23.01.1951
Neðri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég held, að ég verði að snúa mér að hv. 2. þm. Rang. Hann minntist á ályktun, sem hann flutti fyrir 5 árum ásamt öðrum þm., og er það rétt, sem hann sagði. Ég tel, að það mætti taka þetta fyrirkomulag upp til þess að auðvelda endurskoðunina. En þetta er háð umboðslegu endurskoðuninni, og eru til skýr lagafyrirmæli um þetta, sem við höfum þegar brotið. En nú stendur á umboðinu og erum við um sum atriði mörg ár á eftir tímanum. Ef þetta ætti að framkvæma, yrði reikningum að vera lokið, svo að umboðsmenn geti tekið til starfa, svo að endurskoðendurnir gætu lokið sínu starfi áður en komið er langt fram á haust. En þegar till. kom fram, var hún óframkvæmanleg. Það er nærtækt dæmi, að ef reikningum fyrir árið 1950 ætti að vera lokið 1954 og Alþingi ætti að koma saman 1. febrúar, ættu reikningarnir að liggja til umræðu um miðjan febrúar. Ég er hræddur um, að þessi breyt. sé ekki framkvæmanleg og held, að þetta takist ekki fyrr en í fyrsta lagi í október árið eftir. Það má segja, að eitt af frumskilyrðum fyrir því, að hægt sé að flýta endurskoðuninni, sé að útvega til þess húsnæði. Ég er sízt að undrast yfir því, að mönnum þyki þetta vera seinagangur. Það hefur tafið mjög fyrir þessu máli, að mánuðum saman hafa endurskoðendurnir ekki haft neitt húsnæði til að starfa í. Alþingi lét þetta sig engu skipta, og eitt árið vorum við húsnæðislausir á fjórða mánuð og urðum að leigja herbergi á hóteli. Í annað skipti urðum við að vera í herbergi Jóns Sigurðssonar, innan um muni, sem við máttum ekki snerta og sízt af öllu skemma. Um leið og við gengum frá skjölunum urðum við að binda utan um böggulinn, og voru þetta erfiðar aðstæður, því að mörg skjölin þarf að bera saman. En þetta hindrar í því að taka reikninginn fyrir eins og við hefðum viljað og þurft hefði og skila fljótt af okkur. Þegar við skiluðum af okkur reikningnum fyrir 1948, var hinni umboðslegu endurskoðun á honum ekki nærri lokið. Það er raunar ekki enn búið að útbýta þeim reikningi, en það hefur þegar verið gengið frá honum til prentunar, svo að menn sjá, að þetta er allt að nálgast, þó að æskilegra væri, að þetta gæti gengið hraðar fyrir sig heldur en verið hefur á undanförnum árum. Þegar við skiluðum af okkur reikningnum fyrir 1948, voru enn eftir um 60 stofnanir, sem hin umboðslega endurskoðun átti eftir að skila endurskoðuðum reikningum frá. Ég er ekki með þessu að ásaka stofnunina, því að hún hefur unnið vel, en ég vonast til, að þetta fari að vera við hóf, en þá von mína byggi ég á því, að breyting mun nú verða gerð á því, sem var um skeið, um lokun ríkisreikningsins. Hv. 2. þm. Rang. minntist á ríkisbókhaldið, en það er búið með sinn þátt í þessu máli um leið og ráðuneytið lokar reikningnum, og ég veit ekki til annars en að þar sé allt í fyllsta lagi. Þegar einhverju skeikar, þá stafar það ekki frá ríkisbókhaldinu, heldur af því, að það hefur ekki verið látið vita um einhverjar færslur, en það er ekki þess sök, heldur hefur því ekki borizt vitneskja um þessi atriði, svo að sé eitthvað ekki á hinn eina rétta hátt, þá er ekki hægt að ásaka embættismann þann, sem þetta hefur með höndum. Það eru líkur til þess, að búið verði að ljúka við reikninginn fyrir árið 1949 á komandi hausti, en um reikninginn fyrir árið 1950 fer eftir því, hve snemma honum verður lokað og hvenær umboðslega endurskoðunin getur lokið sínu starfi, en það mun ekki standa á okkur yfirskoðunarmönnunum, þegar hægt verður að láta okkur hafa gögnin í hendurnar, en það væri ekki úr háum söðli að detta, þó að eitthvað skorti á það, en eðlilegast og æskilegast væri samt að geta fylgt lagafyrirmælum um þetta efni. En um hitt, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, að reikningurinn fyrir 1950 ætti að vera tilbúinn um miðjan febrúar, þá getur það auðvitað ekki heppnazt, og það jafnvel þó að hann væri sjálfur ráðherra. En þessi mál gætu verið í sæmilegu lagi, þó að ríkisreikningurinn væri ekki svo snemma tilbúinn, en hvort hann gæti verið til í haust, það er annað mál. Hvað viðvíkur reikningnum fyrir 1949, þá er rétt byrjað að prenta hann, en það er tvíverknaður að endurskoða hann áður en hann er prentaður og þurfa síðan að athuga hann aftur eða a.m.k. að bera saman heildarniðurstöðurnar. En það er langt síðan handritið að honum kom í prentsmiðjuna, og það er annaðhvort farið að prenta hann eða þá verið rétt í þann veginn að byrja á því.

Hv. þm. V-Húnv. vék að ríkisreikningnum og spurði, hvort við yfirskoðunarmennirnir hefðum engar reglur til að fara eftir í starfi okkar, eða hvort við hefðum engar slíkar reglur sett okkur sjálfir. Þar er því til að svara, að engar reglur eru til um þetta atriði, nema í lagastafnum, en þar segir, að yfirskoðunarmenn skuli sannfæra sig um, að tekjur og gjöld landsins séu rétt fram talin, og að tekjur landsins séu þar allar taldar, og hvort nokkru hefur verið varið af þeim án heimildar í lögum, og að uppgjörið sé rétt. Þá eiga skoðunarmenn að víkja að því, sem þeir telja að vanti eða miður fari í þessum efnum. Ég hef gefið yfirlit um þær skráðu reglur, sem til eru um þetta og einnig um framkvæmdina, en í henni höfum við hv. þm. A-Húnv. orðið margbrotlegir, en ég vona, að hv. þm. afsaki þau brot, því að við sáum okkur ekki fært að bíða lengur með að endurskoða reikningana og ekki hægt að gera annað en við gerðum í þeim efnum, en ég vona, að þetta lagist allt á næstunni. — Hv. þm. V-Húnv. fannst ekki vera samræmi í athugasemdum okkar og nefndi dæmi um það. Þetta er alveg rétt hjá honum, og ég veit það vel, en það yrði ekki svo lítill doðrant, ef fara ætti út í allt, sem við teldum að betur mætti fara eða athugunar þyrfti við, auk þess, sem um slíkt eru ærið oft skiptar skoðanir. Hv. þm. vék að ýmsum aths. okkar, sem hann taldi athugaverðar. Hann gat þess, að við nefndum aukagreiðslur þær, sem væru hjá póststofunni í Reykjavík, en nefndum ekki aukagreiðslur hjá bæjarsímanum í Reykjavík og Hafnarfirði. Þessar greiðslur fyrir yfirvinnu hjá bæjarsímanum komu til umr. á síðasta þingi, og ég man það ekki fyrir víst, en mig minnir, að þær væru taldar nauðsynlegar til að afgreiða símasamtöl. — Viðvíkjandi búum þeim, sem hv. þm. minntist á, þá er aðeins smávægilegt hvað varðaði Reykjabúið, en við vildum láta koma fram, að gróði sá, sem orðið hafði af búinu, stafaði frá gróðurhúsunum. Það hefði auðvitað mátt vera ógert að drepa á þetta, en það var gert til þess, að menn sæju, af hverju þessi hagnaður stafaði. Hvað snertir Hvanneyrarbúið, þá hafði verið mikill halli á því á undanförnum árum, en við tókum það sem dæmi til að sýna, að breyting hafði þar á orðið, en það bar að sjálfsögðu enga nauðsyn til að nefna það. — Viðvíkjandi því, sem getið er um atvinnudeildina, þá hefur kostnaður við einstakar deildir þeirrar stofnunar farið í vöxt. Hv. þm. V-Húnv. sagði, að það væri aðeins til hins verra að vera að vekja athygli á þessu, þegar þessi stofnun væri ein af þeim fáu stofnunum, sem í heild eyddi minna fé en gert væri ráð fyrir á fjárl. En við vildum aðeins vekja athygli á því, hve dýr þessi stofnun væri orðin og hvort þjóðin hefði efni á, að hún væri svo dýr í rekstri. Þá vék hv. þm. að því, að það hefði verið þýðingarmeira að minnast á ábyrgðir, og það er rétt, vegna þess að þar er um hærri upphæðir að ræða, en ég ætla, að ég muni það rétt, og hv. þm. A-Húnv. man það eflaust, að það hafi verið árið 1946, að við lögðum sundurliðaða skýrslu um ýmsar greiðslur fyrir Alþ., og það var gert til þess, að Alþ. gæti gert þær ráðstafanir, sem það teldi nauðsynlegar í þessum efnum, en það voru engar ráðstafanir gerðar í þessu skyni af Alþ., og þegar við vorum búnir að benda á þetta og þrásinnis um sum atriðin, þá ætti enginn að þurfa að vera í vafa um, að Alþ. hefði átt að vera í lófa lagið að fylgjast með þessu, t.d. um byggingu síldarverksmiðjanna, sem þingið hafði þá til athugunar, en við vöktum aftur athygli á því, hvort ekki væri rétt, að gefnar væru skýrslur um framkvæmdirnar, en það var ekki gert. Hv. þm. V-Húnv. er í fjhn., og þetta mál varðaði þá n., en hér var um mikið að ræða, og ef til vill full ástæða fyrir Alþ. að gera athugasemd við þetta. Við bentum á, að full þörf væri að athuga vel um greiðslur ríkissjóðs, en ég veit ekki til, að það hafi verið gert, hvorki af þinginu í heild né fjhn. En ég get tekið undir með hv. þm. V-Húnv., að full þörf sé að athuga ýmsar þessar greiðslur.

Þá var minnzt á lán til Ólafsfjarðar, en mig minnir, að sú fjárveiting eigi stoð í l., hvort sem það er undir fjárveitingu til hafnarmála eða einhvers annars, það man ég ekki fyrir víst, en mig minnir þetta. Um þetta almennt og till. þær, sem við gerum í þessum efnum, þá verð ég að segja, að slíkt verður alltaf skoðunarmál og matsatriði og getur ekki orðið meira. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta fram yfir það, sem ég hef þegar gert.