17.01.1951
Efri deild: 51. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í C-deild Alþingistíðinda. (3643)

30. mál, iðnaðarmálastjóri

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég harma, að hv. frsm. minni hl. n. er ekki viðlátinn til að tala fyrir máli hans, þar sem hann er sjúkur, en hann er kunnugur þessu máli allt frá byrjun. Ég er aftur á móti aðeins byrjandi í kunnugleika á þessu máli, og framsaga mín verður því að sjálfsögðu ekki eins ýtarleg og hans hefði orðið, ef hann hefði getað verið hér viðstaddur.

Hv. frsm. meiri hl. rakti hér sögu þessa máls, og væri kannske óþarfi að rekja hana nánar, nema að svo miklu leyti sem hann dregur af henni aðrar ályktanir en aðrir. — Í fyrra var málið sent, eins og fram kom í ræðu hans, til fjárhagsráðs og seint á þinginu skipuð milliþn. til athugunar frv. Sú n. skilaði ekki áliti til ríkisstj., þó undarlegt sé, heldur til þingn., og fór málið þannig um tíma fram hjá ríkisstj. — Ég veit ekki, hvað menn telja upp úr því leggjandi, að þrír ráðh. hafa fjallað um þetta mál, þ. e. a. s. hv. þm. Hafnf., sem fyrstur hafði það til meðferðar sem iðnmrh., þá hv. þm. Vestm., sem gegndi því embætti er umrædd n. var skipuð, og loks sá flokksbróðir hv. flm., er nú fer með þessi mál. Mér finnst þessi staðreynd athugaverð í sambandi við þetta mál. Ráðherrar eru menn eins og aðrir og þurfa tíma til að kynna sér stórmál frá grunni. Og hvað núv. iðnmrh. snertir, þá hefur hann alls ekki haft tíma til að kynna sér málið til fulls, enda munu af því sprottin þau skilaboð, sem n. voru flutt frá hæstv. ráðh., að hann teldi ekki heppilegt að miða við, að málið næði fram að ganga á þessu þingi. Hann vildi, að tími mætti vinnast til að setja málið á öruggan grundvöll. Og það verður ekki hjá því komizt, að það mál hljóti að eiga nokkuð örðugt uppdráttar, sem á að berja í gegnum þingið andstætt vilja viðkomandi ráðh., enda þótt hann sé því annars velviljaður. Og fyrir mig persónulega hafði það mikla þýðingu um afstöðu til málsins, að hér var um að ræða ráðh., sem ekki hafði farið höndum um málið áður og hlaut því að hika við framkvæmdir, unz honum væri það að fullu ljóst, hversu það er vaxið.

Minni hl. n. hefur aldrei dregið neina dul á það, að hann telur nauðsynlegt, að iðnaðurinn fái stofnun, sem geti leiðbeint við starf og skipulagningu opinberra fyrirtækja. Og ég held að það sýni ekki neinn fjandskap við þetta mál, þó við viljum, að það verði undirbúíð sem bezt. Hv. frsm. virtist telja, að það fælist ekki í till. okkar, að við vildum, að ríkisstj. léti undirbúa málið frekar. Ég verð því að lýsa því yfir, að við vildum fúslega standa að slíkri till. og það er einmitt það, sem fyrir okkur vakir. Hver sem hlustaði á framsöguræðu hv. þm. Barð. mun líka hafa séð, að full ástæða er til að æskja þess, að málið verði enn um hríð lagt á hilluna til undirbúnings. Það mun hafa vakað fyrir meðflm. hv. flm., að það, sem hér er um að ræða, væri lítil stofnun. En í frv. á þskj. 34 er gert ráð fyrir miklu bákni, og þegar n. klofnaði, þá var það um frv. á þskj. 34. Þær breytingar, sem hv. meiri hl. leggur til við frv. nú, hafa ekki verið ræddar í n., en af samtali við háttv. varaþm. Sjálfstfl., er hann átti sæti í n., veit ég, að hann a. m. k. reiknaði aðeins með einum manni með eina skrifstofustúlku sér til aðstoðar. En öll þau verkefni, sem hv. frsm. meiri hl, taldi í sinni ræðu að lægju fyrir iðnaðarmálastjóra, verða langt frá því unnin af einum manni. Og sýnir þetta glöggt, að sjálfur frumkvöðull lagasetningarinnar hefur ekki gert sér ljóst, hve umfangsmikil stofnun hér er á ferðinni. Þegar hann flytur yfirlitsræðu um málið, fer hann út á hinn víða grundvöll ótæmandi verkefna fyrir þessa stofnun, og er nóg að vitna til þess, þegar spurt er að rökum fyrir því, að við berum fram frávísunartill. við málið. Þau rök hefur hv. frsm. glögglega dregið fram sjálfur.

Ég held ég þurfi ekki að fara um þetta miklu fleiri orðum, en skal geta þess í leiðinni, að þegar mál þetta var rætt í n., þá kom fleira til athugunar en það, hvers konar stofnun þetta ætti að vera t. d. og hvort menn væru til, sem mættu teljast þessu verkefni vaxnir; — það kom líka til greina að athuga, hvort ekki mætti notfæra sér stofnanir, sem þegar voru til, svo sem rannsóknaráð o. fl., færa þær saman o. s. frv. Þetta er allt órannsakað.

Minni hl. n. er máli þessu alls ekki andvígur; slíkar ásakanir eru út í bláinn, og þarf ekki að tala hér yfir hausamótunum á mér fyrir það. Við óskum aðeins eftir því, að hæstv. ráðh. fái tækifæri til að setja síg inn í málið og segja álit sitt. Þó að hv. frsm. meiri hl. segi, að við í minni hl. viljum ekki sinna málinu, heldur fleygja því í ruslakörfuna, eins og hann komst að orði, þá veit hann fullvel, að ekkert slíkt liggur á bak við hjá okkur. Og við vitum, að það er svo gott samband á milli hans sjálfs og iðnmrh., að hann veit, að ríkisstj. mundi vera fús til að vinna að undirbúningi þessa máls fyrir næsta þing. Ég álít, að í þessari till. okkar um að vísa málinu til ríkisstj. felist það, að því verði vísað til hennar til athugunar. — Ég tel svo ekki þörf á því, að ég fari um þetta fleiri orðum, en ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að það hefði verið æskilegt, að frsm. minni hl. hefði veríð hér sjálfur til að ræða þetta máli