19.10.1950
Efri deild: 5. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er nú ánægjulegt að heyra, að gert er ráð fyrir, að flestir séu sammála um, að þessi rannsókn væri gerð og gefin út bráðabirgðalög. En það hefur ekki við rök að styðjast, og andmæli ég því að gefnu tilefni, sem sagt hefur verið um ríkisstj. í einu dagblaðanna hér í bæ í þessu sambandi.

Þeir, sem finna að því, að þessir menn hafi rannsakað þetta, hefðu gott af að hugleiða það, hvort þeir menn, sem rannsökuðu kreppulánin til sjávarútvegsins, hafi ekki verið úr sjávarútvegskjördæmum. (HG: Ég fullyrði, að aldrei hafi verið skipuð slík nefnd, og bið ég ráðh. að nefna dæmi.) Ég er fullviss um, að þessir menn hafa unnið samvizkusamlega, og eðlilegast er, að þeir, sem málunum eru kunnugastir, vinni að þeim. Viðvíkjandi skiptingu í styrki og lán, þá hef ég ekkert á móti því, að það sé tekið til athugunar í þeirri nefnd, sem um það fjallar, en viðvíkjandi hinu aftur, hvort taka á tillit til efnahags, er því þannig varið, að þessum lánum er skipt á hreppana, og hreppsn. skipta þeim svo aftur á einstaklingana. Finnst ríkisstj. þetta vera eðlilegasta lausnin.

Það er möguleiki á því að taka tillit til efnahagsins, þótt þetta sé fyrst og fremst hjálp til allra vegna óvenjulegra óþurrka. Og tjónið er þannig, að við, sem búum í þessum landshlutum, Vestur- og Suðurlandi, gerum okkur ekki í hugarlund, fyrr en við höfum lesið það, hvernig veðráttan hefur verið, og hver ósköp fólkið hefur átt við að búa.

Finnst mér svo ekki ástæða til að fjölyrða um málið að sinni.