26.02.1951
Efri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (2878)

76. mál, áfengislög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er nú búið að ræða svo þetta mál efnislega bæði við 2. og 3. umr. og svo nú, að ég sé ekki ástæðu til að fara að bæta þar við. En mér varð á að detta í hug við ræðu hv. þm. Barð., að það sé eitthvað líkt með hann eins og stendur í einni góðri bók, að hvern sem hann elskar, þann agar hann; og er ég þá ekki að segja, að hann beri ást í brjósti, heldur náungans kærleika til hv. 8. þm. Reykv. En nú eru komnar rækilegar upplýsingar í málinu, og getur ekki talizt ástæða til að draga það lengur. Menn voru við hina fyrri afgreiðslu nokkuð samhuga um, eftir að búið var að rökræða það, að hafa það orðalag, sem brtt. þremenninganna gerir ráð fyrir. Og ég trúi því ekki, ef alvara er á bak við hjá fylgjendum málsins, að þeir fari að stöðva það, þó þessi breyting verði gerð. En hitt vildi ég segja, að þessi d. var yfirleitt á þeirri skoðun, að þetta væri réttasta úrlausnin, og ég veit ekki, hvaðan sú hugsun er eiginlega komin, að hv. Nd. eigi hér endilega að segja fyrir verkum.

Ég vil svo enn mótmæla því, að það geti komið til mála, að frv. sé í hættu, þótt það komi fyrir Sþ.. og ég tel bezt, að þar verði úr málinu skorið. Ég veit, að þó að hv. þm. Barð. hafi komið fram með þessa brtt., þá er óþarfi að væna hann um, að hann sé ekki einlægur í því að vilja koma þessu máli í betra horf en verið hefur.