19.10.1950
Efri deild: 5. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Er ég sá síðari hluta ágústmánaðar, að engin taða og ekkert úthey var komið inn á einum einasta bæ frá miðri N.-Þingeyjarsýslu og að Vík í Mýrdal, hafði ég áhyggjur af, að bændum yrði ókleift að halda stofni sínum. Þess vegna skrifaði ég ríkisstj. um málið 25. ágúst. Að fara þá að skrifa bjargráðastjórn og spyrja hana, var þýðingarlaust. Ég benti á, að hætta væri á, að illa yrði sett á, ef ekkert yrði gert til að tryggja góðan ásetning; fóðurbætir yrði því að verða til nægur, og jafnframt mundi þó verða að fækka, en það þyrfti að verða sem minnst, þar sem búin væru víða svo lítil, að mönnum veitti fullerfitt að lifa af þeim nú, eins og búskaparhættir væru.

Frá 25. ágúst breyttist ástandið verulega. Ekkert úthey var þá komið inn, en taðan í S.-Þingeyjarsýslu og parti af N.-Þingeyiarsýslu og S.-Múlasýslu. En úr því að kom fram undir mánaðamótin ágúst-september kom þurrkur í V.- og A.-Skaftafellssýslum og heyið náðist, og svæði, sem ég hélt að yrði verst, varð sæmilegt, en þá var mikið úti af heyi í S.- og N.-Þingeyjarsýslum og S.- og N.-Múlasýslum. Ég held, að hv. 4. þm. Reykv. (HG) þurfi ekki að hafa áhyggjur af því, að við öflum okkur vinsælda af þessu máli, því að til þess að bæta upp fóðurvöntunina þarf 18–19 millj., svo að ég er alveg viss um, að við fáum frekar vanþakklæti en þakklæti, og hv. 4. þm. Reykv. fengi áreiðanlega að heyra það, ef hann kemur á fundi með okkur í sumar. Eins og hæstv. landbrh. hefur tekið fram, á að skipta þessu fé milli sveitarfélaganna, og á þeim svæðum, þar sem bændur fá ekki að slátra nema einn dag á hausti, var þeim sérstaklega nauðsynlegt að fá að vita í tíma, hverrar aðstoðar þeir máttu vænta, áður en þeir fóru að slátra. Ég veit, að þessi aðstoð verður til þess, að talsvert meira verður sett á og að búpeningnum fækkar ekki eins og annars hefði orðið; enn fremur að fólkið í þorpum og kaupstöðum á þessu svæði lendir ekki í algerum mjólkurskorti, sem ella hefði orðið, ef ekki hefði verið horfið að þessu ráði. Hins vegar veit ég það líka, að þrátt fyrir þessa aðstoð munu talsvert margir bændur neyðast til þess að fækka bústofninum og koma til með að þurfa að berjast mjög í bökkum til þess að hafa nóg handa sér og sínum af þeim skepnum, sem þeir halda eftir. Þá vil ég taka það fram, að hér er ekki um það að ræða út af fyrir sig, að vinna bænda á þessum svæðum hefur í sumar gefið þeim litið í aðra hönd og að lítið hefur heyjazt, heldur hitt, að afleiðingin hefði orðið, ef engin aðstoð hefði komið til, að stofninn, sem þeir eiga að lifa af — ekki aðeins í ár, heldur í framtíðinni, — hefði horfið og orðið að engu. Þetta er ekkert sambærilegt við það, þótt maður hafi lítið upp úr sér á sjónum á vertíð. Í því tilfelli gengur það út yfir líðandi ár og sjómaðurinn getur bætt sér tjónið upp á næstu vertíð. Hér er hins vegar um það að ræða að afla fóðurs handa skepnum, sem bóndinn á lífsafkomu sína undir á næstu árum, og þetta gerir það að verkum, að þessi aðstoð er að mínum dómi miklu réttlátari en annars konar aðstoð, sem ríkið hefur áður veitt og ég hef oft getað deilt um. Ég geri ráð fyrir því, að n. ræði þetta mál nánar, en vil taka fram, að hrepparnir hafa enn ekki fengið neitt af þessu fé, en búið er að tilkynna þeim, á hverju þeir eiga von, og þeir hafa gert sínar ráðstafanir innbyrðis um skiptingu á fénu milli hinna einstöku bænda, og eftir því hafa þeir svo getað gert sínar áætlanir um fóðurbæti eða hey handa því búfé, sem þeir setja á í vetur, og þar sem ég hef á hendi eftirlit með fóðurbirgðum og ásetningu í landinu, hef ég tvívegis lagt mjög ríka áherzlu á það við bændur að gæta þess vel að setja ekki óvarlega á og fækka heldur búfénu, ef hætta er á, að aðstoðin hrökkvi ekki.

Í sambandi við það, sem hv. 4. þm. Reykv. var að tala um, get ég upplýst, að nokkrir hreppar, sem búnir eru að taka sínar ákvarðanir um skiptingu á fénu, hafa tekið aðstæður manna mjög til greina. Mér er kunnugt um, að bændur, sem hafa heyjað mjög lítið og þess vegna þurfa að fækka búfé verulega, hafa enga aðstoð fengið, af því að hreppsn. vissu, að fjárhagur þeirra var þannig, að þeir gátu sjálfir keypt fóðurbæti eða hey. Ég veit, að hreppsn. hafa sums staðar gætt þessa sjónarmiðs, og geri ráð fyrir, að svo sé alls staðar. Við Árni Eylands höfum reynt að skipta þessu fé milli hreppanna, eftir því sem okkur þótti réttlátast, þannig að við veitum þeim sveitarfélögum aðeins lán, þar sem við vissum að bændur eru sæmilega vel stæðir, en létum þau sveitarfélög fá tiltölulega meiri fjárframlög og minni lán, þar sem menn eru illa stæðir og berjast í bökkum. Við höfum hins vegar ekki getað komið inn á hvert heimili á þessum svæðum, en höfum talað við hvern einasta oddvita í Austur-Skaftafells-, Múla- og Þingeyjarsýslum nema tvo, sem gátu ekki komið á fund, en við þá töluðum við í síma. Enn fremur áttum víð tal við sýslumenn, kaupmenn, kaupfélagsstjóra og aðra oddamenn, sem ráð hafa í bæjarstjórnum, og loks höfum við haft samráð við búnaðarsamböndin á þessum svæðum. Við höfum því reynt að fá eins glöggar upplýsingar um þessi mál og kostur var á óg höfum keppt að því að leysa þetta starf af hendi eins samvizkusamlega og við gátum, og ég er viss um það, að það, sem ég fæ fyrir þetta hjá mínum kjósendum og Árni hjá sínum, verða ekki þakkir, heldur vanþakklæti fyrir að vera ekki nógu aðgangsfrekir við ríkisstj. um ríflegri aðstoð þeim til handa, enda er þeim bændum vissulega vorkunn, sem eru búnir að stríða við að heyja handa skepnunum, en standa svo uppi nær fóðurlausir og fá svo ekki aðstoð frá því opinbera nema kannske handa helmingnum.