07.11.1950
Neðri deild: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

20. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Pétur Ottesen:

Ég tel, að, sú stefna, sem mörkuð er með þessu frv., sé mjög varhugaverð. Það eru vitanlega til fleiri sjónarmið í sambandi við þetta mál heldur en þau tæki, sem gengið er út frá í frv. Það er það tjón, sem hlotizt hefur af verknaðinum, sem sektirnar eiga að miðast við, og þegar það er vitað, að það tjón, sem smærri skip valda í þessu efni, er engu minna en það tjón, sem stærri skip valda, þá tel ég varhugavert að láta það sjónarmið, sem frv. gengur út frá, verða svo ríkt. Það er vitanlega rétt, að það er mikill verðmunur á skipunum eftir stærð þeirra, en ég vil ekki fallast á þá skoðun, að miða beri sektir, er þau fá, við stærð þeirra, heldur við það tjón, sem þau valda með verknaði sínum. Ég vil því nota tækifærið til að benda á þá stefnu, sem hér er verið að marka, og þá stefnubreytingu, sem hér hefur átt sér stað. Hæstv. dómsmrh. lýsti því yfir, að eiginlega hefði verið farið í kringum lögin með því að lækka sektirnar niður fyrir það, sem lög mæla fyrir. Það getur að vísu verið erfitt að fá lúkningu þessara sekta, en því meiri ástæða er til að láta til skarar skríða og fá þau verðmæti, sem lög segja til um. Hér er um svo alvarlegt mál að ræða, að sízt er ástæða til að slaka til á slíkum lögum, en brot á þeim eru þjóðinni mjög hættuleg, þar sem þau geta leitt af sér minnkandi fiskveiðar. Og það er bráður voði fyrir þjóð, sem byggir afkomu sína svo mjög sem við gerum á sjávarútveginum, ef slíku vindur fram. Þar eigum við við ramman reip að draga, þar sem er samningur sá, sem Danir gerðu við Englendinga að okkur forspurðum um síðustu aldamót, en sá tími nálgast nú óðum, að við losnum við þann samning. Við ráðum sjálfir, hver viðurlög skuli vera við slíkum brotum gagnvart erlendum og innlendum skipum, og það er mjög varhugavert að slaka nokkuð til frá því, sem nú er í því efni.