10.11.1950
Neðri deild: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið hér við í gær, er mál þetta var tekið fyrir, og var þannig nokkur ástæða til að óska, að málinu væri frestað. — Ég þarf nú naumast að hafa um þetta langa framsögu; málið hefur þegar verið mikið rætt í hv. Ed. og út frá þeim umræðum í dagblöðunum, svo að það er mjög kunnugt hv. þm. En það er upphaf þessa máls, að miklir óþurrkar gengu á stórum svæðum í landinu í sumar, eða á Austur- og Norðurlandi og á miklum hluta Vestfjarða. Á þessu svæði voru óþurrkarnir það miklir, að þeir ollu tjóni, sem sýnilegt var að ekki varð komizt hjá að hjálpa bændum að risa undir, og gaf því ríkisstj. út, sem kunnugt er, bráðabirgðalög um það efni. Sú hjálp nær þó ekki aðeins til bænda, heldur engu síður til þess fjölda manna á þessu svæði, sem býr í þorpum og styðst að verulegu leyti við landbúnað sér til lífsbjargar ásamt daglaunavinnu og sjósókn.

Það var seinni part sumars, að búnaðarmálastjóri ritaði landbrn. bréf og benti þar á, hvernig ástatt væri, og ráðuneytið skipaði því næst þá Árna G. Eylands og hv. 1. þm. N-M. til að ferðast um þessar sveitir og safna skýrslum um ástandið. Þessar skýrslur hafa ekki verið prentaðar, en hv. landbn. hefur vitanlega aðgang að þeim eftir geðþótta. Á grundvelli þessara skýrslna lögðu þeir til, að reynt yrði að bæta tjónið með óafturkræfu framlagi, er næmi 11/2 millj. kr., og 3 millj. kr. láni. Engir fá bætur, sem ekki hafa orðið fyrir tjóni, er nemur 20% eða meira, og ekkert tillit er tekið til þess, hvort heyfengurinn er skemmdur eða ekki, en það er vitað mál, að nýting verður víða mjög slæm, t.d. hjá þeim, sem brugðu við á síðustu stundu að koma sér upp votheyshlöðum til þess að heyið eyðilegðist ekki alveg. Eftir að þessir tveir menn höfðu rannsakað tjónið á hverjum stað, skiluðu þeir skýrslum sínum til landbrn., og það gerði sér eftir þeim grein fyrir, hvað eðlilegt væri að lána hverjum hreppi. En þegar heildarúthlutun til hvers hrepps hefur verið ákveðin, taka viðkomandi hreppsnefndir við og framkvæma skiptinguna á milli hreppsbúa með tilliti til tjónsins á hverju býli, efna og annarra ástæðna. Ég hef talið, að ekki væri hægt að finna öllu réttlátari úthlutunargrundvöll en þennan, þar sem byggt er á skýrslum þessara manna, sem ríkisstj. telur hafa unnið verk sitt af mikilli rögg og samvizkusemi, og hreppsnefndirnar síðan látnar annast úthlutunina til einstaklinga, en þær munu hvar í sveit sem er hafa fullan hug á að framkvæma hana réttlátlega, enda hafa þær um það sterkt aðhald af hreppsbúum á hverjum stað. Ég held því, að ekki þurfi að draga það í efa, að rétt hafi verið að veita þessa hjálp, þar sem það er upplýst, að aðrir eins óþurrkar hafa ekki komið hér á landi síðastliðna hálfa öld. Og í annan stað held ég þurfi ekki að efast um það, að skýrslurnar um ástandið hafi verið eins vel og samvizkusamlega unnar og framast mátti gera ráð fyrir á ekki lengri tíma en þeim, sem þarna var til stefnu. Og í þriðja lagi held ég að ekki verði deilt um, að sú úthlutunaraðferð, sem hér er viðhöfð, sé hin rétta. Enn fremur er þá augljós nauðsyn þess að gefa út um þetta bráðabirgðalög, þegar þess er gætt, að hér þurfti að bregða við í skyndi, þar sem hver einstakur hreppur varð að fá vitneskju um það, hvers hann mætti vænta um aðstoð, áður en slátrun hæfist, og hver einstakur bóndi að vita, hvað hann mætti setja á. Á meðan málið var hjá stjórn Búnaðarfélagsins, eða í 3 daga, var því öllum oddvitum símað og þeim sagt, hvenær svör bærust, svo að þeir gætu þá verið búnir að boða fundi, svo að hægt væri að gera hverjum bónda ljóst í tíma, hve mikillar aðstoðar hann mætti vænta.

Enda þótt mál þetta sé nú svona vaxið, hefur þó nokkuð verið deilt um það í hv. efri deild, og aðallega er það einn hv. þm., sem vítir meðferð málsins og telur, að bjargráðasjóður hefði átt að annast þetta. Vitanlega hefði verið hugsanlegt að fá stjórn bjargráðasjóðs til að fara í þessa ferð og afla þeirra gagna, sem hér um ræðir. En þó er það nú svo, að ég gerði mér ekki ljóst, er þessir tveir menn fóru í þetta ferðalag, hver næstu skrefin yrðu, og ekki fyrr en skýrslurnar voru komnar; þá varð fyrst ljóst, hvað gera þurfti. En þá hefði það ekki orðið annað en formið eitt að kveðja þá til stjórn bjargráðasjóðsins, og við töldum það ekki eðlilegt, er málið var komið á þetta stig. Í öðru lagi voru svo engir peningar til í bjargráðasjóði og sjóðurinn þess ekki megnugur að veita þá aðstoð, er hér var um að ræða, og stóð þannig svipað á og um hjálp við sjávarútveginn á undanförnum árum. Enda er vitað, að ef sjóðurinn hefði verið látinn taka milljónir að láni í þessu skyni, þá er sérstaklega tekið fram í lögum sjóðsins, að árstekjur hans skuli vera að veði til árlegrar endurgreiðslu slíkra lána, og þetta hefði verið sama og að koma því til vegar, að bjargráðasjóður hefði ekki gert annað næstu 10 árin en að endurgreiða þetta og ekki getað rétt hjálparhönd allan þann tíma.

Ég mun svo ekki ræða þetta meira að sinni, nema sérstakt tilefni gefist. Sé ég ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að orðlengja þetta frekar, en ég leyfi mér að óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.