23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (2859)

76. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir vel, að hæstv. viðskmrh. er viðstaddur, því að það hefur hann ekki verið fyrr. — Ég vil benda honum á, að frá því að frv. var flutt á þskj. 124 þar til nú, að það er komið á þskj. 710, eru orðnar á því gerbreytingar, því að ýmislegt var í lögum áður. Mér skilst, að þeir, sem hafa útbúið frv., hafi ekki athugað, hvað var í landslögum. Hér hefur ráðið meir kapp um að lagfæra en að athugað væri um málið. — Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh.: Hefur hann trú á því, að þetta frv. verði til að laga þennan ósóma? Ég er hræddur um, að sú von muni bregðast. — Er nauðsynlegt að gera á þessu stórar umbætur. Ég hef ekki trú á, að meinið verði læknað með þessum vitfirringslegu aðgerðum. — Við brotum á lögunum eru svo fjarstæð viðurlög, að það nær ekki nokkurri átt, og er málið komið út í endalausar ógöngur vegna bindindismannaofstækis, og vilja þeir menn málinu ekkert betur en við. — Leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðh.: Hver er raunverulega sökin við að selja áfengi óleyfilega? Er hún nokkuð meiri en að selja silkisokka óleyfilega? Hér er selt óleyfilega til að fá ágóðann. Er kannske talað um, að þetta sé meiri sök, þar sem verið sé að selja almenningi eiturvöru? Ef komið er inn á þá braut, hvers vegna er þá ríkið að selja þjóðinni þessa ólyfjan fyrir þúsundir milljóna? Er nokkuð annað þó einstaklingar selji en ríkið? Eða er þetta aðeins einokun, og þetta sé brot af því að menn taki gróðann af ríkinu? En nú er sannleikurinn sá, að þessir menn kaupa vöruna fullu verði af ríkinu. Hér er ekki um smygl að ræða. Ég held, að það væri eðlilegast að byrja á ríkinu. En sömu menn sem vilja ákveða næstum dauðarefsingu, liggur mér við að segja, við óleyfilegri sölu áfengis, vilja ekki láta ríkið hætta áfengissölu. — Ég held, að auðveldasta aðferðin til að stöðva leynivínsölu sé að hefja rannsókn á því á hverjum skemmtistað, hverjir hafa neytt áfengis og hvar þeir hafa fengið það. Það er engum vandkvæðum bundið að taka fólkið og vita, hvar það hefur fengið sitt vín. Áður voru menn pokaðir, en nú þykir það ekki rétt. Mætti þá ekki yfirheyra þá, í stað þess að poka, og vita, hvar þeir hafa fengið áfengið, og taka síðan þá, sem hafa selt vínið? Þá væri eitthvert réttarfar í málinu. — Ég get ekki fellt mig við að samþykkja frv. óbreytt.

Umferð á vegum er stöðvuð í stórum stíl af einkennisklæddum embættismönnum, til að gæta að, hvort bílstjórarnir hafi ökuskírteini sín meðferðis. Hafi þeir gleymt þeim heima í það eina sinn, eru þeir sektaðir, þó að þetta séu þaulvanir og kunnir bílstjórar. Þetta er ekki gert til að tryggja öryggi á vegum, nei, það er látið í það skína, að það sé gert til að afla ríkissjóði tekna á móti þeim kostnaði, sem það hefur í för með sér fyrir ríkissjóð að hafa þessa menn á vegunum, og þeir munu hafa fullan rétt á að haga sér svona, en það er áreiðanlegt, að það verður aldrei vinsælt og aldrei rétt, að menn séu stöðvaðir í hópum til að spyrja þá um ökuskírteini, og sekta þá síðan, ef þeir hafa af vangá gleymt því heima, þeir hafa e.t.v. haft fataskipti og gleymt því í hinum fötunum. Eins held ég, ef þetta frv. verður samþ. svona, að það veki meiri andúð en samúð, að það vinni meira tjón en gagn. Þess vegna vildi ég mjög mælast til þess, að hæstv. félmrh. vildi reyna að finna aðra og betri leið til að laga þessi mál en gert er í frv., ég hef ekki neina trú á, að það lagi neitt af því, sem það á að laga, það væri áreiðanlega betra að fara einhverja aðra leið. Fyrir 2 árum voru felldar í burt till., sem einar gætu lagað þessi mál í landinu. Ég tel, að það sé miklu betra, til þess að eitthvað sé hægt að gera hér til úrbóta, að taka þær till. aftur upp og reyna að bæta lögin á þeim grundvelli. Með slíkum refsiákvæðum, sem hér eru sett í lögin, næst ekki sá árangur, sem þeim er ætlað að ná, það skapar aðeins meiri andúð gegn lögunum, meira öngþveiti og verra ástand. Það þarf að fara allt aðrar leiðir.