01.02.1951
Efri deild: 59. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (2810)

76. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil láta afnema þetta ófremdarástand með ólöglega sölu áfengis. Mér finnst það einkenna afgreiðslu þessa máls, að 3 lögfræðingar í Nd. leggja til, að þetta verði samþ. svona. Þeir hafa borið fram brtt. á þskj. 373. Leitað hefur verið álits lögreglustjórans í Rvík. og er hann sammála þessu í samkomulagi við forstöðumann rannsóknarlögreglunnar. Hins vegar fellst ég á þau rök 1. þm. Eyf. og þm. Seyðf., að ekki sé hægt að láta þetta ganga svona í gegn. Það er ekki hægt að láta þann grunaða sanna sakleysi sitt. Ég vil fá að heyra álit dómsmrh. á þessu. Mér finnst það vera ádeila á lögreglustjóra, sem segir í grg., að bifreiðar með áfengi standi fyrir utan dansstaði. Hvar er þá lögreglan? Er þá ekki hægt að fyrirbyggja þetta? Mér finnst lögreglan heimila ólöglega vínsölu með því, að bifreiðarnar skuli standa óáreittar með vin fyrir utan dansstaði. Er þá ekki hægt að hafa hendur í hári þeirra? Mér finnst ástæða til að láta fara fram athugun á þessu. En ég efa, að hægt sé að uppræta þetta. Ég vil benda á, að sú regla hefur verið höfð á við bifreiðaeftirlit, að stöðva menn hvar sem er til að fá að sjá ökuskírteinið. Því verður ekki neitað, að þó að viðkomandi maður hafi ekki skírteinið á sér, getur það ekki talizt neinn stórkostlegur glæpur. Það getur ekki heldur talizt glæpur. þó að skipstjóri eða vélstjóri geti ekki sýnt skírteini sitt, eða háskólaborgari sitt borgarabréf. Verið getur, að þeir hafi það ekki við höndina. Þetta hefur vakið andúð í landinu, og er ástæða til að breyta þessu. En nú á að fara að bæta því við að fara að stöðva bifreiðar hvar sem er og láta svo manninn sanna sakleysi sitt, ef vín finnst í bílnum. Ég held því fram, að það sé hægt að laga þetta ástand, en get þó ekki verið fylgjandi frv., vegna þess sem ég hef getið. — Ég lýsi því yfir, að forseti d. hefur ekki neina ástæðu til að ætla, að grunur félli á hann, að hann vildi tefja málið, þó að hann frestaði því. Við vitum, að hans fundarstjórn er svo réttlát. Ég vildi óska, að n. tæki málið til nánari athugunar.