22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (3907)

168. mál, landhelgisgæzla og aðstoð til fiskibáta

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir hennar afgreiðslu, og þá sérstaklega minni hl. hennar, sem leggur til, að þáltill. mín á þskj. 583 verði samþ. Þess ber þó einnig að gæta, að meiri hl. sýnir viðleitni í þá átt að leysa úr því, sem till. mín fer fram á, en það sorglega mundi ske, ef þeirra till. yrði samþ., að þessi viðleitni mundi að engu verða. Þessi till. er flutt eftir beinni áskorun til mín og margendurteknum áskorunum til ríkisstj. og Pálma Loftssonar, sem þessi mál hefur með höndum, um betri landhelgisgæzlu við Snæfellsnes, — þetta mundi að engu verða, ef till. hv. meiri hl. fjvn. yrði samþ.

Það er senn nokkuð liðið á þessa aðalvertíð okkar við Breiðafjörð, og ef Pálmi Loftsson á fyrst að taka til athugunar, hvort hægt yrði að notast við þann skipakost, sem fyrir hendi er við landhelgisgæzluna, — en það mundi hafa í för með sér, að minna eftirlit yrði þar, sem þessi skip eiga nú að vera, og í öðru lagi, að eftir sem áður yrði engin gæzla við Breiðafjörð, — þá er ég hræddur um, að lítið verði eftir af vertíðinni, þegar sérstakur varðbátur er kominn á þessar stöðvar, ef í ljós kemur við þessa athugun, að það er nauðsynlegt. — Ég get ekki trúað því, að hv. 6. landsk. þm. meini það, að María Júlía eigi að sinna landhelgisgæzlu við Breiðafjörð. Ég trúi ekki, að hann mæli þar fyrir munn Vestfirðinga.

Það sorglega er, að eins og landhelgisgæzlan við Breiðafjörð hefur verið á undanförnum árum, þá er beinlínis verið að vísa landhelgisbrjótum á Breiðafjörð sökum þess, að þar eru þeir öruggir, þar er engin gæzla og enginn, sem ónáðar þá, og ef till. meiri hl. fjvn. verður samþ., þá verður það eins áfram.

Ég hef litlu við það að bæta, sem frsm. minni hl. fjvn. sagði, hann rakti svo rækilega, hvernig ástandið er og þörfin brýn á að fá þarna staðbundna gæzlu. Ég vil því skora á hv. þm.samþ. till., eins og minni hl. leggur til að gert verði. Eins og búið er að taka hér fram áður, þá hefur á undanförnum árum verið óvenju mikið af erlendum skipum við Snæfellsnes, og ég vil halda því fram, að það sé mikið af því að landhelgisgæzlan hefur engin verið, þessi skip hafa haft fullt öryggi fyrir því að fá að vera í friði, jafnvel innan landhelgi.

Eins og flestir vita, þá er línuveiðin á þessari aðalvertíð við Breiðafjörð öll utan landhelgi, og þess vegna er, eins og ég sagði um daginn, oft mjög erfitt fyrir bátana að stunda veiðarnar. Þegar þeir ætla að leggja línuna á sínum venjulegum línumiðum, þá er það ekki hægt, af því að togararnir eru þar á sömu slóðum, veiðarfæri hafa líka orðið fyrir margs konar skemmdum af sömu orsökum, þegar búið er að leggja þau í sjó. Ég vonast þess vegna fastlega til, að hv. þm. samþ. þáltill. mína á þskj. 583 óbreytta, svo að hún komi að tilætluðum notum.