06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (2887)

76. mál, áfengislög

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta mál. Það er ekki oft, sem ég stend upp til að gera grein fyrir atkv. mínu, en í þetta sinn ætla ég að gera það. Meðferð þessa máls er glögg spegilmynd af því, hvernig Alþingi hefur tekizt að fara með áfengismálin. Nú á síðustu dögum þingsins er þvælt um brtt., sem borin var fram fyrst á þinginu. Svo óhöndulega hefur tekizt með afgreiðslu málsins, að hæstv. dómsmrh., sem er viðurkenndur hæfileikamaður og skarpur lögfræðingur, ætlar að ná sættum með því að bera fram till., sem stangast á við heilbrigða hugsun. Lengra er ekki hægt að ganga í þessu. Ég var ákveðinn í því að greiða frv. atkv. eins og það kom frá Ed. Ég vil taka það fram, að hv. þm. Borgf. hefur ekki umboð til að tala fyrir munn Nd., a.m.k. hef ég ekki veitt honum umboð fyrir mig. Ég hygg, að það séu fleiri, sem líta svipað á málið. Ef brtt. hæstv. dómsmrh. verður samþ., mun ég ganga í lið með hv. þm. Barð. — Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um málið.