23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (2863)

76. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Vegna þess, sem menntmrh. sagði, vil ég leiðrétta tvennt. Í fyrsta lagi sleit hann úr samhengi ummæli mín um, að það væri ekki verra að selja áfengi en silkisokka. Það, sem ég sagði, var, að ekki væri meiri sök að selja áfengi en silkisokka, nema því aðeins, að það væri verið að selja ólyfjan. Þeir menn, sem telja það meiri sök, verða að viðurkenna, að glæpurinn liggi aðallega í því að selja þessa vöru, þá vöru, sem ríkissjóður sjálfur selur fólkinu. Þetta má ekki slíta úr samhengi.

Ég sé engan mun á því yfirleitt, hvort 20 menn taka sig saman á skemmtun uppi í sveit, leigja sér bíl, sem kostar 200–300 kr., og fara á honum til að kaupa sér áfengi, eða hvort bílstjórinn sjálfur kaupir sér áfengi og selur þeim það. Mismunurinn er sá, að bílstjórinn hefur framið óleyfilegan verknað, annar mismunur er enginn. Hitt er svo kjarni málsins, að hér er verið að selja vöru, sem spillir samkomunni og gerir viðkomandi menn alveg sturlaða, en það er það, sem ríkið sjálft gerir.

Svo segir hæstv. ráðh., að ég vilji bann, en það er alls ekki það, sem ég vil, ég vil fara allt aðrar leiðir, það mundi hæstv. ráðh. vita, ef hann hefði kynnt sér, hvað ég vil í þessu máli. Ég hef ekki trú á þessum stóradómi, ég hef séð, hvernig höftin hafa verkað um 30 ára skeið. Ég var einu sinni mjög fylgjandi banni, en ég er búinn að sjá, hvernig bann verkar, og ég er búinn að sjá, að það er alls ekki lausnin. Ég tel, að langheppilegasta lausnin sé frelsi, meira frelsi en nú, minni dómar, vægari dómar, minni heift, minni misskilningur á þessum málum. Ég held sem sé, að lausnina sé að finna í því að vera dálítið mannlegri í þessum málum en þeir eru, sem koma með svona frv. Þetta vildi ég láta koma fram vegna þess, sem hæstv. ráðh. sagði.

Ég get ekki fallizt á mótmæli hv. 1. þm. N-M. við því, að það sé ekkert öryggi í að sekta menn, sem af vangá skilja ökuskírteinið sitt eftir heima, en keyrt hafa bifreið í mörg ár sumir hverjir. Það er ekkert öryggi í því. Dómarinn leyfir honum að halda áfram samt sem áður. Ef þetta er til öryggis, hvers vegna er hann þá ekki stöðvaður og bíllinn innsiglaður og málið rekið áfram? Nei, málin eru ekki rekin svona til að auka öryggi, heldur til að afla ríkissjóði tekna upp í þann kostnað, sem er við eftirlitið, og það er smán, jafnvel þó að heimild sé til þess í lögum. Það vekur almenna óánægju, að bílar aka fram og aftur um vegina með dómara til að stöðva bíla, setja þar rétt yfir þeim, sekta bílstjórann og leyfa honum síðan að halda áfram eftir sem áður, e.t.v. til þess að stöðva hann aftur eftir nokkra km eða 1 dag og hefja sama leikinn. Þeir hafa rétt til þess, en það leiðir ekki til neins góðs.