26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

49. mál, sveitarstjórar

Frsm. meiri hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Eins og segir á þskj. 519, hefur heilbr.- og félmn. klofnað um þetta mál. Minni hl. hefur ekki getað orðið sammála meiri hl. um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Einn nm. var fjarverandi, er málið var afgreitt.

Þetta frv. var borið fram á síðasta þingi og er hv. þdm. kunnugt síðan þá, en forsaga þess er sú, að það var á sínum tíma samþ. hér á Alþ. þáltill. í þá átt að skora á ríkisstj. að athuga, á hvern hátt stjórn stærri kauptúna yrði haganlegast fyrir komið. Það er þannig nú orðið, að stjórnir stærri kauptúnanna hafa svo margháttaða starfsemi með höndum, t.d. vatnsveitu, rafveitu, hafnarmannvirki o.fl., að það er orðið allt of mikið starf fyrir oddvita, sem venjulega gegnir öðru föstu embætti, að hafa þetta fyrir aukastarf. Þess vegna virðist óhjákvæmilegt, að þessir staðir eigi þess kost að taka upp aðra skipun á þessum málum, þ.e. að fá starfsmann, sem tæki þessi störf að sér.

Eins og ég sagði áðan, þá hefur þetta mál á síðasta þingi gengið í gegnum þessa deild og út úr henni aftur, svo að það er mjög kunnugt. Ég vil þó aðeins geta þess, að málið, eins og það kemur nú til deildarinnar, er mjög fært í þá átt, sem hv. minni hl. vildi breyta því og fékk því breytt með sínum brtt. á síðasta þingi, en þó ekki fullkomlega, en mér virðist þó, að hv. deild ætti að geta sammælzt um það, eins og það kemur frá hv. Nd. Eins og það var í byrjun, þá var það gert að skyldu, að hreppar, sem höfðu yfir 500 íbúa, skyldu fela sérstökum sveitarstjóra stjórn og framkvæmd hreppsmála. Þessu er breytt í Nd., svo að nú er aðeins um heimild að ræða. Einnig hefur orðið allmikil breyting á því frá því, sem var á síðasta þingi, í þá átt að skerða afskipti félmrn. af þessum málum, og geri ég ráð fyrir, að flestir telji þær breytingar til bóta. Enn er eitt atriði, sem breytt hefur verið. Áður var gert ráð fyrir, að laun sveitarstjóra væru ákveðin, nú hefur það verið fellt niður, svo að það er tiltölulega lítið orðið eftir af því, sem sérstakur ágreiningur var um á síðasta þingi.

Ég vænti þess, að hv. deild sjái sér fært að samþ. frv. eins og það er komið frá Nd., og hef svo ekki fleiru við þetta að bæta.