06.11.1950
Efri deild: 15. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég efast ekki um, að það er mjög mikil nauðsyn á aðstoð á þeim stöðum, sem nefndir eru í brtt. á þskj. 118, og kannske ekki minni en á þeim stöðum, sem frv. gerir ráð fyrir að verði hjálpar aðnjótandi. Hins vegar býst ég við, að það kunni að vera fleiri staðir, sem ekki þurfi síður á aðstoð að halda, og er það vafalaust rétt hjá hv. frsm. En þrátt fyrir það tel ég ekki rétt að vísa málinu frá, því að hér er um brýna nauðsyn að ræða, og mun ég því greiða atkv. með till. í trausti þess, að málið verði síðar athugað betur, svo að það komi fram, hvaða aðrir staðir komi til greina með sams konar aðstoð og gert er ráð fyrir í till. á þskj. 118.