13.02.1951
Efri deild: 68. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (2841)

76. mál, áfengislög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Það er vitanlega alrangt hjá hv. 1. þm. N-M., að ég hafi sjálfur samið þau orð, sem hann gerði að sérstöku umtalsefni hér áðan, að menn ættu að sanna, að þeir ætluðu ekki að nota áfengið til ólöglegrar sölu, því að þótt þau séu í minni brtt., þá eru þau tekin upp úr frv. En þessi orð hafa mér frá upphafi fundizt hneykslanleg.

Hv. þm. sagði, að í Nd. hefðu verið nefnd 4 dæmi, þar sem sönnunarbyrðinni er skellt á þá, sem grunaðir eru. Ég var ekki við umr. í Nd., og getur það vel verið, að lögspekingar þar hafi fundið 4 dæmi um þetta. En ég hygg, að þetta sé um drýgð afbrot. En hér er um það að ræða, að menn eiga að sanna, að þeir ætli sér ekki að drýgja afbrot. Ég skýt því til lögfræðinga hér, t.d. hæstv. dómsmrh., hvort dæmi séu til þess í löggjöf, að menn eigi að sanna fyrir fram, að þeir ætli ekki að drýgja afbrot. Ég hygg, að ekki sé hægt að finna dæmi þess efnis.

Hv. 1. þm. N-M. nefndi dæmi um, að hann gæti verið með 4 flöskur, sem hann ætlaði að nota á löglegan hátt, en hæstv. dómsmrh. sýndi veilurnar í því dæmi. En svo varð hann að gera ráð fyrir ýmsu, sem hann reiknaði ekki með í sínu dæmi, sem var um það, að ég skrifaði honum bréf og bæði hann um að koma með 4 flöskur til mín. Ef ég hefði nú t.d. hringt til hans, hvernig ætlaði hann þá að sanna sakleysi sitt? Kannske með því að hafa símafólkið til vitnis, en það á bara ekki að hlusta á símtöl manna. Kannske með vitnisburði mínum? En ég efast nú um, að vitnisburður eins manns sé tekinn gildur.

Það getur verið, að þetta sé ekki stórvægilegt atriði, eins og mér virtist hæstv. dómsmrh. álíta, og gerði e.t.v. ekkert til, þótt slíkt ákvæði yrði sett í lög og mundi ekki valda neinu tjóni, vegna þess að ganga má út frá því, að yfirvöld landsins séu gædd heilbrigðri skynsemi. — En mér finnst bara ekki eiga að setja svona ákvæði í lög eins og þetta, þar sem alsaklausir menn eru kannske settír í fangelsi fyrir afbrot, sem álitið er, að þeir muni einhvern tíma drýgja.

Það er nú alltaf sagt, að notkun áfengis hafi miður góð áhrif á menn. En ég verð nú að segja það, að mér virðist hvorki hugsun um áfengi né tal um það hafa öllu heppilegri áhrif á menn, því að mér finnst frv. þetta, eins og það er samið, og allt tal í sambandi við það svo langt frá öllu viti og sanngirni. Mér finnst það minna helzt á aflátssöluna á dögum Lúthers, þegar erindrekar páfa seldu mönnum aflátsbréf fyrir ódrýgðar syndir. En þó finnst mér það vera skárra að selja fyrir fram fyrirgefningu heldur en refsa fyrir fram fyrir ódrýgð afbrot, sem álitið er, að menn ætli að drýgja, og mér finnst gerðir páfa ganga nær heilbrigðri skynsemi heldur en verk þeirra manna, sem sömdu þessa lagasmíð, eins og hún var í upphafi.

Hv. 1. þm. N-M. sagði, að tilgangur frv. væri að ná þeim bílstjórum, sem gerðu það að atvinnu sinni að selja áfengi. Vil ég sízt lasta þann tilgang, en frv. var einmitt borið þannig fram í fyrstu, að það átti aðeins að ná til atvinnubílstjóra, en ég held, að þótt það hafi kannske verið tilgangurinn í fyrstu, þá hafi ýmislegt blandazt inn í þetta mál, sem mér dettur þó ekki í hug að kenna hv. 1. þm. N-M. um, m.a. sú stefna, sem nú virðist svo mjög vera að ryðja sér til rúms, — og kom þetta t.d. fram við umr. í hv. Nd., — að sumir menn vilja gera sem flesta menn tortryggilega gagnvart landslögunum og almenningi. Það er að vísu ágætt að koma í veg fyrir leynivínsölu, en það má ekki gerast á þann hátt að láta fjölda saklausra manna eiga á hættu að verða stimplaðir sem lögbrjótar, og þá hættu hafa allir yfir höfði sér, sem flytja áfengi í bíl frá einum stað til annars, því að ég hygg, að það séu fáir, sem fara gangandi heim til sín með það, sem þeir kaupa í áfengisverzluninni.

Ég vil að lokum taka það fram, að hv. d. er búin að kveða upp sinn úrskurð í málinu, og er hæpið, að till. hv. 1. þm. N-M. komist að, en þótt hún verði borin undir atkv., vil ég vænta þess, að hv. d. standi við það, sem hún hefur áður samþ. í þessu máli. Ég hygg, að fyrri mgr. 1. gr. frv. sé nægilegt aðhald í þessum efnum, þar sem leyft er að ryðjast inn í hverja bifreið og rannsaka, hvort áfengi sé í henni.