23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (2861)

76. mál, áfengislög

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég veit, að hv. þm. Barð. er eindreginn bindindismaður og vill vinna fyrir þetta málefni á sinn hátt. Ég efast ekki um, að hann er að sínu leyti miklu meiri bindindismaður en ég, þó að ég sé þessum málum mjög fylgjandi, en þar ber á milli, að menn líta misjafnt á málið, og sýnist sitt hverjum um, hvernig því sé bezt fyrir komið. Ég hygg, að hann sé því fylgjandi, að hér sé sett vínbann, því að hann trúi á, að það sé bezta lausnin til að útrýma því ófremdarástandi, sem er í áfengismálunum. Aftur á móti tel ég, þó að ég sé fylgjandi bindindi og reglusemi, að vínbann sé engin lausn. Þetta sýnir í sjálfu sér ekki annað en fram hefur komið við afgreiðslu þessa frv., að flestir, ef ekki allir í báðum deildum, eru þess hvetjandi, að betri skipun komist á í þessum málum. Það vill bara hver fara sína leið. Það kann vel að vera, að hér sé verið að deila um keisarans skegg, eins og hæstv. dómsmrh. sagði, er hann taldi, að enginn munur yrði á framkvæmd, hvort orðalagið sem haft yrði. Ég er enginn lögfræðingur og tek þetta trúanlegt, en ég mundi þó halda, að aðstaða dómarans væri sterkari með því orðalagi, sem er nú í frv., en með því, sem brtt. leggur til að verði.

Hv. þm. Barð. spurði mig að því, hvort ég teldi, að þetta frv. bætti úr öllum ágöllum í sambandi við áfengismálin. Það er síður en svo, en ég hef sterka trú á, ef því verður skynsamlega og vel framfylgt af þeim mönnum, sem um það eiga að fjalla, lögreglumönnum og öðrum, sem þar koma til greina, að það muni bæta stórkostlega úr þessum þætti vandkvæðanna, sem eru á áfengismálunum, þ.e.a.s. leynivínsölu bifreiðarstjóra.

Hv. þm. Barð. sagði enn fremur, að það væri enginn munur á, hvort selt væri áfengi úr bifreiðum eða silkisokkar, ef hvort tveggja væri selt óleyfilega. Ég hygg, að ef hv. þm. athugar þetta, þá sjái hann þar nokkurn mun á, því að ekki gerir einn bílstjóri, sem selur nokkrum stúlkum silkisokka, alla menn, sem á skemmtuninni eru, svo óða, að það verði að setja þá í poka. Það er því verulegur munur á, hvaða afleiðingar hver sala hefur. Ég er auðvitað ekki að mæla neinni óleyfilegri sölu bót, en þessi sala, sem er hér verið að reyna að finna einhverja bót á, hefur miklu alvarlegri afleiðingar en nokkur önnur leynisala í landinu, en ég skal ekki fara inn á þá sálma. Það væri hægt að draga svo mörg dæmi alvarlegs eðlis fram, ef ætti að fara að ræða þessi mál eins og þau ganga fyrir sig, þegar svo langt er komið, að þessir bílstjórar taka miklu fleira en peninga til

að koma út sínu áfengi, þar kemur margt fleira til, sem gerir þetta að miklu alvarlegri hlut en menn gera sér yfirleitt grein fyrir. — Ég tel svo ekki ástæðu til að lengja þessar umræður, menn hafa þar sínar skoðanir á hvernig þessu sé bezt fyrir komið. Mín skoðun hefur ekki breytzt þrátt fyrir greinargerð þeirra þm., sem till. flytja, og það kann að vera, að mín orð hafi ekki heldur nein. áhrif á þeirra afstöðu.