14.11.1950
Efri deild: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2978)

60. mál, kaup á ítökum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það skiptir út af fyrir sig ekki miklu, hvort ég hef verið sammála slíkum ákvæðum og hér um ræðir einhvern tíma áður. Ég tel það enga fullnægjandi sönnun fyrir ágæti þeirra, þótt mér hafi missýnzt, vegna þess að „svo lengi lærir sem lifir“, og er ekki nema sjálfsagt, ef menn sjá, að þeim hafi áður missýnzt, að þeir leiðrétti sig þá og taki það, sem betur má horfa. En til viðbótar vil ég nú benda á, að l. varðandi þau ákvæði, sem hv. 1. þm. N-M. sagði, að ég hefði tekið þátt í að setja og greitt atkv. með, varðandi skógarítök, voru sett 11. maí 1940, eða tveimur árum áður en ég kom á Alþing, svo að ég held nú, að hið góða minni hv. þm. hafi brugðizt honum í þessu tilfelli, og er ég ekki að ásaka hann fyrir það, því að það getur alla hent, en þá er að taka leiðréttingunni, þegar hún kemur. En aðalatriðið er það, að ég tel, að þessi ákvæði séu í raun og veru óheppileg, hver sem hefur sett þau. Hv. þm. vildi telja, að þessi ákvæði væru fyrnt, en ég er aftur á móti þeirrar skoðunar, að varla geti átt sér stað um réttindi sem þessi, að þau fyrnist eða aðili geti glatað rétti sínum við það eitt að taka ekki eftir auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, og finnst það líka með öllu ástæðulaust.

Í sambandi við matið get ég fallizt á það að vissu leyti, að það er kannske of kostnaðarsamt að skjóta þessu ætið til hæstaréttar eða heimila það, en vil þó taka fram, að í því felst raunverulega ekkert vantraust á undirmatsmönnunum, þó að menn vilji, að yfirmat geti átt sér stað. Þetta er álitamál og kallað mat vegna þess, að það er matsatriði, — betur sjá augu en auga. Og það er einnig svo, að þó að menn vilji vera hlutlausir, getur of mikill kunnugleiki á staðháttum og fleira villt mönnum sýn, þannig að þeir séu ekki mjög heppilegir til að ákveða um þetta. Undir öllum kringumstæðum á sá, sem telur mat halla á sig, miklu óhægara með að bera sig með réttu undan því að hafa orðið fyrir rangsleitni, ef hann á ekki kost á því að skjóta matinu til yfirmats. Það er meira réttaröryggi í slíku. — Ég þakka frsm. fyrir það, að hann vill athuga þetta milli umr., og læt mér það alveg nægja.