01.11.1950
Sameinað þing: 10. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (3741)

43. mál, fiskideild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég get ekki upplýst, hvað margar milljónir vantar til þess, að sjóðurinn geti staðið undir þeim skuldbindingum, sem l. leggja honum á herðar, hvort heldur miðað yrði við 5 eða 10 ára meðaltal, enda hygg ég að það liggi ekki enn fyrir, svo að öruggt sé. Það er að sjálfsögðu rétt, að þær kvaðir, sem lagðar eru á sjóðinn, eru geysimiklar og þyngri en löggjafinn hefur getað gert sér grein fyrir, þegar l. voru sett. Hins vegar verð ég að játa það, að það skiptir verulegu máli, hvort sjóðurinn í eitt starfsár verður fyrir slíku árferði sem hefur verið á þessu ári, eða t. d. hvort það hefur verið sæmileg meðalvertíð. Það munar því annars vegar, að sjóðurinn er bótaskyldur um margar milljónir, og hins vegar, að honum áskotnast a. m. k. 2 millj. og jafnvel 3–4 millj., ef árferði er gott, og ef sjóðurinn fær nokkur ár til að eflast í góðu árferði, þá er ekki örvænt um, að hann eflist svo, að hann geti risið undir sínum skyldum. Ég vil gjarnan þóknast báðum aðilum í þessu máli, vera með því, að málið sé sent til n., og vera líka með því að afgr. málið strax. En af því að mér finnst hv. flm. eiga sinn rétt í þessu máli, 1. veðrétt, og af því að mér er ómögulegt að koma auga á, að það sé minnsta hætta fyrir aflatryggingasjóðinn, þó að þessi till.afgr., af því að það verða mörg önnur tækifæri til að koma þingviljanum að, þá ætla ég að halda fast við það, að málið sé afgr. án n., ef hv. flm. óska eftir.