18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég verð að sjálfsögðu að beygja mig undir úrskurð forseta og hafa þetta aðeins stutta aths., þó að hæstv. landbrh. og hv. þm. Barð. hafi haldið sína hálftímaræðuna hvor og deilt á mig. Í einu atriði erum við, ég og hæstv. landbrh., sammála, að eina ráðið til að halda uppi genginu sé að styrkja atvinnuvegina. Ég vil þá spyrja: Ætlar hann að beita sér fyrir því að styrkja bátaútveginn til að koma bátunum af stað? Ætlar hæstv. ríkisstj. að veita hraðfrystihúsunum aðstoð? Með þessu eflir ríkisstj. gengið, og þetta eykur atvinnu. Hvers vegna daufheyrist ríkisstj. við að framkvæma þessar ráðstafanir? Þetta er einasta leiðin, sem gæti leyst vandamálin. — Lækkun á kaupgjaldi er til þess að auka neyðina í landinu. Till. liggur frammi frá mér og 4. þm. Reykv. um að laun hækki mánaðarlega með vísítölunni. Kaupgjaldið er afleiðing af dýrtíðinni og hún lögð til grundvallar fyrir hækkun kaupgjalds.

Að ósi skal á stemma, segir í gömlum fræðum, og verður hér að taka fyrir upptök dýrtíðarinnar. Þessi till. er í samræmi við lagabreyt., sem sett var fram á nýafstöðnu Alþýðusambandsþingi. Mér hefur borizt bréf í hendur frá Alþýðusamb., sem er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Rvík, 19. des. 1950. Á fundi A.S.Í., er haldinn var nú í nótt, var samþ. eftirfarandi:

„Miðstjórn A.S.Í. samþ. eindregin mótmæli gegn framkomnum brtt. við frv. til l. um breyt. á l. nr. 22/1950, um gengisskráningu, launabreyt. o.fl., er kveða svo á, að frá 1. febr. 1951 skuli laun ekki taka breyt. samkv. ákvæðum gengisl. um vísitöluuppbót, og telur miðstjórnin, að með þessu sé vinnufriðnum í landinu stefnt að óþörfu í bráða hættu.

Miðstj. samþ. enn fremur að skora á Alþingi þegar í stað að samþ. framkomna brtt. þess efnis, að kauplagsvísitala verði framvegis greidd mánaðarlega á laun, eins og verkalýðssamtökin hafa áður krafizt og síðasta Alþýðusambandsþing samþ. einróma sem lágmarkskröfu sína í þessum efnum.“

Miðstjórnin væntir þess, að hið háa Alþ. taki mótmæli þessi og áskorun til greina.“

Þessi samþ. Alþýðusamb., gerð á fundi þess í nótt, kemur nógu snemma. Ég vona, að vilji sé fyrir því að samþ. hana, áður en till. hæstv. ráðh. verður samþ. Ríkisstj. á frjálst val, hvort hún vill taka til greina kröfur Alþýðusamb. eða hafna þeim. Lágmarkskrafan er hér á pappírnum, og er engum blöðum að fletta um það, hver hún er. Ég læt að lokum í ljós, að ég tel illa farið, ef ríkisstj. ætlar í stríð við verkalýðssamtökin, jafnaðþrengd og alþýða manna er nú. Afleiðingin er uppreisn atvinnuveganna og síhækkandi verðlag. Þeir telja sig ekki lengur geta þolað bindingu vísitölunnar eða lækkun kaupgjalds. Ef ekkert verður gert til að efla atvinnuvegina, hafa þeir ekki annað ráð en hækka kaupgjaldið.

Ég hef lokið máli mínu og er ánægður með að hafa átt þess kost að bera fram þá aðvörun frá A.S.Í., sem hæstv. ríkisstj. hefur nú til athugunar við afgreiðslu þessa máls.