02.11.1950
Efri deild: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ekki tekið mikinn þátt í þessum umr. og varð að hverfa af fundi samkvæmt ósk hæstv. sjútvmrh. til að vinna að máli, sem er ef til vill ekki minna um vert en þetta mál. Það var rétt hjá hæstv. landbrh., að enginn ágreiningur hefur orðið um það í n. að veita þessa hjálp og heldur ekki um fjárupphæðina. Það hefur ekki legið nein skýrsla fyrir fjhn. um það, hve þörfin sé mikil. Hæstv. ráðh. sagði líka, að enginn ágreiningur hefði orðið um úthlutun fjárins, en það er mér ekki kunnugt um, enda liggur slíkt ekki innan valdsviðs nefndarinnar. Ég hef áður bent á, að meðferð hæstv. ríkisstj. á þessu máli er ekki venjuleg meðferð, og var það fullkominn óþarfi af henni að sveigja málið inn á þá leiðu braut, sem hún gerði í sumar. Það er rangt, að ekki sé takmark fyrir útlánum úr bjargráðasjóði, og eru slík ákvæði í 12. gr. laganna, en þau eru aðeins um séreignir sýslu- og bæjarfélaga. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að á síðasta þingi kom fram krafa í þál.-formi frá bændum, sem orðið höfðu hart úti vegna óþurrka sumarið áður, um aðstoð. Málinu var vísað til stjórnar bjargráðasjóðs, og mun mönnum þessum hafa verið lánað fé til að mæta þeim kröfum, sem heilbrigðar og sanngjarnar máttu teljast. Þessi lausn mun hafa verið sú heppilegasta fyrir alla aðila, og þar var málinu beint inn á rétta braut. Ég sá kröfurnar úr einu byggðarlaginu og sá, hve eðlilegt var að mæta ekki kröfunum eins og þær voru þar settar fram, en þeim var mætt með meira réttlæti en ef um málið hefði verið fjallað hér á Alþ. Þetta er ein af ástæðunum til að ég vil halda málinu innan takmarka bjargráðasjóðs, og því gerði ég ágreining í n. Hv. þm. sagði, að ég væri að gera gaman að þessu máli og að hæstv. ráðh. vildi láta samþ. mál þetta óbreytt, því að hér væri aðeins um staðfestingu á bráðabirgðalögum að ræða, en ég tel stefnu hans í þessu máli ekki heppilega, og ég er hissa á honum að vilja ekki beina málinu í þann farveg, sem ég vil beina því í, og það er af þeim ástæðum, að ég hef hreyft andmælum gegn frv., en ekki af illvilja við málið. Ég vil láta taka fullt tillit til þess, sem hæstv. ráðh. hefur gert í þessu máli, en aðeins beina því í réttan farveg. Hv. frsm. sagðist hafa beint ósk um fjárframlag vegna óþurrkanna til bjargráðasjóðs fyrir hönd Þingeyinga og fengið það svar, að ekki væri til nægilegt fjármagn. Ég hef heldur aldrei gert ágreining út af því, að fengið væri 41/2 millj. kr. lán í þessu skyni.

Ég vil svo í sambandi við annað sem hefur komið fram í umr. hv. þm., benda á það, að ekki er hægt að blanda atvinnuleysinu á Vestfjörðum saman við óþurrka þá, sem hér um ræðir. Það eru önnur öfl, sem orsaka ástandið á Vestfjörðum, og skal ég ræða það nánar síðar, en þar á hv. 6. landsk. og flokkur hans og stefna sök á. Og atvinnumál Ísafjarðar væru önnur, ef þeirrar stefnu hefði minna gætt.