20.02.1951
Neðri deild: 72. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (3582)

165. mál, menntaskólar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Við hv. 1. þm. Rang. höfum flutt brtt. við þetta frv. á þskj. 692. Efni brtt. er það, að heimild sú, sem ríkisstj. er veitt til vorsins 1953 til að láta tveggja ára óskipta miðskóladeild starfa við menntaskólann á Akureyri, ef húsrúm og aðrar ástæður leyfa, verði einnig látin ná til menntaskólans í Reykjavík. Fyrst hér er um heimild eina að ræða, virðist okkur einsætt, að hún nái til skólanna beggja, en ekki sé gert upp á milli þeirra á þann veg, að heimildin nái aðeins til annars þeirra. Þessir skólar hafa verið hliðstæðir, og engin skynsamleg rök mæla með því, að heimildin verði takmörkuð við annan þeirra. Það er að vísu rétt, að húsnæðisástæður eru talsvert aðrar hér í Reykjavík en á Akureyri, og má ætla, að ríkisstj. meti þær aðstæður og miði ráðstafanir sínar við það. Þó munu tvímælalaust vera skilyrði fyrir hendi til þess, ef brýnar ástæður þykja til, að starfrækja einnig hér í Reykjavík tveggja ára miðskóladeild, og það er eðlilegt að láta ríkisstj. hafa heimild til þess, ef henni og skólastjórninni í Reykjavík þykir ástæða til. Það virðist engin ástæða til þess að koma í veg fyrir, að stjórn Reykjavíkurskólans ræði þetta mál við ríkisstj., en um unnað er ekki að ræða, þó að brtt. okkar hv. 1. þm. Rang. verði samþ. Þessum menntastofnunum verður þá gert jafnhátt undir höfði, en það er óviðkunnanlegt að setja hina eldri þeirra, eina elztu og virðulegustu menntastofnun landsins, svo mjög á óæðri bekk, að forráðamönnum hennar sé ekki heimilað að ræða við menntmrh. og ríkisstj. um það, hvort ekki væri tiltækilegt að starfrækja þar einnig tveggja ára óskipta miðskóladeild. Ég skal taka það fram, að ég hef átt tal um þetta við fræðslumálastjóra, og hann hefur lýst sig fylgjandi því, að slík brtt. sem þessi verði samþykkt, úr því að málið á annað borð er komið yfir í heimildarform.