13.02.1951
Efri deild: 68. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

76. mál, áfengislög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Það er bezt ég fari að dæmi hæstv. dómsmrh. og taki mína till. aftur og leggi fram aðra þannig:

„Við 1. gr. Í stað orðanna „hann færi sterkar líkur .., áfengið sé ekki ætlað til sölu“ komi: sannað sé, að áfengið sé ætlað til lögmætra nota.“

Ég veit, að 1. þm. Eyf. muni geta fylgt þessari till., því að hann hefur sjálfur samið till. á þskj. 614, en átta síðustu orð þeirrar till. koma þá í stað átta síðustu orðanna, sem nú eru í 1. gr.

Ég vil leyfa mér að taka það fram, sem ég sagði við 2. umr. þessa máls, af því að því hefur verið haldið fram í þessari hv. deild, að engin dæmi séu til þess, að sönnunarskyldan sé lögð á þann, sem grunaður er, að tveir þm. í Nd., sem báðir eru lögfræðingar, Jóhann Hafstein og Jónas Rafnar, nefndu 4 dæmi um þetta sama, og sé ég því enga ástæðu til að þetta verði fellt burt. — Enn fremur vil ég benda á, að engum dettur í hug að halda því fram, að þótt maður sé með „pela“, eins og 1. þm. Eyf. komst að orði hér í deildinni, þá ætli maður endilega að selja hann. Ég er viss um það, að engir menn eru svo heimskir í dómarastéttinni, að þeir mundu halda, að maður ætlaði að selja einn „pela“, þótt hann fyndist hjá manni í bíl við rannsókn eða skoðun. Og ef 1. þm. Eyf. t.d. skrifaði mér bréf og bæði mig að koma með 4 flöskur af víni vestur í Barðastrandarsýslu, þá ætti ég ofur hægt með að sanna, að ég ætlaði ekki að selja þær, heldur hefði þessi hv. þm. beðíð mig um að færa sér þær. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þeir löggæzlumenn, sem tækju bílinn, sem ég væri í, mundu dæma mig saklausan. Ég er alveg sannfærður um það. Og þá mundi ég leggja fram bréfið frá þm. Eyf. (Dómsmrh.: En ef bréfið týnist?) Það ætti ekki að vera mikil hætta á því í svo stuttri ferð hjá algáðum mönnum. Annars er oftast hægt að sanna, að maður sé saklaus af því að selja, ef svo reynist vera. — En hvað er sönnun? Sönnun í þessu tilfelli og raunar öllum tilfellum er það, sem dómarinn tekur gilt. Það getur verið, að hún sé ekki „juridisk“, en mörg dæmi eru til þess, að dómari hafi tekið gilda sönnun, þótt síðar hafi komið í dagsljósið, að sönnunin“ var ekki á rökum reist.

Hv. 11. landsk. þm. spurði mig spurninga, sem ég svaraði við 2. umr., en þá var hann, að ég hygg, ekki viðstaddur. Vil ég því endurtaka það dæmi, sem ég tók þá. — Hann var í vandræðum, hvernig fara ætti að, ef grunur lægi á, að vín væri í einhverjum bíl. Ég tók það dæmi, að hann frétti t.d. sem lögreglustjóri í sinni sveit, að á einni samkomu hefði verið allsherjar vínflóð. Þegar samkoma væri næst á þessum stað, þá væru t.d. 3 bílar úr Rvík, sem hann leitaði í, og þá hitti hann þar bónda með 1 flösku, sem hann þekkti vel að öllu góðu. Þá mundi hann auðvitað strax segja, að ekki væri hér um rökstuðning að ræða fyrir því, að hann ætlaði að selja þessa flösku. En svo fyndi hann í öðrum bíl t.d. 50–60 flöskur. Þá væru líkur fyrir, að hann teldi, að um „rökstuddan grun“ væri að ræða, og mundi hann þá auðvitað taka málið til nánari athugunar.

Yfirleitt finnst mér þetta liggja nokkuð ljóst fyrir. Með þessum lögum er reynt að taka fyrir, að menn fari út á land með hálffullan bíl af víni til þess að selja það. Og einnig er verið að fyrirbyggja óleyfilega vínsölu í bílum hér í Rvík, og til þess að hægt sé að fyrirbyggja þetta, þá telja þeir menn, sem raunverulega sömdu frv., að nauðsynlegt sé að leggja sönnunarbyrðina á þann, sem grunaður er.

Ég tel, að frv. muni gera lítið gagn, ef ekki er í því þetta atriði, vegna þess að þá fara þeir menn, sem gera sér þetta að atvinnu, að reyna að finna leið til þess að telja aðra eigendur að víninu, og til að fyrirbyggja þetta vil ég láta þetta ákvæði vera í frv., og legg til, að síðustu 8 orðin í till. á þskj. 614 séu tekin upp í stað síðustu 8 orðanna, sem nú eru í 1. gr.