26.10.1950
Sameinað þing: 9. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (3772)

39. mál, þurrkví

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef hér á þskj. 60 flutt till. til þál. um byggingu þurrkvíar á Patreksfirði á þá lund, að Alþingi feli ríkisstj. að láta gera kostnaðaráætlun fyrir kví, sem taki allt að 18 þús. smálesta skip, og áætluninni verði lokið eins fljótt og kostur verður á, og kostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Forsaga þessa máls er sú, að 1943 var samþ. á Alþ. að skipa nefnd til að athuga skilyrði fyrir byggingu fullkominnar skipasmíðastöðvar á Íslandi. N. komst að þeirri niðurstöðu, að nauðsynlegt væri að koma hér upp tveimur þurrkvíum, annarri fyrir um 4 þús. smálesta skip og hinni, sem tæki 6 þús. smálesta skip til viðgerðar. En auk þess taldi n. nauðsyn á að byggja 2 dráttarbrautir, því að þá var svo ástatt, að ógerlegt var að taka upp stærri skip landsmanna. Það var því aðkallandi 1943 að byggja þurrkví, sem gæti fullnægt þörfum íslenzka flotans. Nefndin athugaði gaumgæfilega þetta mál í samráði við hafnarstjórann hér í Reykjavík og komst m. a. að þeirri niðurstöðu, að útilokað væri að byggja þurrkví innan Reykjavíkurhafnar og að velja yrði henni stað utan Reykjavíkur. Nefndin áleit, að heppilegasti staðurinn til byggingar slíkrar kvíar væri við Elliðavoginn fyrir innan sjúkrahúsið á Kleppi, og lagði hún fram áætlun í sambandi við framkvæmd verksins. Árangurinn af þessu starfi hennar varð sá, að borið var fram frv. á Alþingi um breyt. á hafnarlögum Reykjavíkurkaupstaðar. Í þetta skipti var hafnarlögunum breytt þannig, að ákveðið var, að ríkissjóður legði fram allt að 2 millj. króna til byggingar þurrkvíar í Reykjavík, en auk þess ábyrgðist hann 2–3 millj. króna lán til framkvæmdanna. Frv. þetta var samþ. ágreiningslaust á Alþingi 1943. Síðan hefur ekkert verið gert í málinu, og situr það enn í sama horfinu og fyrir 7 árum. Þó hefur það skeð, að einstaklingar hafa komið upp nýrri dráttarbraut hér í Reykjavík, sem getur tekið allt að 1500 smál. þunga. Leituðu þeir aðstoðar Alþingis til þess að koma því í framkvæmd, og varð Alþingi við þeirri málaleitan m. a. vegna þess, að ekkert hafði verið gert í fyrrnefndu máli, en vegna nýrra skipa, sem Íslendingar höfðu eignazt, var mjög mikil þörf á nýrri dráttarbraut. Nú er ástandið raunar hið sama og 1943. Það er ekki hægt að taka hér til hreinsunar né viðgerðar neitt skip yfir 1500 smálestir, engan nýja Fossinn, ekki Heklu eða Esju nema með áhættu, og ekkert af erlendum skipum, sem sigla til landsins.

Fyrir Alþingi hefur legið beiðni um að fá 3 millj. kr. ábyrgð til að byggja nýja braut fyrir 2300 smál. þunga. Var áætlað, að slík braut mundi kosta um 10 millj. króna. Hæstv. sjútvmrh. hefur látið athuga málið, hvort beri að nota slíka ábyrgð hér og þá hvort sú dráttarbraut gæti að fullu bætt úr þörfinni um lengri tíma. Niðurstöður þeirra athugana urðu þær, að það væru um 12 skip á Íslandi, sem ekki væri hægt að taka upp í braut hérlendis nú sem stæði, og þótt ný braut fyrir 2300 smál. þunga yrði byggð, þá yrðu þau að minnsta kosti 3, sem hún ekki tæki; að þegar 11 skip bætast við flotann, þá mundu skapast erfiðar aðstæður við hreinsun og viðgerð skipanna; að útilokað væri að taka upp erlend skip nema þrengja mjög að íslenzku skipunum; að mjög sé aðkallandi að byggja nýja þurrkví; að þurrkvíin geti ekki verið innan Reykjavíkurhafnar, og að stærð hennar þyrfti helzt að vera fyrir allt að 1600 smál. þunga. Enn fremur, að slíkt mannvirki mundi nú kosta tugi millj. króna.

Nú er það svo, að verið er að byggja einstæða höfn á Patreksfirði. Hún er grafin á þurru landi, og á meðan byggingin stóð yfir, fékkst sú reynsla, að jarðvegurinn í botninum er svo öruggur, að enginn vandi var að halda vatninu úti á meðan gröftur fór fram. Síðan var grafinn skurður til sjávar, og er því verki nú að ljúka.

Mín skoðun er sú, að þarna sé hægt að koma fyrir þurrkví, sem tekið gæti allt að 1800 smál. þunga, og að kostnaður við slíka þurrkví yrði ekki nema brot af því, sem hann yrði annars staðar. Þess vegna hef ég borið málið fram, og til þess að fá úr því skorið, hvort ekki þyrfti minna fé til slíkra framkvæmda við þær aðstæður, sem fyrir hendi eru á Patreksfirði, en annars staðar. Ég held, að það þyrfti lítið annað en reka niður tré og fylla upp með því efni, sem kemur upp úr höfninni. Þegar skip væru ekki til hreinsunar eða viðgerðar, mætti svo nota kvína sem athafnasvæði fyrir þau skip, sem væru stödd þar hverju sinni. Það hefur komið til mála að fá samastað fyrir Hæring á Patreksfirði, því að það mun einróma álit, að þar sé nægilegt vatnsdýpi og kyrrð í höfn. Þarna er og fyrir nægilegt athafnasvæði og þarf því ekki að leggja fé í að skapa nýtt svæði. Það er einnig hugsanlegt, að skipta mætti þurrkvínni í tvennt, sem síðan mætti sameina í eina fyrir stærri skip.

Ég álít það óverjandi, ef þessu máli verður ekki hrundið áfram. Ég fer aðeins fram á það hér, að þetta sé rannsakað, og auðvitað er ég því ekki mótfallinn, að aðrir staðir séu athugaðir í sama tilgangi. Mér er það mikið áhugamál, að málið verði ekki svæft í önnur 7 ár.

Hingað koma oft erlend skip, og það er enginn vafi á því, að ef hægt væri að taka þau upp í kví hér, þá mundi það hafa stórkostleg áhrif á vátrygginguna og mundi borga sig á skömmum tíma. Hvert það útgerðarfélag, sem sendir skip sín hingað, verður að tryggja fyrir því, að það fái þau tjón bætt, sem verða á skipum þess hér. Í því sambandi má minna á olíuskipið, sem strandaði inn við Laugarnes. Kemur þetta óstand allt niður á fólkinu í landinu í hækkuðum vátryggingargjöldum.

Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta öllu lengur. Ég óska eftir því, að málinu verði að lokinni umræðu vísað til hv. fjvn.