18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Meðan ég bíð eftir hæstv. ráðh., sem hér flutti mál sítt áðan, skal ég víkja nokkrum vinsemdarorðum að hv. 1. landsk. Hann er maður málprúður mjög, eins og mönnum er kunnugt, en hafði þó þau orð hér áðan um atriði úr ræðu minni 1 dag, að það væri marklaust fleipur. En það, sem hann kallaði svo, var það, að ég sagði, að það lægi eins og í loftinu, að ríkisstj. hefði fengið að láni frá flokksbræðrum hans hugmyndina um tvöfalt eða margfalt gengi, um eins konar útvíkkun á gotu- og hrognapeningakerfinu. Hv. 1. landsk. sagði þetta marklaust fleipur, og furðar mig á því, hvaðan honum kemur kunnugleiki á því, hvaða áform hæstv. ríkisstjórn hefur í þessum efnum eða á hvern hátt hún ætlar að hjálpa vélbátaflotanum, sem hann viðurkenndi, að þyrfti hjálpar við, ef hann ætti að komast á veiðar. Hæstv. landbrh. vildi staðfesta þessi ummæli hv. 1. landsk. með því að segja: Það stendur alls ekki til að koma á tvöföldu gengi. — Ég verð þá að segja, að ef svo er, að sá orðrómur er úr lausu lofti gripinn, þá er kominn tími til, að hæstv. ríkisstj. segi okkur ekki einungis, hvað hún ætlar ekki að gera fyrir útveginn, heldur einnig, hvað hún ætlar að gera. Því að ég á bágt með að trúa, að ríkisstj. telji, að þessi breyting á gengislögunum, sem er hér til umræðu, breyti nokkru til hagsbóta fyrir útveginn eða að hún ráði úrslitum um það, hvort veiðar geti byrjað á sínum tíma á næstu vertíð eða ekki. Það liggja fyrir skýlaus ummæli frá útvegsmönnum um það, að hvorki þetta frumvarp né frv. um skuldaskil bátaútvegsins geti haft nokkur áhrif um það, hvort útvegurinn stöðvast eða ekki. Að öðru leyti skal ég láta þessa tvo heiðursmenn um það, hvaðan hæstv. ríkisstjórn fær sínar hugmyndir og hverjar þær eru, en það mun sýna sig, að þær verða hvorugum aðilanum til vegsemdar.

Hæstv. viðskmrh. sagði í ræðu sinni hér í kvöld, að ef brtt. hans yrði samþ., þá kynni það að verða til þess, að nýir samningar yrðu gerðir á milli verkalýðsfélaganna og atvinnurekendanna um kaup og kjör. Með þessu, sagði hann, væri verkamönnum búið sams konar frelsi og ríkisstj. hefði nú í hyggju að veita þeim, sem við verzlun og innflutning fást. Mér skildist á honum, að raunverulega mætti verkalýðurinn vera þakklátur honum fyrir þessa till. hans. Á það hefur verið bent, að hér er ekki um neina bót að ræða í því efni, því að verkalýðsfélögin geta nú sagt upp sinum samningum. Eina breytingin, sem till. hefur í för með sér, er sú, að ákvæðin um vaxandi kaup með vaxandi dýrtíð eru felld úr gildi, þannig að ef flokkur verkamanna vill fá kauphækkun eftir vísitölu, þá er óhjákvæmilegt fyrir hann annað en segja upp samningum og lenda máske út í deilur við atvinnurekendur og verkföll. Og það er því undarlegra, að þessi till. skuli vera komin fram, þar sem viðleitni manna ætti þó að beinast að því að koma í veg fyrir, að til slíkra deilna komi. Og það er alveg rangt, að togaradeilan hafi verið í sambandi við ákvæði gengisbreytingarlaganna um kaupgjald. Hún reis af því, að togaraveiðin kom á annan grundvöll, er togararnir hættu á ísfiskveiðum og byrjuðu saltfiskveiðarnar. Það var þá enginn grundvöllur fyrir þær veiðar, og hlaut að koma til nýrra samninga. Það, sem í raun og veru hvatti mig til að kveðja mér hljóðs aftur, var sú fullyrðing hæstv. viðskmrh., að áhrif gengislækkunarinnar væru nú að mestu komin fram og að ekki þyrfti að vænta meiri hækkana á verðlagi af hennar sökum. Þó gætu verðhækkanir komið fram, sagði hann, en þær yrðu ekki af hennar sökum. Ég furða mig mjög á þessum ummælum hæstv. ráðh. og því meira, er ég hlýddi á málflutning meðráðherra hans, sem telja, að hækkun á kaupi sé þjóðarböl og komi jafnt niður á verkalýðnum sjálfum sem öðrum. Hæstv. ráðh. upplýsti einnig, að um næstu áramót ætti kaup að hækka um 8% vegna gengisbreytingarlaganna, og svo fullyrðir hann, að öll hækkun af völdum gengislækkunarinnar sé komin fram. Er það þá skoðun hæstv. ráðh., að 8% hækkun á kaupi hafi engin áhrif á verðlagið í landinu? Hann og hæstv. ríkisstjórn hafa nýlega fengið samþ. í þessari deild að hækka verðtoll úr 6% í 7% og vörumagnstoll upp í 17%. Heldur hæstv. ráðh., að þetta komi ekki fram á dýrtíðinni og að það dragi ekki aðrar hækkanir á eftir sér? Heldur ekki hæstv. ráðh., að allar óbeinar afleiðingar af því, að dýrtíðin er komin upp í 123 stig, kalli á nýja hækkun í viðbót? Ég veit, að hæstv. ráðh. er ljóst, að það vantar mikið á, að áhrif gengislækkunarlaganna til dýrtíðaraukningar séu komin fram.

Allt orðskrúð um það, að tilgangurinn með þessum till. hæstv. ráðh. sé sá einn að láta verkamenn fá jafnt frelsi og aðrar stéttir til að ákveða sitt kaup, eru látalæti ein. Það er vitað og augljóst og margstaðfest í þessum umr., að tilgangurinn er sá og sá einn að reyna að koma í veg fyrir það, með því að nema þessi ákvæði burtu úr l., að kaup verkamanna hækki, þegar dýrtíðin enn magnast frá því, sem nú er. Ríkisstj. ætlar að afstýra því, að sú hækkun, sem ætti að koma á kaup eftir júlívísitölu næsta ár, nái fram að ganga, hún ætlar að gera kaupið lægra en ella mundi, ef kaup væri óbreytt, um þetta tjáir ekki að deila, og það er barnaskapur og yfirdrepskapur að halda öðru fram. Enda má hæstv. landbrh. eiga það, og reyndar hæstv. viðskmrh. að sumu leyti líka, að þeir hafa ekki farið leynt með þá skoðun, að nauðsynlegt sé að hindra kauphækkanir eða lækka raunverulega kaup móts við vöruverð, því að þeirra kenningar hér í kvöld hafa verið með öðrum og sérstökum hætti, eins og hv. dm. hafa tekið eftir, í skemmstu máli það, að allar kauphækkanir séu til bölvunar, ekki aðeins fyrir þjóðfélagið, heldur fyrir verkamenn, sem kauphækkun fá. Hæstv. landbrh., sem er hagspekingur mikill, orðaði það svo, að þegar framleiðslan væri rekin með tapi, þá væri augljóst, að hver kauphækkun verkalýðsins væri honum til bölvunar. Þessi lærdómur hefur verið fluttur hér nokkuð oft, og ég er ekki alveg frá því, að hæstv. ráðh. sé farinn að trúa þessu. Þetta væri rétt, ef svo væri komið, að öll framleiðsla væri rekin með tapi og tekjuskiptingin í landinu væri jöfn, en meðan svo er ekki, meðan óhagsýni er svo mikil, að ýmis atvinnurekstur býr við fullkomið óhóf, þá er kenningin ekki rétt. Það þótti undarlegt, þegar frv. um gengislækkun var undirbúið og skrifuð með því löng og ýtarleg grg., að þá var ekki einu orði minnzt á það höfuðatriði í þessu sambandi, sem mestu máli skiptir að minni hyggju, það er hvernig tekjuskiptingin innanlands var milli landsmanna. Ef við flettum upp í útsvars- og skattaskránni, þá sjáum við, að einstaklingar og fyrirtæki eru með 30–300 þús. kr. skatta og útsvör og þar yfir. Það þarf því enginn að segja manni, að öll framleiðsla sé rekin með tapi meðan svo er. Það er augljóst og viðurkennt af hverjum manni, sem hugsar nokkuð um þá hluti, að við verzlun og viðskipti í landinu starfa tvöfalt eða þrefalt fleiri menn heldur en þörf er á. Meðan við höfum efni á því að láta einstaklinga hafa svo miklar tekjur, að þeir geti borgað 30–300 þús. kr. í skatta og útsvar, og meðan við höfum efni á því að hafa þrefalt fleira fólk við verzlunina en nauðsynlegt er, þá er ekki sá jöfnuður kominn á, að þessi regla sé rétt. Þetta verður hæstv. ráðh. að viðurkenna, enda er það svo, að allan þann tíma meðan þessi kenning er flutt, þá er breytni ríkisstj. öll önnur. Í orði er þetta svona, en á borði, — hver verður reyndin þar? Ég vildi gjarnan athuga þetta með hæstv. ráðh. Sé það rétt, að hækkað kaup hjá verkamönnum og aukin kaupgeta þeirra sé háski fyrir þjóðfélagið og þeim til bölvunar, eins og nú er ástatt, þá hlýtur engu að síður að vera rétt, að hækkaðar tekjur hjá bændum og aukin kaupgeta af þeirra hálfu sé einnig til bölvunar. Þá hlýtur það líka að vera rétt, að hækkaðar tekjur hjá þeim, sem fást við viðskipti og brask, séu einnig til bölvunar. En mig minnir, að þessi hæstv. ráðh. hafi verið öllum duglegri að berja í gegn hækkun á afurðum bænda. Ég man ekki betur en að í september í haust hafi verið ákveðin 20–30% hækkun á afurðum bænda, sem seldar eru innanlands, samhliða því, sem verð á ull tvöfaldaðist og verð á gærum hækkaði stórkostlega. Hvaða vit er í þessu? Hvaða vit er að auka kaupgetu þessara manna, ekki einungis þjóðfélaginu til ógagns, heldur þeim sjálfum til bölvunar? Það er ekki til neins að prédika svona, að það sé verkamönnum til bölvunar að hækka kaup, en það sé nauðsynlegt að hækka afurðaverð til bænda og tryggja þeim hærri tekjur. Sé það verkamönnum til bölvunar, að kaupgjald hækki eins og nú er ástatt, þá er á sama hátt og í ríkara mæli bændum til bölvunar og þjóðinni til bölvunar, að þeirra afurðir hækki, og hvaða vit er þá í því, í viðbót við hækkun afurðaverðsins, að leggja fram úr ríkissjóði yfir 30 millj. í beinan styrk til þess að auka kaupgetu bænda, auka eftirspurnina eftir vörunni og sprengja vöruna upp til aukins ófarnaðar? Það er ekki heil brú í þessari röksemdafærslu. Ef það er verkalýðnum til óhags, að tekjurnar hækki vegna þess að kaupgetan eykst og framboð nauðsynja svarar ekki til þess, þá á líka það sama að gilda um tekjur þeirra stétta, sem hæstv. ráðh. rembist við að hækka á hverju ári; hann er þá að gera þeim bölvun með þessu. En sannleikurinn er sá, að hæstv. ráðh. veit betur en svo, að hann trúi þessu. Ef kenning hans um að skerða kaupmáttinn er rétt, þá átti að skera niður það 30 milljóna framlag til landbúnaðarins, sem ætlazt er til, að ríkissjóður greiði, og lækka verðlag landbúnaðarafurða, þannig að bændur hefðu minna og séu ekki að sprengja upp verðið hver fyrir öðrum.

Þetta er kjarninn í kenningu hæstv. ráðh. Ég vil því ráða honum til þess, þegar hann vitnar í Torfa Ásgeirsson og Jónas Haralz, að lesa ekki þessa einu setningu í þeirra áliti, heldur líka það, sem er á undan og eftir, en ef hann þá kemst að niðurstöðu, þá skilst mér, að hann megi fara að breyta sinni stefnu. Því fram hjá þeim sannindum kemst hann aldrei, að sé það einni stétt í þjóðfélaginu til óheilla að fá rýmkuð sín lífskjör í bili, þá gildir líka það sama um hverja þá stétt, sem lifir af þeim atvinnurekstri, sem vinnan gefur honum. Ég hef verið þolinmóður að hlusta á þessar hagspekikenningar hæstv. ráðh., og hann er ekki einn um þær, en mér fannst, að nú sé mælirinn fullur hjá hæstv. ráðh., og ég vildi því nota nóttina til þess að benda honum á ósamræmið í þessum kenningum, sem hann tekur við lítt athuguðum einhvers staðar frá og ber á borð sem nýmeti hér, hvað það alls ekki er.

Hugleiðingar hæstv. ráðh. um það, að Alþýðuflokksstjórnin, sem hann kallaði, hafi í rauninni verið búin að koma gengislækkun á, fannst mér satt að segja nokkuð fyrir ofan garð og neðan. Ég man ekki betur en hans ágæti flokkur ætti fulltrúa í þessari Alþfl.-stjórn, sem hann kallar svo. (Landbrh.: Alþfl. réð ferðinni.) Færi betur, ef svo hefði verið, en 4 atkv. eru þyngri á metunum en 2, og það mun hafa sýnt sig oft í þeirri samvinnu. Ég hef setið í ríkisstj. með þessum hæstv. ráðh. og minnist þess, að 2 atkv. voru þyngri á metunum heldur en 1. (Landbrh.: Við hvað voru atkv. Alþfl. lögð?) Alþfl. er á því, að sömu lögmál eigi að gilda um tekjur bænda og verkamanna, en hæstv. ráðh. er á annarri skoðun. Kenning hans er í stuttu máli sú, að meðan nóg var af peningum, þá hafi verið farið svo gálauslega með þá, að allt sé nú eytt og skuldir komnar í staðinn og ekkert hafi fengizt í staðinn, og niðurstaðan sé sú, að ekki hafi verið til önnur leið en að gera gengislækkunina síðustu til að bjarga þjóðinni. Björgunin er eins og allir vita, og má vera, að tækifæri verði til að víkja að því síðar. Ég skal játa, að það hefur sjálfsagt verið lítil fyrirhyggja stundum við ráðstöfun á þessu fé, sem við áttum inni í útlöndum, og ég hefði kosið, að meiri fyrirhyggju hefði þar gætt. En ef farið hefði verið að bjargráðum þeim, sem Framsfl. benti á, þá hygg ég, að miklu verr hefði farið heldur en nú, af því að ekki er nokkur vafi á því, að þá hefðu ekki fengizt þau nýju skip og aðrir nýir gagnlegir hlutir, sem keyptir voru fyrir nokkuð af þessu fé, heldur hefðum við geymt peningana þangað til dýrtíðin lækkaði og togararnir í Bretlandi, þangað til búið var að tryggja öruggan rekstur sjávarútvegsins, og ég man ekki hverju fleira átti að bíða eftir. En sú bið hefði ekki orðið á þennan veg. Það hefði að vísu orðið bið á því að setja peningana í eignir, en peningarnir hefðu farið í verzlunarhalla á þeim árum, sem nú eru liðin, en ekkert hefði farið í nýsköpun, ef ráðum Framsfl. og hæstv. landbrh. hefði verið fylgt. Þetta er atriði, sem ekki þarf um að deila. Hæstv. ráðh. veit, að útflutningurinn hefði orðið minni, verzlunarhallinn þeim mun meiri, peningarnir hefðu verið notaðir til innkaupa á lífsnauðsynjum, við hefðum ekki fengið skip, ekki vélar, ekki jeppa til landbúnaðar, heldur hefðum við étið þetta upp á tiltölulega skömmum tíma. Þau tæki, sem nú ætti að fara að kaupa, þegar búið væri að lækka dýrtíðina, eru margfalt dýrari en þegar við keyptum þau. Þetta væri allt horfið; í staðinn fyrir að nú hefur lítill hluti af því farið í óþarfa.

Hvernig er svo þetta bjargráð, gengislækkunin? Hæstv. ráðh. segir, sem sjálfsagt er að viðurkenna, að ekki hafi að vísu allt rætzt, sem spáð var um það, að engin kjaraskerðing væri fyrir verkamenn að gengislækkuninni; það láti nærri að kjaraskerðingin sé 30%. Mér þykir það ótrúlega mikið, en það breytir ekki því, að kjaraskerðingin er veruleg. Út frá þessum hugleiðingum komst hann að þeirri niðurstöðu, að nokkuð öðruvísi hefði farið í Noregi og Bretlandi heldur en hér, það væri einhver munur. Þar væri þetta allt í bezta lagi, þó að þar væri kratastjórn. Hæstv. ráðh. sagði, að nú væri kaupgjald bundið í Noregi og væri ekki borgað til jafns við dýrtíðina. Þetta hallast talsvert á. Í Noregi var kaupgjald hækkað í september í haust, ekki með lagaboði, heldur með samningum milli atvinnurekenda og landssambands verkamanna, og sú hækkun var nokkru meiri en orðið hafði á verðlagi frá því síðast var samið áður. Ef vísitalan hækkar yfir visst mark, þá eru samningar fallnir niður og þá er samið á ný. Samhliða þessu eru svo gerðar ýmsar ráðstafanir, hliðarráðstafanir, til þess að tryggja, að hlutur verkalýðsins sé ekki skertur. Það hefur verið samið um að auka tryggingar, lengja orlof úr 2 í 3 vikur á ári, og fleira mætti til tína. En höfuðatriðið í þessum samningum er, að kaupið er ekki bundið lengur en upp að ákveðnu marki miðað við vísitöluna. Svipað er þetta í Bretlandi. Það er að vísu ekki þannig þar, að einstök félög geti á hverjum tíma sagt upp samningum, því að heildarsamtökin þurfa að standa að slíkum deilum, og það er alveg rétt, að ríkisstj. hefur dregið úr verkalýðssamtökunum að hefja deilur, en verkföll eru daglegt brauð, þó að í smáum stíl sé, og ríkisstj. hefur beitt sínum áhrifum gegn því að langt sé farið í kauphækkunum. Nú hefur ríkisstj. horfið frá þessu, vegna þess að verðlag hefur hækkað og vegna þess bætta hags, sem orðið hefur á seinni árum, ekki sérstaklega vegna gengislækkunarinnar, heldur vegna þess, að viðskiptahorfur eru breyttar í heiminum, þannig að ég hygg, að nú sé samkomulag um það milli verkalýðssamtakanna og ríkisstj., að það sé eðlilegt, að kauphækkun komi fram í Bretlandi. Ef hæstv. ráðh. les svo fjármálatímarit, eins og hann segir, þá hlýtur hann að hafa rekið sig á þetta.

Niðurstaða hæstv. ráðh. var sú, að svo ömurlegt hafi ástandið verið, þegar núv. ríkisstj. tók við, af því að ekki var fylgt leiðum Breta og Norðmanna og Kanadamanna, að íslenzkir bankaseðlar hafi ekki staðið fyrir neinu, ástandið hafi verið svo bágborið 19. marz s.l., þegar gengislækkunin var gerð, segir hæstv. ráðh., að íslenzkir seðlar stóðu ekki fyrir neinu. Þetta hefur víst batnað stórkostlega síðan, því að ríkisstj. upplýsir, að seðlar hafi fallið a.m.k. um 23% síðan. Dýrtíðin hefur aukizt um 23% síðan í marz í fyrra, það segir, að seðlaútgáfan hefur aukizt. En hafi seðlarnir verið einskis virði í fyrra, — hvers virði eru þeir þá nú? Árangurinn af gengislækkuninni er þá sá, að seðlarnir, sem voru einskis virði, hafa fallið um 23%, og ég játa, að það eru talsverð klókindi, sem þarf til að koma slíkri lækkun fram. Ég er ekki viss um, að ég gæti staðið mig eins vel og hæstv. ráðh., að gera það, sem verðlaust er, enn þá verðminna, enda er þetta meira orðaleikur hjá hæstv. ráðh., eins og sumt af því, sem hann lét frá sér fara, þegar hann talaði um þetta efni.

Þegar hæstv. ríkisstj. samþ. þessi gengislækkunarlög á síðasta þingi, þá taldi hæstv. landbrh. og talsmenn Framsfl., að þetta væri að vísu ekki skemmtilegt, en þetta væri ill nauðsyn, en það mætti með ýmsum hliðarráðstöfunum draga úr áhrifum gengislækkunarl. og gera þau þannig bærilegri fyrir fólkið en ella. Hagfræðingarnir, sem undirbjuggu frv., reiknuðu út eftir nákvæma athugun, að verðhækkun af völdum gengislækkunarl. yrði 11–13%. Eins og fyrr segir, þá var allt geirneglt og sá eini galli, sem var hugsanlegur í þessu, var það, ef verkalýðurinn hækkaði kaup meira en gert er ráð fyrir í l.

Verkalýðssamtökin tóku þessu máli með skilningi og leyfðu l. að sýna, hvernig þau reyndust, og gerðu ekki ráðstafanir til kauphækkana almennt, þannig að sú ástæða varð ekki l. til falls. Samt hefur reikningurinn bilað, þannig að hækkunin er tvöfalt meiri en hagfræðingarnir gerðu ráð fyrir, og við nánari athugun hefur komið fram, að aðeins lítið af þessari hækkun stafar af hækkun á erlendum innflutningi til landsins, langmest af þessari nýju dýrtíð er heimatilbúið. Ríkisstj. ætlaði að halda svo vel á spöðunum að láta þetta ekki hækka meira en þetta, ef verkamenn ekki sprengdu upp kaupið. Þetta hefur tekizt svona. Það skal viðurkennt, að hagfræðingarnir, sem gerðu þessar áætlanir, sáu ekki fyrir til fulls, hverjar hliðarráðstafanir ríkisstj. mundi gera til þess að draga úr áhrifum gengislækkunarinnar, og sennilega hafa þeir ekki reiknað með þeim öllum. Hin eiginlega hliðarráðstöfun var sú að margfalda söluskattinn, til þess að draga úr dýrtíðinni væntanlega. Þetta er fullkomlega heimatilbúið, og að sjálfsögðu átti þetta sinn þátt í að skapa 4–5 stig af dýrtíðinni. Þá var verðtollurinn hækkaður í krónutölu miðað við óbreyttan innflutning. Það voru fleiri hliðarráðstafanir. Húsaleigulögin voru ekki afnumin strax, en þau eiga að falla niður eftir nokkra mánuði, a.m.k. eru þau gerð að litlu gagni. Það hafa smátt og smátt verið felldar undan verðlagsákvæðum ýmsar nauðsynjar, svo sem matsala á veitingahúsum, greiðasala og annað slíkt, allt til að draga úr dýrtíðinni. Landbúnaðarafurðir hafa hækkað, fyrst mjólk 1. júlí og síðan um 20–30% í haust, sem virðist ekki góður leikur gagnvart bændum, að spilla högum þeirra með því að auka kaupgetuna á þann hátt.

Nú á þessu þingi hafa enn verið auknar þessar hliðarráðstafanir, enn er bætt á gömlu Skjónu, enn er söluskatturinn hækkaður. Vörutollurinn er hækkaður um 17% á algengum vörutegundum, rafmagnið í Reykjavík er hækkað um 50% með samþykki hæstv. ráðh., og kaupgjald hefur hækkað um 15%. — A.m.k. þrisvar sinnum fleiri hafa framfæri sitt af verzlun eða öðru slíku, en ekki er haggað við því.

Ég verð að segja, að mér virðist allt benda til, að spá mín, þegar gengislækkunarlögin voru samþ., sé komin fram. Ég sagði, að án sérstakra aðgerða, og það mjög róttækra aðgerða, yrði eini árangurinn af gengislækkunarlögunum, að ný dýrtíðaralda risi, sem væri mun erfiðari en sú fyrri, og yrði meira ósamræmi í innanlandsmálum, sem mundi sennilega verða til þess. að ný gengislækkun yrði óhjákvæmileg og sennilega hafa í för með sér sömu afleiðingar. — Ég fæ ekki betur séð en það sé bókstaflega komið fram að sumu leyti og annað ætli að rætast, sem ég sagði. Hvað sem hæstv. ráðh. segir, þá hef ég ekki trú á því, að hæstv. ríkisstjórn geri nú ráðstafanir til að koma vélbátaflotanum á veiðar. Þetta verður til að rýra gengið á einn veg eða annan og auka enn dýrtíðina í landinu, þrátt fyrir fullyrðingar hæstv. landbrh. um hið gagnstæða. Hæstv. ráðh. segir, að Alþfl. hafi ekki bent á neina leið í þessu máli. Þetta er algerlega rangt. Alþfl. benti á, þegar gengislækkunarlögin voru afgr., að eins og tímarnir voru þá og mikil óvissa ríkjandi, væri ekki vit í að hverfa frá uppbótaleiðinni. Ég skal játa, að þá lá ekkert fyrir um togarana. Vafi lék á því áður, að þjóðin gæti borið þær álögur, sem á væru lagðar, án þess að gengislækkun hefði verið gerð. Hefði henni þá verið léttara að halda áfram sömu braut, þó ill væri. Tilfærsla á tekjum hefði ekki orðið jafnþungbær fyrir almenning og við gengislækkunina. Ekki sízt þegar þess er gætt, að útkoma ársins hefur verið slík, sem reyndin er, því það er augljóst hverjum manni, að þegar viðskipti við útlönd eru þannig, að verðmæti útflutnings í erlendum gjaldeyri eru stórum minni en verðmæti innfluttrar vöru í erlendum gjaldeyri, þá er okkur tjón að gengislækkuninni. (GJ: Að því stefndi flokkur hv. þm. með togarastöðvuninni.) Fyrst og fremst hefur Alþfl. ekki átt hlut að togarastöðvuninni, og mótmæli ég því. Viðvíkjandi því, sem hv. 6. landsk. sagði, þá er það eftir kenningu hv. þm. Barð., að togarastöðvunin ætti að vera hið mesta lán fyrir landið, þar sem hún verki sem kauplækkun og dragi úr kaupgetu. Í öðru lagi var á það bent í þessari deild, og ég ætla, að ég hafi gert það sjálfur, að eins og ástandið væri í þessu máli, væri gersamlega ómögulegt að slíta útflutningsverzlun og innflutningsverzlun í sundur, og að ómögulegt væri að ala þann mikla sæg af fólki, sem lifir á þessum viðskiptum að óþörfu, heldur láta margt af þessu fólki skapa sér sjálft tekjur við önnur störf. Þyrfti að taka verzlun við útlönd í hendur þess opinbera og tengja saman útflutning og innflutning með beinni stjórn þess opinbera. Með því mætti tvímælalaust gera betri innkaup og minnka verzlunarkostnaðinn stórkostlega með fækkun starfsliðs. Mundi það sennilega tryggja betri sölu en nú er og jafna á milli útflutnings og innflutnings, eftir því sem hentast þykir á hverjum tíma. Á það hefur verið rækilega bent, að eftir samþykkt gengislaganna væri sú ráðstöfun óhjákvæmileg, ef gengislækkunarlögin ættu ekki beinlínis að leiða til annarrar og nýrrar gengislækkunar, eins og nú er komið fram. Hitt er rétt, að eftir þær viðtökur, sem við vissum og sumpart fengum upplýsingar um, að við mundum fá hér í þingi, var þetta ekki lagt fram sem fullkomið frumvarp, enda hefði það engu breytt. Hæstv. landbrh. veit vel, að trygging þjóðfélags eins og okkar fyrir því að geta haft stjórn á eigin gjaldeyris- og viðskiptamálum fæst ekki nema með því móti, að málið verði tekið í hendur þess opinbera. Við erum svo lítil eining í allsherjar viðskiptunum, að ef við höfum mikið starfslið við viðskiptin, svo sem fjárhagsráð, verðlagsstjóra, skömmtunarstjóra og því nm líkt, megnum við ekki að líta eftir, hvort verzlunin sé rekin með sæmilegum hætti. Reynslan sýnir, að slíku eftirliti er hægt að beita tiltölulega skamman tíma, en sem frambúðarástand kemur það ekki að neinu gagni. Ástandið í viðskipamálum í heiminum er ekki þannig, að hægt sé að vera verzlunina nú frjálsa. Hún er það hvergi í heimi og getur ekki verið það. — Þær eftirlitsstofnanir, sem við settum hér, hafa umsjón með skömmtun eg verðlagi vöru og hverjir eigi að fá innflutningsvöru. Geta þessar stofnanir aðeins komið að gagni sem bráðabirgðaráðstafanir. Það á ekki. að telja fólki trú um, að hið ómögulega geti skeð. Það er ekki hægt að gera verzlunina frjálsa. Það er fleipur eitt. Hún er í viðjum í okkar viðskiptalöndum og verður þess vegna ekki gerð frjáls hér. Við eigum að taka verzlunina í hendur þess opinbera, eins og Alþfl. benti á sem eina úrræðið, sem líklegt var, að að haldi kæmi. Það á að hafa sameiginleg innkaup fyrir þessi rúmu hundrað þúsund sálna, en láta ekki hundruð kaupmanna berjast um verzlunina. Hæstv. ríkisstj. verður að játa, að hún hefur ekkert vald í þessum málum, því að þau eru í annarra höndum.

Það er ranghermi, að Alþfl. hafi ekki bent á úrræði. Hann gerði það, en þeim var ekki skeytt. Hitt er rétt, að stjórnarflokkarnir yppta öxlum, þegar um landsverzlun er rætt, og segja, að hún skipti ekki máli, — svo er ekkert gert. Þetta er það sama og því miður vill brenna við hjá hæstv. ríkisstjórn og flokkum hennar. Þeir vilja ekki horfast í augu við þann sannleika, sem blasir við, að meinið liggur ekki fyrst og fremst í kaupgetu verkafólks eða halla af hækkuðu kaupi. Ég skal þó játa, að hækkun á kaupgjaldi getur haft hættu í för með sér. En það er bót á þessu meini, ef hægt er að framkvæma tekjujöfnun í þjóðfélaginu. Menn verða að gera sér ljóst, að fjárhag landsins verður ekki komið á öruggan grundvöll með því að halda núverandi skipulagi.