19.10.1950
Efri deild: 5. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Haraldur Guðmundsson:

Ég vil leyfa mér að taka fram í sambandi við þetta frv. nú þegar við þessa umr., að ég tel, að það hafi verið rétt af hæstv. ríkisstj. að láta þá rannsókn fram fara, sem gerð hefur verið á afleiðingum óþurrkanna á þeim svæðum, sem þar urðu fyrir þyngstum búsifjum. Ég álít, að það hafi verið sjálfsagt að vinda bráðan bug að því að athuga, hvernig ástandið væri. Ég skal enn fremur játa það, að þótt nokkuð óvenjulegt sé að gefa út bráðabirgðalög svo skömmum tíma áður en þing kemur saman, þá virðist mér þær ástæður hafa verið fyrir hendi, sem réttlættu það, vegna þess hvað sláturtíð var nærri, þegar bráðabirgðalögin voru gefin út, og hlaut að vera að mestu afstaðin, þegar þing kæmi saman.

Hæstv. ráðh. gat þess, að ríkisstj. hefði hlotið nokkurt ámæli fyrir að velja þm. þess kjördæmis, sem harðast mun hafa orðið úti, og enn fremur frambjóðanda úr þessu kjördæmi til að athuga heyfeng manna á óþurrkasvæðinu. Ég veit ekki, hversu mikið ámæli hæstv. stj. kann að hafa hlotið af vali þessara manna, en báðir eru þeir ágætisog sómamenn. En ég held þó, að vel hefði mátt takast að finna vel hæfa menn til þessarar athugunar, sem minna voru tengdir t.d. íbúum Norður-Múlasýslu en þessir tveir hv. nefndarmenn. Ég hefði talið það áferðarfallegra, að hvorugum þessara manna hefði verið falin þessi athugun, sérstaklega með tilliti til Norður-Múlasýslu, sem harðast varð úti. Þetta er engan veginn persónulegt ámæli í þeirra garð. Ég veit, að þeir eru valinkunnir sómamenn, eins og allir vita. En þeim er nauðsynlegt að halda vinfengi við kjósendur sína, og einhvern tíma kemur að kosningum, og þá er þeim nauðsynlegt að hafa ekki spillt vinfengi þeirra. Þetta er sagt í fullri vinsemd, en engan veginn til að draga samvizkusemi þeirra í efa.

Hæstv. ráðh. gat þess í ræðu sinni áðan, að ætlunin væri, að af þessari upphæð, 41/2 milljón, sem á að veita samkv. 1. gr. frv., ætti að veita 2/3 að láni, en 1/3 styrk. Ég vil spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvers vegna þetta er ekki tekið inn í 1. gr. beinlínis, hvað skuli vera lán og hvað óafturkræft framlag, en eins og gr. er, þá á að veita lán og framlag samkvæmt reglum, sem rn. setur. Einnig leyfi ég mér í sambandi við 2. gr. að spyrja ráðh., með hverjum hætti úthlutunin er hugsuð, hvort hún er eingöngu miðuð við það, sem á skortir venjulegan heyafla, við fóðurbrestinn eða við efnahag bænda.