur hans flokkur gera þetta, en fékk ekki að ráða því? Var það bara hv. 1. þm. N-M. einn, sem vildi gera þetta? Ég hef það eftir allgóðum heimildum, að allur Framsfl. hafi fundið þessa vizku, og það hryggir mig mjög, ef Framsfl. er með þessu kominn 8% aftur fyrir Íhaldið í íhaldsemi. Og hv. 1. þm. N–M. upplýsti meira. Hann sagði, að ekki hefði verið horfið að þessu ráði, að binda vísitöluna í 115 stigum, af því að ríkisstj. hefði ekki þorað það. Og það mun vera alveg rétt hjá honum, að ástæðan til þess, að vísitalan var ekki bundin í 115 stigum, var sú, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki þorað að horfast í augu við afleiðingar þess skrefs, en hvernig stendur á því, að jafnágætur maður og hv. 1. þm. N-M. minnist ekki á, að ástæða sé til að hindra hækkanir á álagningu á vörum? Hann minnist ekki frekar á það heldur en hv. þm. Barð. En eins og nú er, má álagning hækka með hækkuðu vöruverði og má leggja sömu prósent-upphæð á upphæðina og áður. Og það er ekki borinn fram neinn boðskapur um, að rjúfa eigi þau tengsl. Ég er sannfærður um það, að nú þegar er búið að skerða svo lífsafkomu verkalýðsins á Íslandi, að ekki verður þoluð frekari kjararýrnun honum til handa af verkalýðssamtökunum. Ef ekki á að bæta kjör verkalýðsins með hærra kaupi, þá verður það gert með því einu, að ríkisstj. skjóti loku fyrir allar nýjar verðhækkanir, og það er sú kjarabót, sem verkalýðurinn kýs helzt. Ef verðlag lækkar eða stendur í stað, mun verkalýðurinn sætta sig við það, sem hann nú hefur, og hann hefur gert tvær kröfur, sem ekki verður vikið frá. Í fyrsta lagi er aukin atvinna, ef enginn litur verður sýndur á því, þá verður verkalýðurinn að verjast með hækkuðu kaupgjaldi. Og í öðru lagi viðnám við vaxandi dýrtíð í landinu, en ríkisstj. verður að hafa frumkvæðið í þessum efnum, og eftir því, hvernig það tekst, verða viðbrögð alþýðunnar í landinu í þessum málum.