07.11.1950
Efri deild: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Ég hef aðeins tíma til stuttrar aths. og ætla að minnast á það, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði hér um, hvað ég hefði sagt í þessum umr. Ég sagði það, að landbúnaðurinn væri öruggasti atvinnuvegurinn og að það væri ótvírætt, að fólkinu við landbúnaðinn þyrfti að fjölga, ef þessi þjóð hugsaði um framtíð sína og farsæld sina í framtíðinni. Hitt veit ég, að það er um hana eins og um álfkonuna, að hún á sjö börn í sjó og sjö á landi, og um öll börn sín verður hún að hugsa. En hitt er það, að þau börnin, sem sjóinn stunda, reka atvinnuveg, sem er óöruggari en landbúnaðurinn, vegna þess að sjávarútvegurinn er rányrkja. Hann byggir ekki upp, en tekur af því, sem eyðist. En landbúnaðurinn er atvinnuvegur, sem, ef hann er vel rekinn, byggir upp fyrir framtíðina, og hver ný kynslóð, sem tekur við, er betur sett en hin fyrri. Bóndinn er sá þjóðfélagsþegn, sem kemst næst því að vera sjálfum sér nógur, en að því þarf þjóðin að stefna í heild. — Hafi ég sagt, að það væri fyrsta skylda ríkisstj. að hugsa um velferð landbúnaðarins, þá hef ég sagt það í því sambandi, að það væri ótvíræðasta skyldan. Og það er mín skoðun, sem ég tek ekki aftur.

Ég held, að það sé ekki rétt að samþ. þessa brtt. Ég held því fram, að hún sé of takmörkuð. Þrátt fyrir það, sem hv. 6. landsk. þm. sagði um t.d. betri aðstöðu Siglfirðinga en Vestfirðinga, tel ég ósannað og óvíst, að svo sé. Og í minni byggð, Húsavík, voru svo léleg aflabrögð s.l. sumar, að elztu menn segjast ekki muna því líkt. Þrátt fyrir það hef ég ekki séð ástæðu til að koma með till. um rannsókn á þessu. En ef farið verður út í þá hluti vegna aflaleysis bátaflotans s.l. sumar, þá krefst ég þess, að það verði gert viðkomandi Húsavík einnig. Þannig tel ég brtt. hv. 6. landsk. þm. of takmarkaða, þar sem hann hugsar bara um sinn landsfjórðung. Og einnig tel ég, að ekki eigi að samþ. till. um þetta efni sem brtt. við þetta frv., þó að þörf sé til rannsóknar á þessu, vegna þess að í sameinuðu þingi er till. um það efni, sem ekki er takmörkuð á þennan hátt. Og í sambandi við þá till. er eðlilegt að fram komi áhugi og vilji þingsins.