11.01.1951
Neðri deild: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (2786)

76. mál, áfengislög

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Þó að ég geti ekki gengið inn á eða tekið undir það með hv. frsm. allshn., að það sé of langt gengið að því er snertir stjórnendur bifreiða með þeim ákvæðum, sem snerta geymslu áfengis í bílunum, þá viðurkenni ég fyllilega, að í þeim brtt., sem n. flytur, felist meira öryggi fyrir því en nú er, að hægt sé að hafa hendur í hári þeirra sökudólga, sem þarna kunna að vera á ferð. Þau ákvæði mundu án efa torvelda þessa iðju, sem mjög er rekin og iðkuð, frá því sem nú er. Hins vegar, eins og þetta er orðað í frv., þá má gera ráð fyrir, að það hefði gersamlega skorið fyrir það, að slíkri iðju yrði haldið áfram. En nú hefur orðið gott samkomulag í n. um þær brtt., sem hún hefur gert, og þær eru svo vaxnar, að ákvæði þeirra miða til bóta, og vil ég þess vegna vænta þess, að málið geti fengið afgreiðslu á þessum grundvelli, þótt ég hefði vitanlega kosið frekar, að skeleggar hefði verið til verks gengið, eins og lagt er til í frv. sjálfu. Eins og hv. frsm. gat um, þá er aðalbreytingin við 2. gr. frv. sú, að greinin er nú stíluð við aðra grein í áfengislögunum, og get ég fallizt á, að formsins vegna sé það réttara að hafa það svo.

Í einu atriði hefur nefndin breytt þessu frv. til verulegra bóta. Við flutningsmenn frv. höfðum eingöngu miðað það við leigubifreiðir til mannflutninga. En það er alveg rétt, að slík iðja kann að vera rekin í öðrum bílum, og er því þessi breyting n. til mikilla bóta, að láta ákvæðin ná til allra bifreiða, og vil ég þakka n. fyrir þá breytingu.

Ég vil svo vænta þess mjög, þar sem ég get eftir atvikum fallizt á þær breyt., sem hv. allshn. hefur gert á frv., fyrir hönd okkar flm., að Alþingi geti nú afgr. þetta frv., sem felur í sér, að reistar verði nokkrar skorður við þeirri óþverraiðju, sem farið hefur fram í mörgum bifreiðum og farið hefur mjög í vöxt nú síðari árin.