01.02.1951
Efri deild: 59. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (2808)

76. mál, áfengislög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Mér virðist, þó ekki liggi fyrir nema eitt nál., að n. sé raunverulega klofin um málið. Hv. þm. Seyðf. leggur til, að þetta mál sé fellt. Hann er ekki viðstaddur núna, og væri ef til vill rétt að fresta málinu. Ég hef samt talið rétt að tefja það ekki, svo að ekki falli grunur á forseta d. um, að hann kæri sig ekki um að greiða fyrir svona máli. En því er ekki til að dreifa. Ég tel nauðsyn að gera lögreglunni hægara en verið hefur að halda uppi þessum lögum. Ég viðurkenni þá nauðsyn að breyta þessu, en ákvæðin eru svo óskýr, að þau verða naumast skilin. Rétt áðan spurði hv. 11. landsk. n. um skilning á þessu ákvæði. Hann er nú lögfræðingur og lögreglustjóri og dómari í sínu héraði. Ef hann þarf að fræðast um þetta, er ekki undarlegt, þó að leikmenn þurfi þess. Ég álít rétt að greiða fyrir því, að lögreglan geti upprætt ólöglega sölu áfengis, og var frv. meðmæltur, eins og það var borið fram fyrst í hv. Nd. En frv. hefur tekið þeim breyt., að miður góðgjarnir löggæzlumenn geta valdið saklausu fólki óþægindum og fengið því refsað ef frv. er samþ. óbreytt.

Í 2. málsgr. 1. gr. stendur: „Finnist áfengi í bifreið, skal eiganda refsað, sem sekur væri um ólöglega áfengissölu, nema hann geti sannað, að áfengið sé ætlað til löglegra nota.“ — Mér finnst þetta vera vafasamt ákvæði. Í fyrstu var þetta refsiákvæði á eigendur leigubifreiða, en nú nær það til alls þess áfengis, er finnst í bifreiðum. Með þessu er eigandinn sekur, nema hann geti sannað, að hann ætli að nota það sjálfur. Þetta er óvenjulegt í íslenzkri löggjöf, að sakborningur sanni sakleysi sitt. Meginreglan er, að ákærandinn sanni sekt ákærða.

Það er ómótmælanlegt, að það er löglegt að kaupa áfengi, og ríkið sjálft selur það. Þetta er mál út af fyrir sig, og skal ekki frekar farið út í það. En hér er um annað að ræða. Það hafa komið fram ótal till. um alls konar kákráðstafanir, sem eiga að draga úr áfengisneyzlunni, en reynslan sýnir annað. Öllum er heimilt að kaupa áfengi. Bóndi kemur í bæinn og kaupir sér brennivínsflösku, sem hann ætlar að hafa með sér heim. Nú finna lögreglumenn þessa flösku í bílnum hjá honum. Hvernig á hann þá að sanna, að hann ætli ekki að nota það í ólöglegum tilgangi? Ég sé ekki, að það sé hægt að sanna það. Ég hefði ekki kvatt mér hljóðs, ef hv. þm. Seyðf. hefði verið viðstaddur. Hann er kunnur lögfræðingur og hefði sagt sitt álit á málinu. Hæstv. dómsmrh. er hér staddur, og væri fróðlegt að heyra hans álit á þessum nýju réttarvenjum, sem ekki munu eiga hliðstæðu í íslenzkri löggjöf. En hér virðist manni þetta vera þannig, að hver, sem er með brennivínsflösku í bifreið, megi eiga von á því að lenda í höndum lögreglunnar. Ef ég hef skilið þetta rétt, finnst mér réttara fyrir fylgjendur frv. að berjast fyrir afnámi áfengissölu í landinu heldur en að gera tilraun til að gera alla menn, sem kaupa áfengi, að sakamönnum. Allir þeir, sem ekki búa í bænum, geta átt það á hættu, að lögreglan taki þá, nema þeir fari gangandi heim með sitt vín. Ef bóndi úr Skaftafellssýslu kaupir áfengi, verður hann að labba með það heim, til að eiga það ekki á hættu að sæta stórsekt samkv. landslögum.