05.02.1951
Efri deild: 64. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (2818)

76. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og ég gat um hér áður við umr. um þetta mál, þá treysti ég mér ekki til að fylgja frv. eins og það nú er á þskj. 474. Að vísu lýsti hæstv. dómsmrh. því yfir, að þó að frv. yrði samþ. þannig, þá mundi þess verða gætt í framkvæmdinni að fara af góðgirni með lagastafinn og koma mildilega fram gagnvart þeim, sem brotlegir kunna að reynast, þegar sýnt þyki, að ekki sé um ólöglega áfengissölu að ræða. En þó að hæstv. ráðh. gefi slíka yfirlýsingu, hefur það ekki svo mikið að segja, þar sem hann mun ekki fara með dómsmálaráðherraembættið til eilífðar, og ekki er víst, að eftirkomandi hans í því em bætti verði sama sinnis, og auk þess heyrir framkvæmdin að mestu undir þá, sem fara með löggæzluna. Ég vil benda á í þessu sambandi, að oft hafa komið fyrir leiðinleg atvik í sambandi við þessi mál, t.d. akstur bifreiða. Ég sagði frá því um daginn, að þeir, sem fara með eftirlit á vegunum, hafi gert mikið að því og í vaxandi mæli að stöðva menn og spyrja þá um ökuskírteini. Þessir eftirlitsmenn hafa oft dómara með sér í bifreiðinni og setja síðan rétt yfir mönnum og dæma þá í sektir á vegum úti, hafi þeir ekki með sér skírteini sitt. Slíkum aðferðum er ekki fyrst og fremst beitt til að auka eftirlitið, heldur til þess að afla ríkissjóði tekna til að standa undir þessu eftirliti. Að vísu er til um það ákvæði í lögum, að menn skuli hafa meðferðis ökuskírteini sín, þegar þeir eru við akstur, en ef ákvæði þessa frv. verða álíka mildilega framkvæmd og þetta, þá tel ég, að hæpið sé að setja slík lög eins og hér á að gera. En eðlilegast væri, að menn væru ekki sektaðir, ef þeir geta sannað, að þeir séu handhafar ökuskírteinis, þó að þeir hafi það ekki meðferðis. En þetta er nú reynslan í þessum efnum, og á meðan svo er, þá ber ég ekki traust til þessara manna, að þeir beiti ákvæðum þessara laga mildilegar en þeir hafa gert í sambandi við ákvæðin um ökuskírteinin. Það eru dæmi til þess hér, að lögregluþjónar hafa tekið menn, sem aldrei hafa smakkað vín, og ætlað að setja þá í kjallarann sökum ölvunar við akstur. Og hvers má þá vænta, þegar þeir hafa lagabókstafinn á bak við sig? Ég get því ekki samþ. frv. þetta eins og það er á þskj. 474. Ég vil benda á, að hverju sé stefnt í þessu máli. Það er kunnugt, að það varðar ekki við lög að selja vín í þessu landi, og tekur ríkissjóður stórtekjur af slíkri sölu, en það varðar við lög, að einstaklingar annist slíka sölu og hafi hagnað af. Þegar það er athugað, þá er sú hegning, sem ákveðin er við leynivínsölu í 2. gr. þessa frv., ekkert sambærileg við hegningarákvæði í öðrum lögum um ólöglega sölu annarra vara. Það virðist því vera saknæmara að selja vín en aðrar vörur, en þegar þess er gætt, að ríkið sjálft hefur með höndum slíka sölu í stórum stíl, þá er ekki hægt að viðurkenna, að sala víns sé saknæmari heldur en sala annarra vörutegunda, enda þótt hvort tveggja sé ólöglegt. Ef takmarka ætti víndrykkjuna í landinu, þá ætti að setja í löggjöfina, að löggæzlumenn megi rannsaka, hvenær sem maður sjáist ölvaður á almannafæri. Þegar þessi mál voru hér síðast til umr., þá gat ég um, að það þyrfti að athuga þetta, að mönnum leyfðist ekki að vera á slangri drukknir og valda öðrum með því óþægindum, en allar slíkar till. voru felldar. — Þá get ég ekki viðurkennt, að löggæzlan hafi ekki möguleika til að fylgjast með því, hverjir selji vín ólöglega, á annan hátt en hér er gert ráð fyrir. Fyrir nokkrum árum var gert áhlaup á a.m.k. tvær bifreiðastöðvar, sem höfðu með höndum ólöglega áfengissölu, með þeim árangri, að önnur stöðin varð að loka, en hin beið mikinn hnekki. Þetta var því mjög gagnlegt, en ég held, að slíkt hafi nú verið stöðvað, en hvers vegna, veit ég ekki.

En mér finnst undarlegt, ef þessi sala er eins opinber og talið er í grg., að menn bíði með heil bílhlöss af áfengi úti fyrir skemmtistöðum til að selja það, að ekki sé hægt að stöðva slíkt á annan hátt en hér er gert. Ég er hér því með till. á þskj. 618, sem leggur til, að síðari mgr. 1. gr. orðist svo: „Nú finnst áfengi í bifreið, og skal þá refsa eiganda þess sem hann væri sekur um ólöglega áfengissölu, nema hann færi sterkar líkur fyrir því, að áfengið sé ekki ætlað til sölu“.

Ég skal viðurkenna, að nokkuð er hér gengið inn á það, að ákærði skuli sanna sakleysi sitt, en ég vil þó gera tilraun til að milda ákvæði frv. á þskj. 474, þar sem ég set í brtt. minni, að hann skuli færa sterkar líkur til þess, að hann ætli ekki að selja vínið. Það á m.a. að sekta viðkomandi aðila, þó að ekki finnist nema 1–2 flöskur í bifreið hans, og einnig verður hann að sanna, að hann ætli ekki að gefa unglingum undir 21 árs, sem með honum eru, vín. Það eru enn fremur þung viðurlög í 1. ákvæði 2. gr., ef mönnum tekst ekki að sanna, að þeir ætli ekki að selja vínið, að þeim sé samt sem áður gert að greiða fimmfalt andvirði vínsins í sekt. En það er í þessu ákvæði. Annars er það sjáanlegt, að þetta á aðeins að ná yfir söluna, en ekki ef bifreiðarstjórar veita unglingum yngri en 21 árs vín.

Ég vil, að greinin verði felld niður, og mun fylgja brtt. á þskj. 614, en að þeirri grein felldri mun ég greiða atkv. með brtt. á þskj. 618. — Ég tel einnig rétt, að sektarákvæðunum yrði breytt. Það er ekkert vit í því, að sektin nemi fimmföldu söluverði áfengisins, t.d. ef um væri að ræða 10 flöskur á 200 kr., þá yrði sektin 10000 kr. Þetta mundi ekki skapa annað en útgjöld fyrir hið opinbera með því að halda mönnunum inni og láta þá afplána sekt sína. Ég tel mér ekki skylt að bera fram brtt. í þessu efni, en tel, að hún hefði átt að koma frá allshn. Slík ákvæði sem þetta fara alltaf út í öfgar, og verður sektin í flestum tilfellum annaðhvort gefin eftir eða menn sitja hana af sér. Þannig er þessu t.d. farið hvað landhelgisbrotin snertir, og tel ég þetta ákvæði mjög óheppilegt. En þetta hefði n. átt að reyna að laga með brtt.

Ég get ekki fylgt frv. eins og það er, og ef brtt. þær, sem hér liggja fyrir, verða felldar, mun ég greiða atkv. á móti frv.