05.02.1951
Efri deild: 64. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (2820)

76. mál, áfengislög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þegar umr. um þetta mál var frestað hér í deildinni, kom fram skrifleg brtt. frá hæstv. forseta, fyrra þm. Eyf., og frestunin var ákveðin í því skyni, að n. athugaði málið að nýju. Þessi brtt. hans hefur verið tekin til baka, og hefur n. ekki fengið hana til athugunar í sambandi við þetta mál. Nefndin hefur ekki haldið fund síðan, en nokkrir nm. hafa komið saman og rætt þetta við andstæðinga frv., t.d. hv. 1. þm. Eyf. og þm. Seyðf., og eftir þær umr. varð niðurstaðan sú, að nefndin flutti enga brtt., en 1. þm. Eyf. flutti brtt., sem nefndin taldi ekki fráleita til samkomulags, og mér finnst hún miklu frekar koma til greina en till. á þskj. 618.

Ég hef því miður týnt blaðinu, sem ég hef punktað niður á hjá mér það, sem mér þótti helzt ástæða til að svara. En það gerir þá ekkert til, þótt ég sleppi einhverju. — Ég man það, að hv. 11. landsk. spurði mig að því, hvað meint væri með „rökstuddum grun“, og 1. þm. Eyf. talaði um „pela“.

Ég get bezt útskýrt meininguna með „rökstuddum grun“ með því að taka dæmi, og af því að hv. 11. landsk. er yfirvald í sveit, þá er bezt að taka dæmi um allsherjar fyllirí í sveit. — Nú færi svo, að skemmtun væri auglýst. Þá mætti sýslumaðurinn notfæra sér þessa — löggjöf og fara á hnotskóg og leita að víni í Reykjavíkurbílum. Segjum nú, að hann fyndi „pela“ af áfengi í einum bílanna. Þá lægi enginn „rökstuddur grunur“ fyrir um það, að bifreiðarstjórinn ætlaði að selja þennan „pela“. Ef í þessum bíl væri farþegi, t.d. bóndi í héraðinu, sem sýslumaður vissi, að smakkaði áfengi, þá væri það enginn „rökstuddur grunur“ um, að hann ætlaði að selja vínið, þótt 3–4 flöskur fyndust í bifreiðinni. En ef í þessum bíl fyndust 30–40 flöskur, sem bóndinn gæti ekki gert grein fyrir, né aðrir farþegar, þá væri ástæða til þess að ætla, að um rökstuddan grun væri að ræða, og mundi sýslumaður þá taka hann. En það er auðvitað á valdi dómara að ákveða þetta hverju sinni, en það er fjarstæða, að prívatmenn verði sektaðir, ef í fórum þeirra finnist einn „peli“. Því að það mundi enginn maður aka með slíkt smáræði langar leiðir til þess að græða á því. Auðvitað mundi engum manni detta það í hug að fara að keyra langar leiðir með „pela“ til þess að græða á að selja hann. Ég mundi því telja litlar líkur til þess, að hann mundi ætla að gera sér þetta smáræði að féþúfu! Ég hef aldrei templari verið, en aldrei vín smakkað, en ég mundi samt ekki telja, að um „rökstuddan grun“ væri að ræða í tilfellum eins og þessu. En ef um fleiri flöskur væri að ræða, gegndi öðru máli.

Till. á þskj. 614 var flutt af því, að það er ósköp vel hægt að hugsa sér það — enda mörg dæmi þess efnis úr hinu praktíska lífi — að bílstjóri, sem fer í vínsöluleiðangur, hafi reynt að komast hjá því að telja sig eiganda vínsins, heldur sagt, að t.d. einhver farþeganna ætti það. Þess vegna get ég ekki fallizt á till. þm. Barð. og þm. S-Þ., því að með henni er skotið skálkaskjóli yfir hinn raunverulega eiganda vínsins og honum gert kleift að nota þessa smugu til undankomu.

Mér er sagt, að lögfræðingar í Nd., sem eru fylgjandi frv., hafi nefnt 3–4 dæmi, þar sem sönnunarbyrðin er lögð á þann, sem álitinn er sekur, svo að þetta fyrirkomulag er alls ekkert einsdæmi, eins og haldið hefur verið fram. Ég geri ráð fyrir, að bæði Jóhann Hafstein og Jónas Rafnar, sem báðir eru lögfræðingar, hafi vitað, hvað þeir voru að segja, og því sé ég ekki, að þetta sé eins einstakt og menn vilja vera láta.

Um önnur atriði, eins og t.d. ef bílar eru stöðvaðir úti á götum og bílstjórinn er sektaður fyrir að hafa ekki ökuskírteini sitt á sér, þá er það alrangt hjá þm. Barð., að það sé ekki gert öryggisins vegna. Vissulega er það gert vegna öryggisins, en ekki til þess að afla ríkissjóði tekna, enda eru sektirnar fyrir slík brot mjög lágar, — eða 15 kr., að því er ég held. Þetta eru engar stórsektir, enda er það smáyfirsjón að gleyma ökuskírteininu sínu heima. En þetta er gert til þess að athuga, hvort menn hafi tilskilin réttindi og hafi lokið hinu ákveðna bílprófi sínu. Því við stýrið mega og eiga ekki að sitja menn, sem stofna lífi annarra í hættu með því að keyra án réttinda og kunnáttu.

Ég get ekkert sagt um afstöðu n. til þessara brtt., sem fram hafa komið. Ég er á móti þeim báðum, en gæti þó sætt mig við till. á þskj. 614, því að hún sleppir ekki alveg beizlinu fram af því, sem hér er reynt að taka fyrir, eins og till. á þskj. 618 gerir. Ég mun þó greiða báðum mótatkv. mitt, því að ég vil ekki, að hægt sé að hafa menn í bílum sem leppa fyrir áfengiseignina.

Ég skal annars viðurkenna, að þetta er lítið spor í áttina til þess að minnka drykkjuskapinn og fyrirbyggja einstökum mönnum að selja áfengi ólöglega og nota til þess drykkjufýsn annarra. Það þyrfti auðvitað að taka þetta fastari tökum, en með því að fyrir Alþingi liggur till. til athugunar á allri áfengislöggjöfinni, þá vil ég, að frv. verði samþ. óbreytt. En sem sagt, andstaða mín gegn till. á þskj. 614 er ekki það mikil, að ég telji ekki, að ástandið verði bætt, ef hún verður samþ., þótt ég sé viss um það, að frv. komi að mestum notum, ef það verður samþ. óbreytt.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar. Nd. samþ. frv. mikið til ágreiningslaust, og þótt við hér í Ed. eigum e. t. v. að sjá vankantana betur, þá er okkur áreiðanlega óhætt að hlíta forsjá Nd. í þessu tilfelli!