18.12.1950
Neðri deild: 44. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (2224)

121. mál, almannatryggingar

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég hef ekki getað fylgzt með umr. um þessa till. fyrr en nú og skal ekki blanda mér mikið inn í umr., en það er enginn vafi, að það er eðlilegt, að nokkuð sé stungið við fótum, er slík till. kemur fram, því að svo hefur verið undanfarið, að sveitarfélögin hafa verið í vandræðum með tekjustofna, sem nær eingöngu hafa verið útsvör, og kostur sveitarfélaganna hefur verið þrengdur vegna aukinna skattaálagninga ríkisins. Ég efast ekki um, að færa má rök fyrir þessari till., og vék hæstv. forsrh. að því, en eitt rekur annað í þessu efni. Um daginn var mjög hert á skattheimtu ríkisins, og nú kemur þessi till. En hvernig er aðstaða bæjarfélaganna gagnvart ríkissjóði? Jú, hún er þannig, að bæjarfélögin eiga stórfé hjá ríkissjóði, sem þau eiga mjög erfitt með að innheimta, og í dag á bæjarsjóður Reykjavíkur um 4 millj. kr. hjá ríkissjóði, sem hann á heimtingu á l. samkv. Bæjarsjóður stendur þarna miklu veikari fæti, ef ríkið á að fá kröfurétt í útsvörin, og kemur það fram í fleiri skattheimtum, að ríkið óskar sterkari aðstöðu og harðari ráða til að ná sínum gjöldum. Þessi orð vildi ég segja vegna þess, að ástæða er til að íhuga málíð nánar, enda hefur hæstv. forsrh. viðurkennt, að ekki sé gott að fá slíkar till. á síðasta stigi málsins, og vildi ég gjarnan, að þm. gefist kostur lengri athugunar á málinu.