08.12.1950
Neðri deild: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (3145)

26. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég fór fram á, að umr. um þetta mál væri frestað, af því að ég var ekki búinn að athuga það nægilega áður. Ég hef nú borið fram brtt. á þskj. 293. Er þar aðeins um orðalagsbreytingar að ræða og þær einungis gerðar til þess að færa frv. til betra máls. Þarf ekki fleiri orð að hafa um það. En till. á þskj. 292 eru þannig til komnar, að einn af fulltrúunum á þingi Alþýðusambands Íslands óskaði eftir því, að þær kæmu hér fram. Þær voru bornar fram á Alþýðusambandsþinginu og samþykkt að vísa þeim til milliþn. til þess að tefja ekki framgang þessa máls hér á Alþingi. Ég tók hins vegar till. til athugunar; og eftir þá athugun bar ég fram þær brtt., sem eru á þskj. 292.

Ég vil nú leyfa mér að gera grein fyrir þessum brtt. í fáum orðum. Um 1. brtt. er ekkert sérstakt að segja annað en það, sem till. segir sjálf, þ. e. hver beri ábyrgð á gæzlu vélar gagnvart öryggiseftirlitinu, þ. e. a. s. á verkstæðum skal jafnan vera maður, sem beri ábyrgð á gæzlu vélar. — 2. brtt., við 5. gr., getur að vissu leyti orkað tvímælis um það, hvernig ákveða skuli í l. um gæzlu þessara véla, en í l. um eftirlit með verksmiðjum og vélum frá 1929 er svo kveðið á, að þeir einir skuli hafa rétt til að stjórna slíkum vélum, er hafi vélstjórapróf. Ég taldi því eðlilegt, að um þetta efni væru sett ákvæði hér. — 3. brtt. er við 6. gr. Þar er verkamönnunum með orðunum „og skulu þeir lagfæra“ .... o. s. frv. lögð sú skylda á herðar, að verði þeir varir við, að vél fari úr lagi, þá beri þeim að bæta úr því. En hér er lagt til, að þá beri þeim að tilkynna það verkstjóra sinum. Ég taldi, að þetta ákvæði gæti haft nokkra hættu í för með sér og því brtt. til meira öryggis en ella. B-liðurinn er mjög lítilfjörlegur, sagt „verði verkamaður fyrir slysi við vinnu sína, eða fái atvinnusjúkdóm, ber honum eða trúnaðarmanni að tilkynna“ o. s. frv. Er það sett vegna þess, að svo getur staðið á, að verði verkamaður fyrir slysi, getur verið, að hann sé til þess ófær að tilkynna það yfirmanni sínum. — 4. brtt. er við 11. gr., og er hún nokkuð efnismikil. En ég geri ráð fyrir því, að sleppa megi við óþarfa skriffinnsku með því að fella það niður, að hver sá, sem ætlar að láta byggja verkstæði eða verksmiðju, skuli láta öryggismálastjóra í té upplýsingar um fyrirkomulag hennar, heldur skuli sá, sem tekur að sér byggingu slíkrar verksmiðju, bera ábyrgð á því, að hún sé byggð í samræmi við gildandi lög og reglur og óheimilt sé að hefja rekstur, fyrr en eftirlitsmaður hafi gefið vottorð um, að allur útbúnaður sé í lagi. — 5. brtt. er viðbót við öryggisákvæði varðandi lýsingu: „Vinni verkamaður í eimkötlum, lýsis- eða olíugeymum, skal þess jafnan gætt, að rafljósaútbúnaður geti hvorki myndað neista né valdið rafmagnshöggi“. — 6. brtt. er á þá lund, að 5. málsgr. 19. gr. falli niður. Þar stendur svo: „Meðan vél er í gangi, má eigi leggja á hana reim, snúru eða annað þess háttar, hreinsa hana, smyrja eða gera annað svipað við hana, nema það sé óumflýjanlega nauðsynlegt.“ Nú sé ég ekki ástæðu til að leggja bann við, að vél sé smurð, meðan hún er í gangi, slíkt er algengt og hefur enga aukna hættu í för með sér, og hitt er ekki utan við það, sem sérhverjum vélstjóra ber að gæta. — 7. brtt. er við 32. gr. og miðast við bílstjóra og aðra þá, sem að staðaldri flytja fólk, skuli þeir að jafnaði ekki hafa lengri vinnutíma en 12 klukkustundir. Það getur nú verið svo, að það sé óumflýjanlegt, að þeir hafi lengri vinnutíma, og er því þetta „að jafnaði“ sett inn.

Ég tel svo ekki þörf á að skýra með fleiri orðum þessar brtt., en vonast til, að hv. þm. geti fallizt á þær.