13.12.1950
Efri deild: 36. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (2144)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið rætt allmikið í Nd. og þegar legið um nokkurt skeið fyrir þinginu, og geri ég þess vegna ráð fyrir, að efni þess sé einnig þessari hv. deild kunnugt og tel þess vegna óþarft að fara um það mörgum orðum. Hins vegar tel ég rétt, vegna þess hve málið er stórt, að fara örfáum orðum um það. — Það er kunnara en frá þurfi að segja, hve bágur hagur útgerðarinnar hefur verið á undanförnum árum. Síðastliðin 6 ár hefur verið fullkomið aflaleysi á síldveiðunum, og hafa töp útgerðarmanna við þær veiðar orðið svo mikil, að ríkið hefur æ ofan í æ orðið að hlaupa undir bagga til að hindra algera stöðvun útvegsins. Einnig hefur orðið að setja lagaákvæði, sem veitt hafa útveginum gjaldfrest, svo að þeir, sem kröfur hafa átt, hafa ekki getað gengið að skipunum eða því, sem í raun og veru var þeirra. Það hefur líka verið svo, að mönnum hefur ekki þótt við þetta atriði unandi, þ.e. þennan gjaldfrest útvegsins. Á s.l. hálfu öðru ári hafa tvisvar verið uppi hugleiðingar um að greiða fram úr þessu með einhverjum hætti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar að þessu. Í því er gert ráð fyrir tvenns konar leiðum til skuldaskila. Í fyrsta lagi er hin svokallaða frjálsa leið skv. 1. gr. frv., og í öðru lagi þvinguð skuldaskil skv. II. kafla þess.

Meginefni frv. er að öðru leyti það, að ríkið gefur eftir þau lán, sem útvegurinn hefur fengið á undanförnum árum, kreppulán og aðstoðarlán, sem nú nema alls 181/2 millj. kr., og auk þess er ákveðið, að tekið verði lán að upphæð 20 millj. kr. skv. 7. gr. frv.; það verður ýmist handbært fé, sem sjóðurinn þarf að hafa til umráða til að leysa nokkuð af þeim kröfum, sem menn eiga honum á hendur, og sumpart verður þetta lán í skuldabréfum, og er þessi upphæð ætluð til að greiða þeim mönnum, sem kröfur eiga á hendur útveginum, nokkuð af kröfum þeirra, eftir því sem nánar er ákveðið um í frv. og ekki er ástæða til að rekja hér, enda hafa áður verið sett lög svipuð þessum, árið 1935, um skuldaskil útvegsmanna, sem að meginefni eru svipuð eða mjög lík þessum lögum.

Í þriðja lagi er svo með frv. tryggt, að þeir, sem lent hafa í vanskilum út af stofnlánum eða vangoldnum afborgunum af stofnlánum, fái bætt greiðslukjör. Þessi vanskil nema 7,1 millj. kr., þegar með eru taldar afborganir, sem féllu í gjalddaga á þessu hausti. Það er ætlað að færa þessar afborganir til þannig, að þær lendi ofan á afborganir þeirra ára, sem eftir eru af hverju láni fyrir sig, með jöfnum þunga á hvert ár. Margir hafa óskað, að hægt væri að færa þessar afborganir alveg aftur fyrir og lengja þannig lánið að sama skapi. Það hefur samt ekki verið hægt að fara eftir þeirri ósk, en þessi lenging, sem hér kemur fram, ætti vonandi að nægja útveginum, og ekki er með neinni vissu hægt að staðhæfa, að ef þessi aðferð nægir ekki, þá mundi hin nægja.

Ég læt nú þessa mjög ófullkomnu skýrslu nægja um efni þessa frv. Eins og ég gat um áður, hefur það legið nokkuð fyrir þinginu og er því hv. deildarmönnum kunnugt, auk þess sem svipuð mál hafa verið til meðferðar á undanförnum þingum.

Mér finnst ástæða til að geta um það strax, að í Nd. gaf ég loforð um að beita mér fyrir 3 breyt. á þessu frv. eins og það liggur fyrir, og ég geri það í samráði við ríkisstj. og sjútvn. Nd. Efnislega eru þessar till. um það, að menn geti fengið þau fríðindi varðandi afborganir á stofnlánum, sem lögin ætla þeim útvegsmönnum, sem þau fjalla um, en það eru þeir, sem stundað hafa síldveiðar á árunum 1945–4950 fyrir Norðurlandi og notið hafa aðstoðarlána. En breytingin er um, að þeim mönnum, sem eru í vanskilum um stofnlán, en ekki hafa fengið aðstoðarlán, verði einnig veitt þau fríðindi, sem lögin ætla hinum, ef sjóðsstjórnin öll er sammála um, að það beri að gera. Þessu til skýringar vil ég aðeins bæta því við, að það er vitað um nokkra útvegsmenn, sem af eigin rammleik hafa brotizt gegnum örðugleika þessara ára að öðru leyti en því, að þeir hafa ekki reynzt þess megnugir að standa í skilum með aðstoðarlánin. Nú má segja, að það sé nokkuð harður kostur þeim til handa að neita þeim um þann gjaldfrest, sem hinum er ætlaður, eingöngu vegna þess, að þeir hafa hlíft ríkissjóði á undanförnum árum við að aðstoða þá. Það er ekki hægt að komast undan að viðurkenna, að þetta væri nokkuð hart aðgöngu fyrir þessa menn, og ég tel sjálfsagt að verða við þeirri ósk. Ég viðurkenni hins vegar, að við þurfum að athuga þetta atriði nokkru nánar, áður en við tökum ákvörðun um að flytja slíka brtt., vegna þess að við vorum hræddir um, að hún gæti dregið dilk á eftir sér, sem er þó ekki bein ástæða til að óttast, þ.e. að hún opni of víðar gáttir og væru þess vegna lagðar kvaðir á stofnlánadeild. Þetta er breyting á 3. gr. frv.

Önnur brtt., sem ég ætla að flytja við sömu gr., er um, að dráttarvextir verði látnir falla niður fyrir þann tíma, sem vanskilin ná yfir. Vextir af stofnlánum eru aðeins 21/2% . Hins vegar mæla lögin svo fyrir, að dráttarvextir af vangoldnum afborgunum nemi 6%, og okkur í stjórninni þótti, að það væri nokkuð hart aðgöngu, að þessir menn, sem lent hafa í vanskilum vegna vangetu, og ríkisvaldið er að gera þessar víðtæku ráðstafanir þeim til framdráttar, verði að greiða 81/2% í vexti af þessum vangoldnu lánum sínum, þó að það verði að viðurkenna, að ríkissjóður, sem ber ábyrgð á stofnlánadeild, tekur á sig nokkuð aukna ábyrgð með því að sleppa þessum vöxtum og skapa þannig e.t.v. hættulegt fordæmi. Þó urðum við sammála um, að þetta væri rétt. Um það mun ég þá flytja brtt. að fella niður dráttarvexti fram til gildistökudags laganna, en eftir það yrðu þeir 6% til að auka aðhaldið.

3. brtt., sem ég ætla að flytja, er um, að sjóðsstjórnina skuli skipa 5 menn, en ekki 4, eins og nú er mælt fyrir um. Þetta er gert til að verða við óskum Landssambands ísl. útvegsmanna, og þeim er ætlað að ráða vali þessa manns, sem við er bætt, en vali hinna 4 ráða: Landsbankinn og Útvegsbankinn sínum hvor og ríkisstjórnin 2. Þó að skv. lögum sé ætlazt til, að atvmrh. geri það, þá hefur okkur þótt rétt að það væru atvmrh. og fjmrh. saman, sem gerðu það.

Þetta er þá það, sem ég vil segja við þessa umræðu. Þessu frv. er meira ætlað að gera hreint fyrir dyrum en að það sé nokkur nýr formáli þessum bágstadda atvinnuvegi til framdráttar, um það verður að gera aðrar ráðstafanir, og held ég, að það væri æskilegt, að menn blönduðu því ekki við þetta mál, svo að það gæti fengið fljóta afgreiðslu. Ég hefði óskað eftir, að það gæti orðið afgr. áður en jólafrí væri gefið. — Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn.