23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (2856)

76. mál, áfengislög

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég var meðflm. frv. í Nd., og stendur mér ekki á sama, hvaða afgreiðslu málið fær úr Alþingi. Ég álít, að ef það verður afgr. með þeirri brtt., sem hér er á þskj. 713, þá geri þetta lagabreytingunni ekkert gagn. Byggi ég þetta álit mitt aðallega á því, hvernig þessum málum er nú komið.

Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn, en ég verð að segja, að málið er komið í slík vandræði, að það er nauðsyn að fá einhverja breyt. á því. Það er orðin hreinasta plága um allt land og kannske hvað mest í nágrenni Reykjavíkur, hve sala áfengis er mikil. Er það líklega mest hér í nágrenni Reykjavíkur, því að bílar gera sér ferðir á skemmtistaði, hlaðnir áfengi, og liggja þar meðan skemmtanir eru. Mér finnst ástandið svo alvarlegt, að það verði að kveða svo fast að orði í lögum sem hægt er. Er ekki of fast að orði kveðið, þó sagt sé, að sanna þurfi, að áfengið sé ekki ætlað til sölu, og segir í fyrri málsgr.: „enda liggi fyrir rökstuddur grunur um, að áfengið sé ætlað til ólöglegrar sölu.“ — Þetta mun vera mikil trygging fyrir, að menn verði ekki fyrir ágengni lögreglunnar, nema rökstuddur grunur liggi fyrir um, að þeir ætli að selja áfengið. En ef það verður sagt: „nema hann færi sterkar líkur fyrir því“, álít ég, að útilokað sé að fá mennina dæmda og það fáist enginn jákvæður árangur út úr þessu. Ég tel, að það sé engin nauðsyn fyrir menn að vera með birgðir áfengis í bifreiðunum. Það er alltaf grunsamlegt, að um ólöglega vínsölu sé að ræða, ef mikið áfengi finnst í bifreiðum. Þó menn séu með 2 eða 3 flöskur í bíl, er enginn grunaður um, að hann ætli að selja áfengið. Alít ég, að núverandi orðalag frv. mundi koma í veg fyrir, að menn séu með miklar vínbirgðir í bílum.

Ég beini þeirri áskorun til d., að hún sjái sér fært að samþ. frv. eins og það er komið frá Nd., þannig að sönnunarskyldan hvíli á mönnum.