01.02.1951
Efri deild: 59. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (2809)

76. mál, áfengislög

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 579 ber með sér, hefur n. ekki getað orðið sammála um þetta frv. Ég legg til, að frv. verði fellt. Ég játa, að það kann að vera umtalsvert að koma í veg fyrir ólöglega sölu áfengis, eins og frv. á að gera. En ég tel, að til séu önnur ráð, sem brjóta minna í bág við almennar réttarvenjur. Einfaldasta leiðin er að hafa áfengisverzlunina opna meira, jafnvel allan sólarhringinn og selja áfengið þá eitthvað hærra verði. Vitanlega kaupir almenningur ekki vín af bifreiðarstjórum, ef menn geta fengið það á annan hátt og fyrir lægra verð. Það er svo annað atriði, að það er eins og menn umhverfist, þegar minnzt er á þetta mál. Menn verða æstir í skapi og koma ekki rétt fram sínum góðu hugsunum. Við verðum að játa, að sala áfengis er orðin svo stór liður í tekjum ríkisins, að ef verzluninni yrði lokað í 1–2 mánuði, yrði fljótlega að loka líka hjá ríkisféhirði. Nú hafa bifreiðarstjórar gerzt umboðsmenn ríkisins, þegar verzluninni er lokað, en í staðinn eru þeir hundeltir og sektaðir. Það gengur jafnvel svo langt, að það á að breyta sönnunarskyldu í opinberum málum. Á sama þingi er verið að afgr. lög um meðferð opinberra mála. Það er verið að leggja áherzlu á að vernda rétt þeirra, sem undir sök eru. Ég sé ekki, að það komi til mála að snúa þessu við, og legg til, að d. láti ekki henda sig þá óhæfu að samþ. þetta frv.